Norðurálsmótið
https://www.kfia.is/Norðurálsmótið á Akranesi er knattspyrnumót fyrir stráka í 7. flokki. Allir þjálfarar, fararstjórar, foreldrar, systkini og aðrir ættingjar eru velkomnir á Skagann með strákunum sem þar keppa. Árlega fer fram mikil undirbúningsvinna svo að mótið gangi vel fyrir sig og til að hægt sé að taka sem best á móti öllum. Ríflega 800 sjálfboðaliðar, flestir foreldrar barna sem stunda íþróttir hjá ÍA, koma að þeirri vinnu og þeim störfum sem þarf að sinna meðan á móti stendur en Knattspyrnufélag ÍA sér um skipulag og framkvæmd mótsins.
Mótið, sem í fyrstu kallaðist Skagamótið, er haldið um miðjan júní ár hvert. Yfir þúsund keppendur í rúmlega 100 liðum eru árlega á mótinu og síðustu árin hafa yfir 6.000 manns verið gestkomandi á Akranesi yfir mótsdagana og því liggur nærri að íbúafjöldi bæjarins tvöfaldist meðan á móti stendur en íbúar á Akranesi eru nú ríflega 7.000.
Sérstök tjaldstæði eru útbúin fyrir mótsgesti í nágrenni við keppnisvellina á Jaðarsbökkum og þar gista flestir aðstandendur en keppendur gista í skólum bæjarins.