Aðalskipulag
Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélög þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á minnst 12 ára tímabili.
Aðalskipulag Akraness 2021-2033 var samþykkt í bæjarstjórn Akraness þann 25. október 2022 og staðfest af Skipulagsstofnun þann 27. desember 2022.
Um aðalskipulag sveitarfélaga
Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð aðalskipulags í umboði sveitarstjórnar og er það skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar sem fer með hlutverk skipulagsnefndar. Í upphafi nýs kjörtímabils skal sveitarstjórn taka afstöðu til þess hvort endurskoða skuli gildandi aðalskipulag. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og staðfest af Skipulagsstofnun.
Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi;
-
-
landnotkun
-
byggðaþróun,
-
byggðamynstur,
-
samgöngu- og þjónustukerfi
-
umhverfismál
-
Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þar með talið þéttleika byggðar. Í aðalskipulagi eða breytingu á því, er heimilt að setja fram nánari stefnu, svo sem um nýbyggingarsvæði eða endurbyggingarsvæði í eldri byggð eða um einstök viðfangsefni.
Aðalskipulag skal byggt á landsskipulagsstefnu, svæðisskipulagi, liggi það fyrir, upplýsingum um náttúru- og menningarminjar og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins. Þá skal jafnframt gætt að samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga.
Í aðalskipulagi skal marka stefnu til að minnsta kosti tólf ára en jafnframt gera grein fyrir samhengi skipulagsáætlunarinnar og einstakra þátta hennar við langtímaþróun sveitarfélagsins.
Aðalskipulag Akraness 2021-2033
Greinagerð og uppdrættir af aðalskipulagi