Þjóðhátíðardagur - 17. júní 2023
Bæjarbúar og góðir gestir fögnuðu Þjóðhátíðardeginum saman þann 17. júní 2023. Dagurinn hófst á Þjóðlegri fjölskylduskemmtun á safnasvæðinu þar sem gestum var boðið upp á grillaðar pylsur og safa. Börnin gátu tekið smá hring á hestbaki, valið sér skemmtilega andlitsmálningu, farið í ratleik á glæsilega Byggðarsafninu okkar og hitt tröllin Tufta og Drangskarf í boði Gísla Jónssonar, Akraborgar og Akraneskaupstaðar. Skrúðgangan var virkilega vel sótt og jafnvel tröllin slóust í för með okkur, trommu- og lúðrasveit Tónlistarskólans undir stjórn Heiðrúnar Hámundar leiddu gönguna ásamt skátunum okkar vösku. Við viljum þakka lögreglunni fyrir að tryggja öryggi gesta og fylgja göngunni. Á torginu voru ýmis skemmtiatriði sem Ársæll kynnti inn fyrir okkur. Við hófum leika á glæsilegu fimleikaatriði frá vorsýningu Fimleikafélags ÍA, skátarnir stóðu sig að venju vel í fánahyllingu og glæsilega fjallkonan okkar Patrycja flutti fyrir okkur ættjarðarljóð (https://www.akranes.is/is/frettir/category/1/thjodhatidardagurinn-haldinn-hatidlegur-a-akranesi), Þjóðsönginn flutti Hanna Þóra við undirleik Jónínu Ernu. Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs flutti fyrir okkur létta og skemmtilega hátíðarræðu. Bæjarlistamaður Akraness var tilkynnt og var það Eva Björg Ægisdóttir rithöfundur sem hlaut heiðurinn í ár (https://www.akranes.is/is/frettir/category/1/baejarlistamadur-akraness-2023-eva-bjorg-aegisdottir). Við fengum einnig þrjú frábær tónlistar atriði, það var hún Hekla Kristleifsdóttir sem flutti fyrir okkur lag úr leikritinu Hlið við hlið, Una Torfadóttir mætti og tók nokkur lög og til að loka dagskránni voru það Tónafljóð sem sungu Disneysyrpu fyrir mannskapinn. Slökkvilið Akraness lét sig sko ekki vanta og mættu með allar sínar græjur og skemmtu gestum konunglega. Við þökkum bæjarbúum kærlega fyrir að fjölmenna á hátíðardagskrá bæjarins og hlökkum til að ári liðnu.