Leikskólar
Á Akranesi eru starfandi fjórir leikskólar sem starfa eftir lögum og reglugerðum um leikskóla sem og skólastefnu Akraneskaupstaðar. Mennta- og menningarmálaráðuneyti mótar uppeldisstefnu leikskóla í aðalnámskrá en sérhver leikskóli skipuleggur og starfar eftir sínum áherslusviðum og gerir eigin áætlanir sem byggja á markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrá.
Samkvæmt lögum um leikskóla bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla og skulu þau hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl. Akraneskaupstaður ber ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er ekki skylda. Leikskólinn er fyrir öll börn sem eru yngri en sex ára.
Tengiliður leikskóla er Maren Ósk Elíasdóttir, sem veitir nánari upplýsingar í tölvupósti og í síma 433-1000. Tengiliður leikskóla hefur umsjón með faglegu leikskólastarfi á Akranesi, sérfræðiþjónustu, biðlistum og innritun í skóla.
Leikskólar á Akranesi
Akrasel er sex deilda skóli sem leggur áherslu á umhverfismennt, jóga og hollt mataræði. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu skólans; http://www.akrasel.is/
Garðasel er sex deilda heilsuleikskóli með áherslu á hreyfingu, holla næringu, listsköpun í leik og starfi og jákvæð og uppbyggjandi samskipti. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu skólans; https://www.gardasel.is/is
Teigasel er þriggja deilda leikskóli þar sem unnið er að því að hvetja barnið til gagnrýninnar hugsunar og örva um leið sköpunar- og leikgleði þess. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu skólans; http://teigasel.is/
Vallarsel er sex deilda leikskóli sem leggur áherslu á fjölbreytt tónlistarstarf, frjálsan leik og heimspekilegar samræður í allri þemavinnu. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu skólans; http://www.vallarsel.is/
Verklagsreglur um innritun í leikskóla
Aðeins er hægt að innrita börn í leikskóla sem eiga lögheimili á Akranesi. Þeir sem hafa tekið ákvörðun um að flytja á Akranes geta sótt um þremur mánuðum fyrir flutning. Innritað er í leikskóla á því ári sem börn verða tveggja ára og inntaka fer að jafnaði fram að loknu sumarleyfi leikskólanna. Börn sem að mati sérfræðinga hafa sérstaka þörf fyrir leikskóladvöl hafa forgang í leikskóla. Umsóknir um forgang eru teknar fyrir á fundi með sérfræðiþjónustu skóla. Með beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá sérfræðingum eða læknisvottorð. Reglurnar í heild sinni eru aðgengilegar hér
Foreldrar/forráðamenn sækja um leikskólavist í íbúagátt Akraneskaupstaðar. Hægt er að sækja um leikskóla strax og kennitala barns hefur verið skráð. Börn innritast í leikskóla eftir kennitölu, þau elstu fyrst
Læsisstefna leikskóla Akraneskaupstaðar
Þann 22. september 2015 skrifaði Regína Ásvaldsdóttir, þáverandi bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, undir Þjóðarsáttmála um læsi. Í kjölfarið bókuðu bæjarráð Akraneskaupstaðar ásamt skóla- og frístundasviði vegna undirritunarinnar að áhersla yrði á mikilvægi þess að tryggja faglegt sjálfstæði skóla og sveitarfélaga hvað varðar val á aðferðarfræði í lestrarkennslu. Í framhaldi var tilnefndur starfshópur um læsi. Í honum eru aðstoðarleikskólastjórar en þeir eru einnig sérkennslustjórar sinna skóla.
Markmiðið var að:
- Að efla starfshætti leikskóla Akraneskaupstaðar með tilliti til undirritunar sáttmála um eflingu læsis.
- Að gera átak í að efla málþroska og læsi í leikskólum Akraneskaupstaðar.
- Að auka þekkingu starfsfólks á leiðum til að efla málþroska og læsi leikskólabarna.
- Að samræma starfshætti og miðla þekkingu á milli leikskólanna.
- Að auka þekkingu foreldra á hlutverki og mikilvægi þeirra í málörvun og lestrarnámi barna.
- Að útbúa árganganámskrár fyrir málörvun og læsi í leikskóla.
Nú er mál til komið:
Samstarf leikskóla og grunnskóla - Brúum bilið
Sveitarstjórn skal koma á samstarfi leikskóla og grunnskóla. Nánar er greint frá samstarfinu í aðalnámskrá. Grunnur að samstarfinu "Brúum bilið" á milli leikskóla og grunnskóla á Akranesi má rekja til ársins 1994. Markmið samstarfsins er m.a. að tengja skólastigin saman, að skapa samfellu í námi og kennslu barna/nemenda og að stuðla að vellíðan og öryggi barna þegar þau fara milli skólastiga.