Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

10. fundur 30. nóvember 2011 - 17:00

Ár 2011, þriðjudaginn 29. nóvember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 16:15.


Mætt voru;  Hafdís Dóra Gunnarsdóttir, nemandi í Grundaskóla
 Sindri Snær Alfreðsson, fulltrúi Hvíta húss i Unglingaráði
 Guðrún Karítas Sigurðardóttir, fulltrúi Grundaskóla í Unglingaráði
 Daníel Heimisson, fulltrúi Arnardals í Unglingaráði
 Halla Jónsdóttir, fulltrúi Brekkubæjarskóla í Unglingaráði
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir fulltrúi NFFA í Unglingaráði
Sunneva Ólafsdóttir, nemandi í Brekkubæjarskóla

Ingibjörg Valdimarsdóttir, formaður fjölskylduráðs
Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldustofu, ritaði fundargerð.


Ingibjörg Valdimarsdóttir, formaður fjölskylduráðs setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Bæjarstjórnarfundur unga fólksins hefur verið haldinn síðan 2002 og er um tíunda fund að ræða. Ingibjörg fór yfir 9. bæjarstjórnarfundar unga fólksins bar fundargerðina upp til samþykktar og var hún samþykkt. Ingibjörg fór yfir nokkrar ábendingar og tillögur sem fluttar voru á fundi síðasta árs sem bætt hefur verið úr á árinu 2011.
 

Fyrst tók til máls Hafdís Dóra Gunnarsdóttir, nemandi í Grundaskóla. Hún hefur sótt tvö námskeið sem unnin eru upp úr kennslubókinni Kompás. En námsefnið fjallar um mannréttindi m.a. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hafdís telur að umræða um mannréttindi ætti að vera meiri í samfélaginu. Hún hvatti bæjarstjórn Akraness til að hafa samráð við unga fólkið þegar unnið verður að stefnumótun á vegum Akraneskaupstaðar.

Annar á mælendaskrá var Sindri Snær Alfreðsson, fulltrúi Hvíta húss í Unglingaráði Akraness:
Hann fjallaði um æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir. Í haust var húsnæði sem notað hefur verið í þessu skyni, tekið undir aðra starfsemi. Ástæðan var sú að lítil notkun var á húsnæðinu. Um þessar mundir eru hins vegar þrjár hljómsveitir að leita að æfingarhúsnæði. Sindri sagði síðan frá fyrirkomulagi í Hafnarfirði þar sem hljómsveitir hafa gott aðgengi að húsnæði og skuldbinda hljómsveitirnar sig til að spila án endurgjalds þrisvar sinnum yfir árið.
Sindri rifjaði síðan upp að á síðasta bæjarstjórnarfundi unga fólksins talaði Kristín Björk Lárusdóttir um litla þátttöku ungmenna á Vökudögum og sagði síðan; ?Það er gaman að segja frá því að í ár var breyting þar á því að þessu sinni bauð Hvíta húsið upp á viðburðinn UngMenning 2011. Þar skapaðist vettvangur fyrir okkur unga fólkið til að koma okkur á framfæri. UngMenning, sem var styrkt af Menningarráði Vesturlands, heppnaðist mjög vel að mínu mati, þar sem við buðum uppá ljósmynda- og myndlistasýningu, stuttmyndir, live tónlist og töfrabrögð. Við fengum pláss hliðin á Bónus, en fannst mér vanta uppá að fólk kíkti inn, það labbaði oft bara framhjá eða stóð fyrir framan og kíkti aðeins á þetta og labbaði svo bara í burtu. En að öðru leyti vill ég þakka fyrir þetta tækifæri en þetta heppnaðist mjög vel enda fullt af hæfileikaríkum ungmennum sem tóku þátt.?


Guðrún Karítas Sigurðardóttir fulltrúi Grundaskóla í Unglingaráði Akraness var næst á mælendaskrá:
Guðrún fjallaði í upphafi um aðstöðu til íþróttaiðkunar og Akraneshöllina sérstaklega. Hún fagnaði viðbótarframkvæmdum sem ráðist hefur verið í með salernisaðstöðu og boltageymslu. Tvennt mundi bæta aðstöðuna enn frekar en það væri að fá vatnsstand í höllina og hitun fyrir ofan áhorfendastúkuna að mati Guðrúnar.

Síðan fjallaði hún um Langasand og sagði frá því að hún hefði kynnt sér sérstaklega uppbyggingu sem Haraldur Sturlaugsson og fleiri höfðu ráðist í á síðasta sumri. Hún notaði þetta tækifæri til að þakka fyrir framkvæmdirnar og þann rausnarskap sem þar væri á ferðinni.
Guðrún lagði síðan til að settar yrðu upp sturtur ekki langt frá Aggapalli og setlaugar í sjónum en Langisandur hentar vel til sjósunds.
Að lokum sagði Guðrún: ?Aðgengi hjólastóla og barnavagna vantar alveg á Langasand. Góður staður til að setja niður rampa er fyrir aftan Akraneshöllina þar sem frekar stutt er niður á sandinn. Til að laða fólk niður á Langasand væri sniðugt að hafa dagskrá af og til t.d. strandblak, sandkastalakeppni og fleira í þeim dúr.?

Fjórði á mælendaskrá var Daníel Heimisson, fulltrúi Arnardals í Unglingaráði
Hann fjallaði um starfsemi Arnardals og hlutverk starfsmanna þar. Þegar mikið er um að vera í húsinu eru ekki nægilega margir starfsmenn til staðar. Álag á starfsmenn verður þá of mikið. Aðsókn að Hvíta húsinu og Arnardal er vaxandi og aðsóknarmet hafa verið slegin á þessu hausti. Daníel telur að það þurfi að bæta við starfsmönnum. Hann hrósaði síðan starfsfólki Arnardals, sagði það duglegt, þolinmótt og kippi sér ekki upp yfir smáatriðum. Hann sagði frá bættri aðstöði í Arnardal.
Næsta umræðuefni Daníels var miðbær Akraness og sagði hann:
?Miðbær Akraness hefur teygst í margar áttir á undanförnum árum. Eftir að t.d. Landsbankinn og Arnardalur fluttu sig er orðið erfitt að greina hvar miðbærinn er nákvæmlega. Hinsvegar líta margir á að þar sem Akranestorgið er, sé miðbærinn. Fyrir aðkomumenn er alls ekki auðvelt að finna miðbæinn því hann er orðinn svo teygður. Það sem mér langar að gera er að reyna að afmarka miðbæinn. Miðbærinn í dag er eiginlega í þrennu lagi. Sem sagt gamli miðbærinn hjá torginu, torgið í kringum stjórnsýsluhúsið og svo er kominn verslunarkjarni hjá Bónus og Pósthúsið er flutt þangað ásamt fleirum verslunum og þjónustuaðilum. Erfitt er að breyta þessu núna. Hvað er hægt að gera ? Mér datt í hug að reyna að afmarka miðbæinn með því að notast við einhverskonar merkingar. T.d. skreyta eða mála ljósastaura í eitthverjum ákveðnum lit. Þannig að auðvelt væri að sjá hvar miðbærinn liggur. Ég vil tengja miðbæinn frá Akratorgi upp Kirkjubraut og að ljósum. Frammhjá stjórnsýsluhúsinu og enda hjá Model.?
Sindri endaði mál sitt með að benda á að fleiri ruslatunnur vantar í bæinn.

Halla Jónsdóttir, formaður Nemendafélags Brekkubæjarskóla og fulltrúi í Unglingaráði tók næst til máls.
Hún þakkaði fyrir það að fá tækifæri til að koma skoðunum ungs fólks á framfæri við bæjaryfirvöld.

Hún lýsti yfir mikilli ánægju með tónlistarvalið sem er samvinnuverkefni milli grunnskólanna og Tónlistarskólans á Akranesi. Hún telur mikilvægt að kynni milli nemenda skólanna hefjist fyrr en í unglingadeild. Hún hvatti þá sem koma að skipulagi skólanna að huga að breytingum á þessum og leggja áherslu á að við erum eitt bæjarfélag.

Halla gerði síðan að umtalsefni skort á ruslafötum í bænum. Hún sagði að unglingum væri oft kennt um sóðaskapinn draslið á götunum en þeir væru ekki einir að verki. Fleiri ruslafötur leiddu til betri umgengni og meiri líkur væru t.d. til að hundaeigendur sinntu sínum skyldum.
Að lokum sagði Halla:
?Síðast en ekki síst langar mig að lýsa yfir óánægju minni með hvað núverandi bæjarstjórn lagði lítið í skreytingar um síðastliðna írska daga. Það er svo leiðinlegt á svona hátíðum ef engar eru skreytingarnar. En mig langar aftur á móti að hrósa fyrir skreytingarnar sem búið er að setja upp núna fyrir jólin þær eru alveg hreint meiriháttar og gefa bænum fallegan og hátíðlegan svip.?


Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir fulltrúi NFFA í Unglingaráði.
Ingibjörg fagnaði því nýmæli sem fólst í nýafstöðnum Vökudögum en ungmenni voru með eigin dagskrá sem nefndist Ungmenning og lýsti Ingibjörg yfir þeirri von að Ungmenning sé komin til að vera á Vökudögum. 

Hún fjallaði því næst um fjárhagsstöðu Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hún sagði frá niðurskurði æ ofan í æ. Hún talaði um sérstöðu FVA sem felst í fjölbreytilegu iðnnámi sem alltaf verður kostnaðarsamara en bóknám. Stöðugur niðurskurður kemur niður á kennslu  þar sem fleiri nemendur eru í hverju hóp og námsframboð verður minna. Ingibjörg hvatti bæjaryfirvöld til að styðja við starf FVA og að öflugt skólastarf í FVA er eitt af þeim atriðum sem gera Akranes að eftirsóknarverðum stað til að búa á .
Ingibjörg fjallaði síðan um menningarstarf sem unnið er í FVA og sagði: ?Mig langar einnig að koma inná það menningarstarf sem unnið er í skólanum. Við í NFFA höldum kaffihúsakvöld, árshátíð, tónlistarkeppni og leikrit, svo eitthvað sé nefnt, árlega. Nemendafélagið hefur því ekki alltaf nóg af pening til að gera hlutina, en auðvitað er reynt að fá styrki frá fyrirtækjum bæjarins. En í þessari svokölluðu kreppu kemur oft ekki mikið upp úr krafsinu. Því finnst mér kjörið að bærinn taki einhvern þátt í að styrkja, og koma á móts við, það frábæra menningarstarf sem á sér stað í skólanum hjá okkur. Það er öllum í hag að reyna að hlúa að því gullna menningarstarfi og öllum listamönnunum sem gera sitt að verkum að menningarlíf skólanns blómstri. Það yrði okkur í nemendafélaginu ómóstæðilegur stuðningur og léttir að fá stuðning frá bænum.?
Að lokum talaði Ingibjörg um skort á ruslafötum í kringum FVA og þar af leiðandi mikinn sóðaskap sem leiddi af sígarettustubbum í nágrenni skólans.

Sunneva Ólafsdóttir nemandi í Brekkubæjarskóla var síðust á mælendaskrá.
Sunneva fjallaði um mannréttindafræðslu sem hún hefur tekið þátt í. Sunneva sagði: ?Mannréttindi eiga að tryggja öllum mönnum rétt til þess að njóta mannlegrar reisnar, eins og meðal annars kemur fram í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Börn eiga að sjálfsögðu að njóta sömu mannréttinda og fullorðnir. Vegna þroska- og minni reynslu á lífinu njóta börn þó ekki eins mikilla réttinda og fullorðir.

Barnasáttmálinn er mjög mikilvægur samningur um réttindi barna. Í honum eru reglur um það hvernig eigi að koma fram við börn og unglinga og hvernig eigi að passa upp á að þau fái að njóta alls þess sem gerir þau hraust, ánægð og ábyrg.

Börn þurfa á sérstakri vernd að halda. Fullorðna fólkið og þeir sem stjórna í landinu bera ábyrgð á að börn fái þessa vernd. Börn eiga að fá að tjá skoðanir sínar. Fullorðna fólkið á að hlusta og taka mark á skoðunum barna eins og t.d. ef foreldrar skilja á barnið að fá að segja hvar það vill frekar búa og foreldrarnir eiga að taka mark á því eða allaveg reyna að gera allt sem þau geta.

Hér á Akranesi höfum við til dæmis undarfarin ár tekið á móti mörgum innflytjendum og flóttafólki frá stríðshrjáðu landi. Í þessum hópum eru læika börn sem eiga rétt á góðu lífi eins og allir aðrir. í skólanum okkar hefur verið vel tekið á móti börnunum en við megum aldrei skilja neinn útundan og passa það að eingin verði fyrir einelti eins og gerist oft ef fólk talar ekki sama tungumálið og við. Við sem erum skólasystkyni þessara barna þurfum að vera dugleg að fá þau með okkur í félagslífið og leiki í frímínútum og annað sem um er að vera.
Kompás námskeiðið var hluti af því að hjálpa okkur að vera ekki feimin við að kynnast hvort öðru og mynda vináttutengsl.

Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna stendur "Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum" þetta verðum við að muna og hjálpa til við að þetta geti orðið að veruleika.?

Ingibjörg þakkaði framsögumönnum fyrir góð erindi og ábendingar. Hún beindi síðan spurningum til framsögumanna.
Spurningarnar snéru að Vökudögum, dagskrá á Langasandi, afmörkun miðbæjarins, tenging milli nemenda grunnskólanna frá upphafi, skreytingar á Írskum dögum og stuðningur Akraneskaupstaðar við FVA,


Fleira ekki gert, fundi slitið kl.17:00

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00