Lokaráðstefna í Norræna verkefninu sem Akranes hefur tekið þátt í um litla og meðalstóra bæi á Norðurlöndunum
Dagana 17. og 18. október síðastliðinn fór fram lokaráðstefna í Norræna verkefninu sem Akraneskaupstaður hefur tekið þátt í síðastliðinn tvö ár. „Attractive towns. Green redevelopment, competitive Nordic urban regions,“
Dagskrá fimmtudagsins fólst í aðkeyptum fyrirlesurum um innleiðingu sjálfbærnimarkmiða SÞ, samantekt frá ráðgjafafyrirtækinu SWECO um verkefnið og lokakynningu þátttakenda um þau verkefni sem unnið hefur verið að. Árla dags á föstudeginum var haldið á Akranes þar sem Vilborg Guðbjartsdóttir leiddi hópinn um miðbæinn, vitasvæðið og Sementsverksmiðjureitinn. Þá fór stór hluti þátttakenda í Guðlaugu og að lokum í hádegisverð í Frístundamiðstöðinni við Golfskálann þar sem Sævar bæjarstjóri tók á móti hópnum. Þá var haldið í Mosfellsbæ í skoðunarferðir um miðbæjarsvæði og Álafosskvos. Einstök blíða var á föstudeginum sem gerði upplifunina.
Árið 2017 þegar Norðmenn fóru með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, settu þeir af stað verkefnið „Aðlandi bæir - umhverfisvæn endurnýjun og samkeppnishæfni í norrænum þéttbýlum.“ Bæir sem veita fólki góð lífsskilyrði. Gátu sveitarfélög á öllum Norðurlöndunum sótt um og mælst var til tengingar við utanaðkomandi stofnanir eða háskóla. Í umsókninni þurfti að skilgreina styrk- og veikleika svæðanna með fræðilegri vísun. Átján sveitarfélög voru valin úr umsækjendum, þar af fjögur frá Íslandi; Akranes, Mosfellsbær, Fljótsdalshérað og Hornafjörður. Á Hornafirði voru Nýheimar samstarfsaðili og umhverfisskipulagsbraut Landbúnaðarháskóla Ísland var samstarfsaðili í umsókn Akraneskaupstaðar, vegna þess að þar höfðu verið unnin mörg fræðileg verkefni sem tengjast ellefta sjálfbærnimarkmiði SÞ.
Ástæða þess að þessi áhersla var valin af hálfu Norðmanna er að margir litlir og meðalstórir bæir á Norðurlöndum standa frammi fyrir svipuðum vandamálum. Miðbæjarsvæði er illa skilgreint, íbúar keyra úr bæjunum til að sækja vinnu og mannlíf og innviði þarf að styrkja. Á sama tíma eru mikil sóknarfæri; hátæknilausnir hvað varðar fjarvinnslu, mikil tenging við náttúrulegt umhverfi matvælaframleiðslu og einfaldari lífsstíl. Almennt upplifa íbúar mikið öryggi.
Bæjunum var skipt í hópa eftir því hvernig þeir skilgreindu styrk- og veikleika. Þetta var niðurstaða þeirrar vinnu.
- Hópur 1: Lundur, Viborg, Hamar, Vaasa.
- Hópur 2: Narvik, Ystad, Hornafjörður, Sønderborg
- Hópur 3: Akranes, Växjö, Salo, Middelfart
- Hópur 4 : Pori, Innherredsbyen Levanger, Steinkjer og Verdal, Mosfellsbær/Fljótsdalshérað.
Verkefnið greiddi allan ferðakostnað og uppihald á þrjá hópfundi og þrjá stóra fundi allra þátttakenda. Að auki réð verkefnið SWECO ráðgjafafyrirtæki til að rýna í og aðstoða þáttakendur og er væntanleg stór skýrsla um þá vinnu. Þá voru um þrjár milljónir danskra króna í boði fyrir ýmis verkefni sem vinnuhóparnir unnu að og fór Akranes/LbhÍ m.a. í tvær námsferðir til Kaupmannahafnar og Amsterdam þar sem áhersla var á að skoða breytingarsvæði, atvinnuuppbyggingu og sjálfbærar lausnir.
Sameiginleg reynsla íslensku fulltrúanna af vinnu með hinum Norðurlandabæjunum:
- Margt ólíkt sem tengist stærðarmun
- Afar lítið um mælingar (indicators) til að vísa í hjá okkur
- Verksvið og verkferlar afmarkaðri og skýrari í hinum löndunum
- Skipulags- og umhverfismál risastórir málaflokkar, Íslendingarnir með fjölda verkefnahatta í sinni vinnu
- Íslendingar kraftmiklir, geta leyst fjölbreytt verkefni og á mettíma.
Hver er svo ágóðinn?
- Þrjú nýsköpunarverkefni hafa verið unnin í tengslum við verkefnið, tvö á Akranesi sem Ása Katrín Bjarnadóttir og Rebekka Guðmundsdóttir LbhÍ unnu og eitt í Salo Finnlandi unnið af Aada Willberg Graduate student /Economics.
- Hópur þrjú sem Akraneskaupstaður er í, mun gefa út ráðgjafahefti (Liveability toolbox ) sem nýtast Akraneskaupstað og fleirum sveitarfélögum í skipulagssamráði og greiningu á svæðum.
- Þá kom út í tengslum við ráðstefnuna „Network of public spaces“. Í bókinni eru dæmi frá þátttökubæjum, m.a. frá Akranesi; Akratorgi, vitasvæði og Guðlaugu
Sindri Birgisson umhverfisstjóri og Helena Guttormsdóttir lektor LbhÍ hafa leitt verkefnið og verður á næstunni lögð áhersla á að láta það seitla meira til samfélagsins og háskólans.
Hér má sjá svipmyndir frá ráðstefnunni.