Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2023
Sókn fyrir íbúa og atvinnulíf á Akranesi: Mikil uppbygging íbúðar-, atvinnuhúsnæðis og mannvirkja bæjarins
Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024 til 2026 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 13. desember síðastliðinn (sjá hér). Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt.
Helstu atriði fjárhagsáætlunar 2023 eru:
- Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2023, eða 14,52%
- Gjaldskrár hækka um 7% fyrir utan gjaldskrá leikskóla, heimaþjónustu og heimsendingu matar og sorphirðu og sorpeyðingar sem haldast óbreyttar.
- Álagningarprósentur fasteignaskatta lækka og verða 0,2306 fyrir íbúðarhúsnæði og 1,3718% fyrir atvinnuhúsnæði.
- Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verður 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða
Rekstrarafkoma Akraneskaupstaðar á árinu 2022 er áætluð að verði jákvæð um 373,4 m.kr. eða sem nemur 3,77% sem hlutfall af tekjum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að rekstarhagnaður verði 142 m.kr. á árinu 2023. Rekstrarafkoma næstu ára þ.e. á árunum 2023 til 2026 er áætluð að meðaltali 222 m.kr. Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir umfangsmiklum fjárfestingum næstu árin og er fyrirhuguð lántaka vegna þess á næstu fjórum árum áætluð 5.680 m.kr. Samhliða því er fyrirhugað að greiða niður langtímalán að fjárhæð 1.446 m.kr. og greiðslu lífeyrisskuldbindingar að fjárhæð 1.036 m.kr. til árins 2026.
Akraneskaupstaður mun viðhalda ábyrgri fjármálastefnu og sjá til þess að vera vel innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem gerð eru til sveitarfélaga, þ.e. að rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) verði jákvæður sem nemur 1.094 m.kr. í árslok 2023. Fjárhagsáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður muni nema rúmum 1.098 m.kr. í árslok 2026 þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í innviðum bæjarins á þeim tíma og aukningu rekstargjalda s.s. vegna nýs íþróttahúss á Jaðarsbökkum og vegna nýs leikskóla.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hlutans sem hlutfall af reglulegum tekjum mun fara hækkandi samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlað skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2023 muni nema 51% en hámark sveitarfélaga er 150% af reglulegum tekjum þess. Fjárhagsáætlun Akraness gerir ráð fyrir því að skuldaviðmiðið fari hækkandi og muni verða um 60% í lok árs 2026. Veltufjárhlutfall samstæðunnar hefur verið sterkt hjá sveitarfélaginu en er áætlað er að það fari lækkandi í áætlun 2022 og 2023 og verði 0,57 í árslok 2023. Veltufjárhlutfall segir til um hversu vel í stakk búið sveitarfélagið er til þess að mæta nauðsynlegum greiðslum á næstu 12 mánuðum og á helst ekki að vera undir 1,0 til lengri tíma litið. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins fer síðan hækkandi á tímabili fjárhagsáætlunarinnar og áætlað er að veltufjárhlutfallið nemi 1,19 í árslok 2026.
Áætlað er að setja um um 2.592 m.kr. í fjárfestingar á árinu 2023 og eru 9.387 m.kr. fyrirhugaðar í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fjórum árum.
Meðal fjárfestinga og uppbygginga verkefna á árinu 2023:
- Menntun og frístundamál: Í upphafi nýs árs verður opnaður nýr sex deilda leikskóli sem hefur möguleika á stækkun í átta deildir. Endurbætur í Brekkubæjarskóla halda áfram en fyrirhugað er að endurnýja fyrstu hæðina eftir bruna á liðnu ári og verður hönnun kláruð og verkið boðið út. Haldið verður áfram með endurgerð skólalóða. Framkvæmdir munu hefjast við stækkun og endurbætur á Grundaskóla. Hönnun Samfélagsmiðstöðvar verður unnin markvisst áfram en hún mun m.a. hýsa starf frístunda barna og ungmenna.
- Íþróttir: Uppbygging íþróttamannvirkja á Jaðarsbakka, íþróttahúss, geymslu og búningsklefa, halda áfram og er það stærsta framkvæmd sveitarfélagsins.
- Velferð og mannréttindi: Framkvæmdir við nýja Fjöliðju munu hefjast á árinu á Kalmannsvöllum 5 en þar verður m.a. endurvinnsla og nytjamarkaður Búkollu ásamt áhaldahúsi bæjarins. Jafnframt hönnun Samfélagsmiðstöðvar. Fjórar íbúðir fyrir fatlaða og öryrkja í samstarfi við Brák hses á Dalbrautareit munu bætast við þær sex sem voru teknar í notkun á árinu. Bjarg íbúðafélag byggir í Asparskógum óhagnaðardrifið leiguhúsnæði. Á Dalbrautareit í samstarfi við Leigufélag aldraða eru byggðar leiguíbúðir fyrir aldraða.
- Götur og stígar: Gatnaviðgerðir eru fyrirhugaðar við hluta af Garðagrund og Suðurgötu ásamt viðhaldi gatna sem verður kynnt á næstu mánuðum. Ný gatnagerð er fyrirhuguð í Flóahverfi, Skógarhverfi, Sementsreit. Í stígagerð verður byrjað á stíg upp í Flóahverfi, ásamt viðbótum víða og bætingu núverandi stíga og reiðvega.
- Atvinnutengd verkefni: Fyrirhuguð er sókn í uppbyggingu atvinnu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga. Má þar nefna áframhaldandi uppbyggingu á rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi s.s. í líftækniseturs, rannsókna í loftlagsmálum, þararannsókn og ensímframleiðslu. , rekstur hitaveitu á Grundartanga og rekstur öflugrar rafhleðslustöðvar til notkunar fyrir stærri tæki og bíla. Skipulag svæðis við Langasand þar sem fyrirhugað er að rísi hótel, baðlón og heilsulind, verður unnið áfram í samstarfi við ÍA, KFÍA og Ísold Fasteignafélag. Í grænum iðngörðum verður kláruð vinna og stofnað verður miðlægt þjónustufyrirtæki fyrir Græna iðngarða sem fara mun með stjórn á sameiginlegum rekstri á svæðinu.
- Skipulagsmál: Vinna við deiliskipulag á Breið á grundvelli niðurstöðu hugmyndasamkeppni. Unnið að skipulagi við Smiðjuvelli og með breytingu eldri skipulaga við Ægisbraut, Vesturgötu, Miðbæ og Sementsreit.
Í meðfylgjandi töflu má sjá fyrirhugaðar fjárfestingar Akraneskaupstaðar á næstu árum:
Að sögn Sævars Frey Þráinssonar bæjarstjóra er fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar mjög góð og afar mikilvæg undirstaða fyrir mikla sókn í uppbyggingu bæjarfélagsins. Stefnir í að rekstrarafkoma ársins verði góð en þar skiptir verulegu máli að ábyrg fjármálastjórn hefur verið við líði á Akranesi. Mikilvægt er að gæta aðhalds í rekstri, vernda grunnþjónustu en sækja fram í atvinnuuppbyggingu, Við erum að sækja enn frekar fram og efla þjónustu fyrir íbúa.
„Sóknarfærin okkar hér á Skaganum eru svo sannarlega til staðar. Við höfum nýtt vel möguleika okkar og sækjum nú fram í atvinnumálum. Árangur er af starfi okkar með þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga og frábært að verður að sjá áhrif af starfsemi Running Tide á nýju ári. Við viljum hvetja til atvinnutengdra fjárfestinga í Flóahverfi, við Guðlaugu, á Breiðinni, á Sementsreit og síðast en ekki síst á Grundartanga þar sem mögnuð tækifæri eru til staðar með uppbyggingu gufuaflsvirkjunar, hitaveitu og framleiðslu rafeldsneytis. Við höfum mikla trú á tækifærum okkar til uppbyggingar atvinnu í grænum iðngörðum í Flóahverfi og þurfum að bæta í við gatnagerð til að mæta eftirspurn. Það eru tækifæri í góðum fyrirtækjum á Akranesi að vaxa og mikill hugur víða sem verður spennandi að sjá raungerast. Við höldum áfram að stuðla að uppbyggingu rannsóknar- og nýsköpunarseturs og samvinnurýmis á Breið og verður áfram markvisst unnið að undirbúningi starfsemi í hátækni, heilsutengdri ferðaþjónustu, heilsu og heilbrigðismálum og hafsækinni starfsemi. Við Langasand verður spennandi að vinna með hönnun fyrir fyrirhugaða uppbyggingu hótels, baðlóns og heilsulindar. Það má því með sanni segja að framundan sé mikil sókn í fyrir íbúa og atvinnulíf á Akranesi.
Á árinu verður unnið með aðgerðaráætlun nýrrar menntastefnu með áherslu á eflingu góðra skóla til að bæta námsárangur, líðan, heilbrigðan lífstíl og í takt við tækniþróun til framtíðar. Ásamt innleiðingu á samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Við ætlum að nýta vel þann meðbyr sem við finnum til bæjarins til að fjölga íbúum með að gera nýja íbúðarreiti byggingarhæfa og með þeim lágu álagningarstofnum fasteignaskatta hér á Akranesi ætti það að takast vel til að laða að ný fyrirtæki. Við erum búin að vera í mikilli uppbyggingu íþrótta- og skólamannvirkja ásamt öðrum innviðum og mun það halda áfram. Þá er gert ráð fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlaða ásamt uppbyggingu mannvirkja fyrir vinnu- og hæfingu fatlaðs fólks sem og frístundastarf fatlaðra. Það er sannarlega okkar allra að nýta möguleikana sem eru til staðar og sækja fram í okkar framúrskarandi fjölskyldubæ.“