Fara í efni  

Uppbygging á Jaðarsbökkum

Þann 7. mars 2023 var undirrituð viljayfirlýsing milli Ísoldar fasteignafélags ehf. (Ísold), Íþróttafélags Akraness (ÍA), Knattspyrnufélags Í.A. (KFÍA) og Akraneskaupstaðar um uppbyggingu hótels, baðlóns og heilsulindar á Jaðarsbökkum Akranesi. Yfirlýsingin felur jafnframt í sér að Akraneskaupstaður úthluti Ísold lóðum fyrir 80-120 íbúðir á Akranesi sem eru bundnar því skilyrði að uppbygging Ísoldar á hóteli,  baðlóni og heilsulind raungerist. Akraneskaupstaður og Ísold vinna nú að gerð samnings um úthlutun lóða fyrir íbúðirnar á Sementsreit.

Breyta þarf skipulagi á Jaðarsbakkasvæðinu til að gera ráð fyrir uppbyggingunni. Fengnar voru þrjár arkitektastofur, Basalt, Sei og Nordic, til að gera tillögu að skipulagi svæðisins og kynntu stofurnar hugmyndir sínar m.a. á opnum kynningafundi í Bíóhöllinni í október 2023, en Akraneskaupstaður hefur rétt á að nýta hugmyndir frá öllum stofunum í skipulagsvinnunni. Upptaka frá fundinum er hér fyrir neðan. Á sama fundi voru kynntar tillögur að stefnumótun fyrir svæðið sem starfshópur með fulltrúum frá aðilum að viljayfirlýsingunni vann, en kynningu formans hópsins má einnig finna á upptökunni frá fundinum.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 28. nóvember 2023, tillögu skipulags- og umhverfisráðs um að semja við Basalt arkitekta um deiliskipulagsvinnu á Jaðarsbökkum. Í kjölfarið hófst vinna við aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir svæðið. Akraneskaupstaður hefur hug á að vinna skipulagið í samstarfi við Ísold, ÍA og KFÍA, líkt og kemur fram í viljayfirlýsingunni, og því hafa verið reglulegir fundir með Ísold og fulltrúar frá ÍA og KFÍA setið fundi skipulags- og umhverfisráðs þegar málið er þar til umfjöllunar.

Í janúar 2024 var gerð samantekt fyrir skipulags- og umhverfisráð um framgang verkefnisins frá mars 2023 til janúar 2024, vinnu starfshóps um stefnumótun fyrir svæðið, ásamt helstu skrefum framundan í skipulagsferlinu.

Í byrjun maí 2024 barst Akraneskaupstað skriflegt erindi frá stjórn KFÍA þar sem fram kom ályktun og afstaða stjórnar varðandi snúning á aðalknattspyrnuvelli. Á fundi bæjarráðs þann 16. maí 2024 var samþykkt að stofna starfshóp um skipulag Jaðarsbakka með fulltrúum frá aðilum sem stóðu að viljayfirlýsingunni. Bæjarstjórn samþykkti stofnun hópsins og erindisbréf hans á fundi sínum 11. júní 2024. Fundargerðir starfshópsins eru aðgengilegar á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs 10. september 2024 komst ráðið að eftirfarandi niðurstöðu um næstu skref í skipulagi Jaðarsbakkasvæðisins:

  • Lagt er til að aðalstúku verði snúið samsíða Akraneshöll og samhliða því verði aðalvelli knattspyrnunnar snúið. Sjá fyrstu drög að teikningum slíks skipulags hér.
  • Lagt er til að fella starfshóp um Jaðarsbakka niður að svo stöddu og að skipulags- og umhverfisráð fái málið aftur á sitt borð til úrvinnslu.
  • Áfram verður tryggt gott samráð og samstarf við hagsmunaaðila í gegnum ráðið þegar ráðist verður í útfærslur og hönnun svæðisins.
  • Skipulagsfulltrúa verður falið að fullklára aðal- og deiliskipulag svæðisins í samvinnu við Basalt og í fullu samráði við ráðið og hagsmunaaðila.

Bæjarráð samþykkti tillögu um niðurfellingu starfshópsins á fundi sínum þann 12. september 2024 og sömuleiðis bæjarstjórn á fundi sínum 24. september 2024.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00