Jafnvægisvogin 2022 - viðurkenning til Akraneskaupstaðar
Akraneskaupstaður hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022 , við hátíðlega athöfn sem haldin var í gær 12. október og streymt í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt ráðstefnuna og þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í efsta lagi stjórnunar (framkvæmdastjórn).
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til fimmtíu og níu fyrirtækja, sex sveitarfélaga og ellefu opinberra aðila úr hópi þeirra 209 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsinguna hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.
Í tengslum við verkefnið hefur verið markaður Jafnréttislundur í Heiðmörk, Vífilsstaðamegin. Í ár voru gróðursett 76 tré, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2022. Valdar voru margar tegundir af trjám sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að. Alls er búið að setja niður 173 tré í Jafnréttislundi á síðustu 3 árum. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og verður ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.