RUMOURS - Til heiðurs FLEETWOOD MAC
Föstudagskvöldið 23. febrúar n.k. mun föngulegur hópur íslenskra tónlistarmanna stíga á svið í Bíóhöllinni, Akranesi og flytja tónlist Fleetwood Mac, einnar allra vinsælustu hljómsveitar rokksögunnar.
Hljómplatan Rumours var ellefta plata Fleetwood Mac og kom út í febrúar árið 1977. Hún sló sannarlega í gegn því hún sat í efsta sæti Billboard listans í Bandaríkjunum í sjö mánuði. Rumours er ein söluhæsta hljómplata allra tíma og hefur selst í meira en 40 milljónum eintaka. Platan hefur ítrekað verið valin ein af bestu plötum poppsögunnar enda inniheldur hún sígild lög eins og Don't Stop, Dreams, Go Your Own Way, Songbird og Second Hand News.
Á tónleikunum flytur hópurinn meistaraverkið Rumours í heild sinni ásamt úrvali vinsælustu laga Fleetwood Mac. Má þar nefna Little Lies, Black Magic Woman, Hold Me, Seven Wonders, Gypsy, Big Love og Rhiannon.
Um sönginn sjá STEFANÍA SVAVARS, MAGNI OG MARGRÉT EIR.
Hljómsveitina skipa Stjórnarmeðlimirnir Sigfús Óttarsson (trommur) og Kristján Grétarsson (gítar), Todmobile maðurinn Kjartan Valdemarsson (hljómborð) og Todmobile/Stjórnar-liðinn Eiður Arnarsson (bassi).