Sorphirða og endurvinnsla
MEÐHÖNDLUN ÚRGANGS
Umhverfisvernd og ábyrgð í umgengni um náttúruna eru mikilvæg atriði sem varða okkur í nútíð og framtíð. Flokkun sorps og rétt meðhöndlun þess er stór þáttur í að tryggja lífskjör til frambúðar. Sveitarfélagið sér um sorphirðu frá heimilum og rekur grenndarstöðvar og móttökustöðina Gámu fyrir heimili á Akranesi. Atvinnurekstur og stofnanir sjá um söfnun og ráðstöfun síns úrgangs.
Upplýsingar um staðsetningu á þjónustu varðandi úrgangsmál er að finna í Kortasjá Akraness undir Þjónusta og svo velja Grenndargámar.
Breyting í flokkun á úrgangi frá heimilum
Upplýsingar eru á annarri síðu sjá hér
Þjónustuaðili
Þjónustuaðili okkar í úrgangsmálum, Terra kennir sig við umhverfisþjónustu. Þeir sjá um almenna sorphirðu frá heimilum, þjónustuna á grenndarstöðvum og alla þjónustu á móttökustöðinni Gámu í Höfðaseli. Nýr samningur var gerður við Terra á árinu 2024 eftir útboð.
Tímasetningar á hirðu frá heimilum má sjá hjá Terru.
Móttökustöðin Gáma
Íbúar á Akranesi geta losað sig við margvíslegan úrgang í móttökustöð Gámu í Höfðaseli 16, sem Terra sér um rekstur á.Klippikort gilda áfram sem afsláttur fyrir ýmsan úrgang frá heimilum til loka janúar, ný kort eru ekki afhent á þessu ári.
Í byrjun febrúar tekur gildi ný gjaldskrá sem byggir á rúmmáli úrgangs og með mismunandi upphæð eftir úrgangsflokkun. Þessi breyting verður kynnt sérstaklega fyrir breytingu.
Notendur eru hvattir til að flokka úrganginn heima hjá sér áður komið er með hann og honum skilað í rétta gáma á stöðinni, því með nýrri gjaldskrá verður innheimt hæsta gjaldið fyrir óflokkaðan úrgang.
Opnunartími Gámu er alla virka daga frá kl. 10-12 og 13-18 og á laugardögum frá kl. 10-14.
Söfnun nytjahluta fyrir nytjamarkaðinn Búkollu er ekki lengur í Gámu, heldur er vísað í móttökuna á Smiðjuvöllum 9.
Sorpílát
Við öll heimili eiga að vera ílát fyrir 4 úrgangsflokka, til flokkunar á úrgangi. Flokkarnir eru fyrir lífrænn, pappi og pappír, plast og blandaður úrgangur. Mismunandi stærð af ílátum er í boði, eftir úrgangsflokkum.
Afgreiðsla sorpíláta fer fram í gegnum þjónustuver Akraneskaupstaðar, hvort sem verið er að fá ílát í fyrsta skipti, bæta við íláti, fækka þeim eða endurnýja þau. Senda skal inn umsókn með því að fylla út eyðublað hér.
Grenndarstöðvar
Á nokkrum stöðum í bæjarfélaginu hefur verið komið upp gámum fyrir úrgang til að auka þjónustu varðandi flokkun frá heimilum. Þar eru 4 gámar með litlum innmötunargötum fyrir glerumbúðir og annað hreint gler, málmumbúðir og aðrar hreina málma, pappír og pappa og plastumbúðir og annað plast. Í dag eru þessar grenndarstöðvar staðsettar á bakvið Bíóhöllina, Vesturgötu, bakvið Bókasafnið, Dalbraut og á safnasvæði Byggðasafnsins á Garðaholti.
Flöskur og dósir
Í Fjöliðjunni á Akranesi er boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. Á hverju ári tekur starfsfólk Fjöliðjunnar á móti, flokkar og telur á þriðju milljón umbúða. Þetta eru umbúðir með skilagjaldi, þ.e. áldósir, plastflöskur og glerflöskur frá almenningi og greiðir út skilagjald fyrir þær. Móttökustöð Fjöliðjunnar er staðsett á Smiðjuvöllum 9 og er hún opin alla virka daga frá kl. 9:00-11:45 og frá kl: 13:00-15:30.
Fatnaður
Á Smiðjuvöllum 9 eru staðsettir 2 móttökugámar á vegum Rauða Krossins fyrir fatnað og annan vefnað. Starfsfólk Fjöliðjunnar sér um að meðhöndla fatnaðinn, flokka og koma honum í áframhaldandi nýtingu í samstarfi við Rauða Krossinn.
Búkolla
Nytjamarkaðurinn Búkolla hefur verið starfandi á Akranesi síðan árið 2009. Starfsemi Búkollu felst í endurnýtingu fatnaðar og alls þess sem að heimilishaldi lýtur. Akurnesingar hugsa hlýlega til Búkollu þegar þeir losa sig við fatnað, húsgögn eða annan húsbúnað sem öðlast nýtt líf á öðrum heimilum. Í Búkollu býðst fólki á örorku og endurhæfingu störf.
Búkolla er staðsett á Smiðjuvöllum 9 og er markaðurinn opinn fimmtudaga til laugardaga kl. 12-15. Vörumóttaka er þriðjudaga til föstudaga kl. 10-15 og laugardaga kl. 12-15. Einnig er vörumóttaka á móttökustöð Gámu í Höfðaseli á opnunartíma Gámu.
Förgun bifreiða
Íbúar Akraness geta núna komið skilað ökutækjum sínum til förgunar í Gámu. Ökutækið skal vera á dekkjum og má ekki leka olíu eða öðrum vökvum.
Fylla skal út umsókn um afskráningu. Sjá leiðbeiningar á https://island.is/skilavottord.
Þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum og velur svo það ökutæki sem á að farga. Þegar þú hefur staðfest valið og sent inn umsóknina, þá ferðu með ökutækið á móttökustöð. Að því loknu og þegar ökutækið hefur verið afskráð færðu greitt skilagjald.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Eldri fréttir í tengslum við sorphirðu og endurvinnslu