Menningarhátíðin Vökudagar
Á Akranesi er mannlíf í miklum blóma. Íbúar á Akranesi hafa aldrei verið fleiri og bærinn stækkar ört. Í blómlegum bæ er mikilvægt að menningarlíf sé öflugt og fjölskrúðugt þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Í lok október og byrjun nóvember ár hvert býður Akraneskaupstaður í samvinnu við mennta- og menningarstofnanir bæjarins, einstaklinga og hópa úr bæjarfélaginu til menningarhátíðarinnar Vökudaga. Tilgangur hátíðarinnar er að efla menningarlíf í bænum og lífga um leið upp á skammdegið.
Umfang hátíðarinnar hefur aukist ár frá ári og hefur hún notið vaxandi vinsælda meðal bæjarbúa; reyndar hefur hróður hennar borist langt út fyrir bæjarmörkin enda sækir fólk úr nágrannasveitarfélögum og jafnvel víðar að þessa skemmtilegu hátíð. Dagskrá hennar og viðburðir hafa sömuleiðis orðið viðameiri með hverju árinu og einnig hefur þátttaka fyrirtækja og stofnana aukist jafnt og þétt. Þannig hafa Vökudagar öðlast sinn fasta sess í bæjarlífinu.
Á Vökudögum fer fram fjöldi metnaðarfullra viðburða, listasmiðjur, tónlistarhátíðir, einka- og samsýningar, hrollvekjuhús og margt fleira.
Setningarhátíð Vökudaga fer fram á fimmtudegi og þá eru veitt Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar. Í kjölfar setningarhátíðarinnar fara bæjarbúar og fleiri góðir gestir af stað í Listagöngu Vökudaga, þá býður listafólk gestum og gangandi inn á vinnustofur sínar, einka- og samsýningar opna og mikið líf er í bænum.
Á Vökudögum eru haldnar tvær glæsilegar tónlistarhátíðir, Heima-skagi og Lilló Hardcorefest. Heima-skagi er hátíð sem haldin er í heimahúsum, húsnæði Akraneskaupstaðar, hjá fyrirtækjum og endar hátíðin með stórum tónleikum í Bíóhöllinni. Hér má sjá myndir frá hátíðinni 2024. Lilló Hardcorefest er harðkjarna punk hátíð sem opnar augu gesta fyrir jaðartónlistarsenunni. Hátíðin er opin fyrir allann aldur og er haldin í Gamla Landsbankanum.
Árlegt hrollvekjuhús Byggðasafnsins í samvinnu við Auði Líndal og ungmenni í bæjarfélaginu er afar metnaðarfullt verkefni sem fær hárin til að rísa, á hverju ári koma um 3000 manns og heimsækja þessa merkilegu sýningu sem haldin er á safnarsvæðinu - Verkefnið er unnið í tilefni af Vetrarnóttum sem eru forn tímamót til þess að fagna upphafi vetrar. Hér getið þið séð myndir frá Hrollvekjuhúsinu 2024.
Bókmenntakvöld Bókasafnsins á Akranesi er afar vel sóttur viðburður og hefur fest sig í sessi á Vökudögum. Þá kemur fólk saman sem hafa áhuga á bókmenntum, hlýða á höfunda lesa úr verkum sínum, kaupa áritaðar bækur og eiga notalega stund saman. Viðburðinum er ætlað að gera bókmenntum og sköpurum þeirra hátt undir höfði og gefa þeim færi á að koma verkum sínum á framfæri. Einnig að ýta undir bókmenntaáhuga og hvetja til lesturs.
Við hvetjum ykkur til þess að láta sjá ykkur á Vökudögum ár hvert og upplifa menningu eins og hún gerist best.