Akraneskaupstaður með lægstu fasteignagjöld á suðvesturhorni landsins
Akranes með lægstu fasteignagjöld á suðvesturhorni landsins
Líkt og undarfarin ár hefur Byggðastofnun gefið út skýrslu þar sem borin eru saman fasteignagjöld heimila á landinu. Í skýrslunni kemur fram samanburður á fasteignamati og fasteignagjöldum, það er fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi og sorpgjaldi. Viðmiðunareignin sem Byggðastofnun byggir á er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.
Alls voru 99 matssvæði í 50 sveitarfélögum tekin fyrir í skýrslunni, þar af 27 á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að bjóða upp á samanburð með meira notagildi og sem nýtist betur íbúum Akraness og nágrennis var ákveðið að skoða suðvesturhorn landsins og miðast greiningin við 19 sveitarfélög. Suðvesturhorn landsins í þessu tilfelli nær frá Hvítá í Borgarfirði til Hvítar í Árnessýslu. Mikilvægt er að taka fram að sum svæði innan sveitarfélaganna voru hagstæðari en sveitarfélagið í heild. Ef fjárhæð fasteignagjalda sveitarfélaganna eru skoðuð á landsvísu (meðaltal matssvæða innan sveitarfélaga til grundvallar) er Akranes í 8. sæti á árinu 2022 en var í 17. sæti með sambærilegri greiningu fyrir árið 2021. Ef einungis er horft til suðvesturhorns landsins er Akranes í fyrsta sæti þegar kemur að fasteignagjöldum árið 2022.
Þegar fasteignagjöld eru skoðuð kemur Akranes mjög vel út samanborið við önnur svæði á suðvesturhorni landsins. Akranes trónir á toppnum og skipti um sæti við Grindavík frá síðasta ári. Jafnframt er Akranes með hóflega hækkun fasteignagjalda á milli ára. Staða Akraness á þessum lista kemur ekki á óvart séu söguleg gögn frá tímabilinu 2014 – 2022 skoðuð en hlutfallsleg hækkun fasteignagjalda viðmiðunareignar á Akranesi var aðeins 6% þrátt fyrir 78% hækkun fasteignamats á tímabilinu. Með hlutfallshækkun er átt heildarfasteignagjöld og hlutfall þeirra af fasteignamati, upphæðir fyrri ára núvirtar í samræmi við vísitölu neysluverðs í janúar hvert ár.
Skýrslan sýnir að Vestmannaeyjar eru með lægsta fasteignaskatt á suðvesturhorni landsins, sem nemur rúmlega 119 þ.kr. Akranes lendir í 7. sæti þar sem skatturinn er um 141 þ.kr. en sveitarfélagið færist upp um tvö sæti frá fyrra ári. Til samanburðar má nefna Mosfellsbæ sem lenti í 8. sæti og Borganes sem lenti í 12. sæti. Hveragerði reyndist svo vera með hæsta fasteignaskattinn sem nemur 213 þ.kr.
Þegar kemur að lóðarleigu á suðvesturhorni landsins endar Kópavogur í fyrsta sæti með lægstu gjöldin, 17.315 kr. Akranes lendir í öðru sæti með gjöld upp á 24.500 kr. Hveragerði lendir í 4. sæti og Seltjarnarnes í 15. sæti. Í neðsta sæti er Keflavík með gjöld upp á rúmlega 127 þ.kr.
Þegar kemur að kostnaði við fráveitu lendir Akranes í 15. sæti með gjöld upp á 88.509 kr. Til samanburðar lendir Mosfellsbær í 8. sæti og Borganes í 17. sæti. Í fyrsta sæti lenti Hvalfjarðarsveit með gjöld uppá 13.675 kr. sem er ívið lægra en hjá flestum sveitarfélögum. Hæstu fráveitugjöldin á suðvesturhorni landsins voru á Seltjarnarnesi og námu þau 139 þ.kr.
Akranes kemur mjög vel út þegar kemur að vatns- og sorpgjöldum. Akranes er þar í 4. sæti með vatnsgjöld uppá 38.814 kr. og í fyrsta sæti í sorpgjöldum sem nema 35.678 kr. Til samanburðar þá lendir Mosfellsbær í 9. sæti þegar kemur að vatnsgjöldum og 8. sæti í sorpgjöldum. Borganes situr í 13. sæti með vatnsgjöld og hæstu sorpgjöldin í 19. sæti upp á 73.320. Með þeirri álagningu fóru þeir rétt yfir sorpgjöldin í Reykjavík sem var áður með hæstu sorpgjöldin en þar námu þau tæplega 73 þús. kr.
Vert er að taka fram að unnið er að sambærilegri greiningu á þróun fasteignagjalda sveitarfélaga fyrir árið 2023 og mun hún verða birt þegar öll gögn frá sveitarfélögum liggja fyrir.
Nánari upplýsingar má finna í skýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 2022 en þar má sjá sundurliðun á fasteignasköttum og fasteignagjöldum niður á einstök hverfi í stærri sveitarfélögum. Skýrsluna má finna hér.