Barnamenningarhátíð 2017
Á Vökudögum í ár var sérstök áhersla lögð á barnamenningu. Bókasafnið á Akranesi hlaut sérstakan styrk frá Samtökum Sveitarfélaga á Vesturlandi til barnamenningarhátíðar fyrir svæðið sunnan Skarðsheiðar sem er hluti af áhersluverkefni undir Sóknaráætlun Vesturlands. Verkefnið var unnið með miðstigum grunnskólanna þriggja á svæðinu og þá sérstaklega með 6. bekkjum skólanna. Þema verkefnisins er Bókmenntir og listir tengt svæðinu og hafa börnin unnið að margskonar sköpun í skólanum það sem af er þessu skólaári. Á Vökudögum var sköpun barnanna sett fram í þremur mismunandi sýningum og voru fjórar listasmiðjur haldnar í tengslum við sýningarnar. Þá hélt Improv Ísland spunaleikhópurinn sérstakar sýningar í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir miðstig skólanna. Í verkefninu var unnið með barnamenningu út frá þremur megin stoðum: - Menning sköpuð af börnum - Menning með börnum - Menning fyrir börn