Náttúran í nærmynd - Ljósmyndasýning Áskels Þórissonar
Áskell Þórisson sýnir ljósmyndir í anddyri Tónlistarskólans á Akranesi á Vökudögum. Áskell starfaði um áratugaskeið sem blaðamaður og ljósmyndari. Hann stofnaði Bændablaðið árið 1994 fyrir Bændasamtökin og var ritstjóri blaðsins um árabil. Áður var hann m.a. blaðamaður og ritstjóri Dags á Akureyri og ritstýrði What´s on in Reykjavík svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur haldið margar einkasýningar og einnig sýnt með öðrum. Áskell býr í Hvalfjarðarsveit.
Myndir Áskels eru langflestar teknar í Hvalfirði og Álfholtsskógi. “Ef sést til manns með grátt skegg að borgra yfir myndavél á þrífæti, þá eru góðar líkur á því að þar sé ég á ferð,” sagði Áskell.
Myndirnar eru prentaðar hjá Prentsmiðjunni Litlaprenti í Kópavogi á belgíska Xeikon prentvél. Það er síður en svo algengt að slíkar vélar séu notaðar í ljósmyndaprentun en útkoman er sérstök.
Ljósmyndir Áskels á sýningunni eru allar til sölu á hóflegu verði.
Opnunartími er sá sami og hjá Tónlistarskólanum. 24. október verður þó opið lengur því sýningin er partur af listagöngu.