Fara í efni  

Uppbygging á Jaðarsbökkum

Þann 7. mars 2023 var undirrituð viljayfirlýsing milli Ísoldar fasteignafélags ehf. (Ísold), Íþróttafélags Akraness (ÍA), Knattspyrnufélags Í.A. (KFÍA) og Akraneskaupstaðar um uppbyggingu hótels, baðlóns og heilsulindar á Jaðarsbökkum Akranesi. Yfirlýsingin felur jafnframt í sér að Akraneskaupstaður úthluti Ísold lóðum fyrir 80-120 íbúðir á Akranesi sem eru bundnar því skilyrði að uppbygging Ísoldar á hóteli,  baðlóni og heilsulind raungerist. Akraneskaupstaður og Ísold vinna nú að gerð samnings um úthlutun lóða fyrir íbúðirnar á Sementsreit.

Breyta þarf skipulagi á Jaðarsbakkasvæðinu til að gera ráð fyrir uppbyggingunni. Fengnar voru þrjár arkitektastofur, Basalt, Sei og Nordic, til að gera tillögu að skipulagi svæðisins og kynntu stofurnar hugmyndir sínar m.a. á opnum kynningafundi í Bíóhöllinni í október 2023, en Akraneskaupstaður hefur rétt á að nýta hugmyndir frá öllum stofunum í skipulagsvinnunni. Upptaka frá fundinum er hér fyrir neðan. Á sama fundi voru kynntar tillögur að stefnumótun fyrir svæðið sem starfshópur með fulltrúum frá aðilum að viljayfirlýsingunni vann, en kynningu formans hópsins má einnig finna á upptökunni frá fundinum.

Skipulags- og umhverfisráð lagði til að gengið yrði til samninga við Basalt arkitekta um deiliskipulagsvinnu á Jaðarsbökkum. Bæjarstjórn samþykkti tillögu ráðsins á fundi sínum 28. nóvember 2023.

Vinna hófst í lok nóvember 2023 við aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Jaðarsbakkasvæðið. Akraneskaupstaður hefur hug á að vinna skipulagið í samstarfi við Ísold, ÍA og KFÍA, líkt og kemur fram í viljayfirlýsingunni, og því hafa verið reglulegir fundir með Ísold og fulltrúar frá ÍA og KFÍA setið fundi skipulags- og umhverfisráðs þegar málið er þar til umfjöllunar. Stefnt er að því að skipulagsferlinu ljúki á þriðja ársfjórðungi 2024.

Í janúar 2024 var gerð samantekt fyrir skipulags- og umhverfisráð um framgang verkefnisins frá mars 2023 til janúar 2024, vinnu starfshóps um stefnumótun fyrir svæðið, ásamt helstu skrefum framundan í skipulagsferlinu.

Í byrjun maí 2024 barst Akraneskaupstað skriflegt erindi frá stjórn KFÍA þar sem fram kom ályktun og afstaða stjórnar varðandi snúning á aðalknattspyrnuvelli. Á fundi bæjarráðs þann 16. maí 2024 var samþykkt að stofna starfshóp um skipulag Jaðarsbakka með fulltrúum frá aðilum sem stóðu að viljayfirlýsingunni, og bæjarstjórn samþykkti stofnun hópsins og erindisbréf vegna þess á fundi sínum 11. júní 2024. Fundargerðir starfshópsins eru aðgengilegar á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00