Skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands (2001-2009)
Fundur í skólanefnd Fjölbrautaskóla Vesturlands haldinn í fundarherbergi skólans 4. mars 2003 kl. 12:00.
Mættt voru: Hörður Helgason skólameistari,
Atli Harðarson aðstoðarskólameistari,
Bergþóra Jónsdóttir,
Borghildur Jósúadóttir,
Guðrún Jónsdóttir,
Lárus Ársælsson, varamaður Þorgeirs Jósefssonar,
Sigurgeir Sveinsson, fulltrúi kennara,
Þorkell Steindal, fulltrúi nemenda,
Sigríður Finsen tók þátt í fundinum í gegnum síma.
Forföll boðaði: Þorgeir Jósefsson, formaður skólanefndar.
1. Skólastarf á vorönn.
Lagt fram yfirlit yfir kennslustaði og nemendafjölda.
Lagt fram yfirlit yfir skiptingu nemenda eftir brautum.
Erlendar heimsóknir:
Skólameistari gerði grein fyrir erlendu samstarfi sem skólinn tekur þátt í á þessari vorönn.
Sjö nemendur á íþróttabraut ásamt Önnu Bjarnadóttur íþróttakennara heimsóttu menntaskóla í Aasiaat sem er 3000 manna bær í norðvesturhluta Grænlands. Heimsóknin er styrkt af Nordplus Junior.
Skólinn fékk styrki úr Mannaskiptaverkefni Leonardo fyrir nemendur og kennara í rafiðnaðardeild og tréiðnaðardeild skólans til að fara til Finnlands og Svíþjóðar. Alls fara 6 nemendur úr hvorri deild til þriggja vikna námsdvalar og 7 kennarar til viku kynnisferðar hver.
Loks fara 8 nemendur til menntaskóla í Muurame í Finnlandi ásamt einum kennara. Þessi heimsókn er til að endurgjalda heimsókn Finnanna hingað s.l. vor. Heimsóknin er styrkt af Vestnorden sjóðnum.
Stærðfræðikeppni grunnskólanna á Vesturlandi.
Stærðfræðideild skólans stóð fyrir og skipulagði Stærðfræðikeppni grunnskólanna á Vesturlandi. Keppnin er nú haldin í fimmta sinn. Alls tóku 205 nemendur úr 8., 9. og 10. bekkjum grunnskólanna á Vesturlandi þátt, auk þess sem Grunnskólinn á Hólmavík sendi þátttakendur.
Skólanefndin lýsir yfir ánægju sinni með dugnað og framtakssemi skólans á þessu sviði.
2. Skýrsla ársins 2002 ? rekstraráætlun fyrir 2003 lögð fram.
Skólameistari kynnti skýrsluna. Í henni er greint frá helstu þáttum í skólastarfinu árið 2002. Einnig er þar bráðabirgðarekstraryfirlit ársins þar sem kemur fram að rekstrarhalli ársins er rúmlega 8 milljónir sem er töluvert minni halli en á síðustu árum. Skólameistari gerði grein fyrir yfirlitinu.
Rekstraráætlun fyrir árið 2003 lögð fram. Skólanefnd samþykkir framlagða rekstraráætlun sem gerir ráð fyrir rúmlega 1,6 millj. rekstrarafgangi en í henni eru ýmsir óvissuþættir, m.a. hvað varðar kennslumagn. Töluverðar umræður urðu um skýrsluna.
3. Byggingarsamningur.
Skólameistari sagði frá þvi að Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra kæmi í skólann 5. mars til að undirrita samning um næsta byggingaráfanga við skólann. Gísli Gislason bæjarstjóri á Akranesi mun undirrita samninginn f.h. sveitarfélaga á Vesturlandi en hann hefur fengið til þess umboð. Stykkishólmsbær og Snæfellsbær samþykkja þó undirritun með fyrirvara um hvernig þátttöku þessara sveitarfélaga verði háttað þegar framhaldsskóli á Snæfellsnesi tekur til starfa. Grundarfjarðarbær hefur samþykkt að vera með í framkvæmdum ársins 2003, en telur sér ekki fært að taka þátt í framkvæmdum/kostnaði árið 2004 að svo stöddu.
4. Kosning byggingarnefndar.
Lagt var til að Pétur Óðinsson og Þorgeir Jósefsson sætu í byggingarnefnd. Það var samþykkt. Guðrún Jónsdóttir lagði til að skipaður yrði þriðji maður í nefndina og sá fulltrúi væri kona. Það var samþykkt og Guðrúnu var falið að ræða við bæjarstjórn Borgarbyggðar um það.
5. Önnur mál.
Guðrún spurði hver staða mála væri varðandi ósk Grunnskólans í Borgarnesi um heimild fyrir nokkra nemendur í 10. bekk að taka próf í ENS103 og STÆ103 í Fjölbrautaskólanum í vor. Skólameistari sagði að erindið hefði verið samþykkt. Til stendur að funda með skólastjórum grunnskólanna á Vesturlandi um það sem kallað hefur verið ?hin fljótandi skil grunn- og framhaldsskóla?.
Borghildur spurði um forvarnarstarf í skólanum. Skólameistari uppslýsti að í skólanum væri forvarnarfulltrúi í hlutastarfi sem stjórnaði forvarnarstarfi og það væri margt gert í því sambandi. Forvarnarfulltrúinn er Steinunn Eva Þórðardóttir kennari. Forvarnarfræðsla er m.a. í Lífsleikniáfanganum (LKN103). Reglulega koma aðilar utan skólans í heimsókn og fræða nemendur, t.d. kom STOPP ? leikhópurinn um daginn og var með leiksýningu. Jafningjafræðsla er að fara af stað og styður skólinn dyggilega við bakið á henni sem og aðilar utan skólans. Þorkell Steindal fulltrúi nemenda í skólanefnd sagði að skólinn stæði vel í þessum málum.
Lárus spurði hvernig skólinn meðhöndlaði fjarvistir afreksfólks í íþróttum. Skólameistari sagði að menntamálaráðuneytið hefði um það skýrar reglur í námskrá fyrir framhaldsskóla að afreksfólk myndi ekki gjalda fyrir fjarvistir sínar vegna íþrótta með lægri skólasóknareinkunn. Gerðar eru sömu kröfur til íþróttafólks hvað varðar verkefnaskil og próf en samið er um skilafrest og próftöku í þeim tilfellum sem þess þarf. Einnig kom fram að íþróttafólk sem æfir mikið undir stjórn þjálfara fær íþróttaeiningu metna fyrir það og þar með undanþágu frá íþróttaáföngum að undanskildum bóklegum hluta þeirra.
Bergþóra spurði um útskriftardag. Skólameistari sagði að hann yrði 31. mai n.k.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 14:45.
Borghildur Jósúadóttir, fundarritari.