Fara í efni  

Þjónusta við fatlaða

Stuðningsþjónusta

Auk félagslegrar ráðgjafar veitir félagsþjónustan sérhæfða ráðgjöf til fatlaðra og fjölskyldna þeirra, m.a. í formi stuðningsviðtala og ráðgjafar til fólks úti í þjóðfélaginu sem starfar með fötluðu fólki. Hjá deildinni getur fólk m.a. fengið upplýsingar um rétt sinn til þjónustu en mat á þjónustuþörf er unnið í samvinnu við þá aðila sem í hlut eiga. Samhæfing ýmissa þátta, s.s. skóla, heimilis, tómstunda og vinnu, er nauðsynleg til að þjónustan nýtist sem best. Samstarf er við greiningar- og meðferðaraðila í heimabyggð og á höfuðborgarsvæðinu.

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi hafa rétt á að sækja um sérhæfða ráðgjöf. Hægt er að óska eftir viðtali í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með því að hafa samband við þjónustuver Akraneskaupstaðar í síma 433 1000. Eftir móttöku umsóknar er umsækjandi boðaður í viðtal hjá starfsmanni félagsþjónustunnar. Í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina. Skriflegt svar sendist umsækjanda að afgreiðslu lokinni.

Nánari upplýsingar um sérhæfða ráðgjöf veitir Berglind Jóhannesdóttir berglind.johannesdottir@akranes.is  og í síma 433 1000.

Atvinna með stuðningi

Í lögum um málefni fatlaðra segir að veita skuli fötluðu fólki aðstoð til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði þegar þess gerist þörf. Skal það gert með sérstakri liðveislu á vinnustað, svo og fræðslu og leiðbeiningum til annars starfsfólks. Eins skal veita fötluðu fólki starfsþjálfun í almennum fyrirtækjum eða stofnunum þar sem því verður við komið. Í þeim tilvikum skal gera sérstakan samning þar sem m.a. er kveðið á um þjálfunartímabil og greiðslu kostnaðar. Er það gert í samvinnu við atvinnurekanda og Tryggingarstofnun ríkisins. 

Fatlaðir með lögheimili á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit hafa rétt á að sækja um þjónustuna. Hægt er að óska eftir viðtali í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með því að hafa samband við Þjónustuver Akraneskaupstaðar í síma 433 1000. Eftir móttöku umsóknar er umsækjandi boðaður í viðtal hjá umsjónarmanni atvinnu með stuðningi. Í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina. Skriflegt svar sendist umsækjanda að afgreiðslu lokinni.

Nánari upplýsingar um atvinnu með stuðningi veitir Guðmundur Páll Jónsson forstöðumaður Fjöliðjunnar bæði í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall.jonsson@akraneskaupstaður.is og í síma 433 1720.

Búsetuþjónusta fatlaðra

Einstaklingur með fötlun telst sá sem vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun eða sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing langvarandi veikinda eða slyss. Í lögum um málefni fatlaðra er kveðið á um að  fólk með fötlun skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Hér á heimasíðu Velferðarráðuneytisins má einnig finna gagnlegar upplýsingar.

Réttur til búsetuþjónustu fatlaðra

Búsetuþjónusta fatlaðra er veitt bæði fötluðu fólki sem býr í eigin húsnæði, leiguhúsnæði á eigin vegum sem og fólki sem býr í íbúðakjörnum og á sambýlum. Þjónustan er veitt samkvæmt þjónustuáætlun eða þjónustusamningi við viðkomandi aðila sem byggist á niðurstöðum mats og samkomulagi við viðkomandi eða talsmann hans.

Umsókn um búsetuþjónustu

Fatlað fólk með lögheimili á Akranesi getur sótt um búsetuþjónustu rafrænt í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar eða með skriflegri umsókn til félagsþjónustu Akraneskaupstaðar. Á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar er metin þörf fyrir stuðning í samráði við umsækjanda eða aðstandendur hans. Umsóknir eru gildar þegar umsækjandi hefur náð 16 ára aldri. Þjónusta kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en eftir að 18 ára aldri hefur verið náð.

Frekari liðveisla

Í sérstökum tilvikum skal veita einstaklingum með fötlun frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun. Umsókn um liðveislu kemur frá hinum fatlaða eða aðstandendum hans. Nánari upplýsingar um búsetuþjónustu fatlaðra eru veittar á netfangið velferd@akranes.is  433 1000.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00