Sýnum samstöðu og úthald á lokasprettinum
Förum að fyrirmælum um smitvarnir varðandi börn og unglinga til 4. maí
Í skóla- og frístundastarfi á Akranesi hefur verið mikil vinna hjá stjórnendum við skipulagningu starfsins í samkomubanni með það í huga að fyrirbyggja smitleiðir eins og frekast er. Í skóla- og frístundastarfi hefur börnum verið skipt upp í fasta hópa og reynt að fylgja þeirri meginreglu að starfsmenn fylgi föstum barnahópum til þess að fækka smitleiðum á milli einstaklinga. Nú þegar hyllir undir að hefðbundið skóla- og frístundastarf hefjist að nýju, viljum við hvetja foreldra til að brýna fyrir börnum og unglingum að virða áfram reglur um fjöldatakmarkanir, blöndun hópa og fjarlægðamörk eftir skóla og styðja þannig við þá vinnu sem allir ætla að standa saman að við að fyrirbyggja eins og kostur er ný smit á svæðinu.
Sýnum samstöðu og úthald á lokasprettinum.