Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2021
Rekstrarhagnaður 578 milljónir króna, niðurgreiðsla skulda og veruleg uppbygging innviða í ársreikningi 2021
Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 var lagður fram í bæjarráði þriðjudaginn 13. apríl síðastliðinn og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fór fram þann 26.apríl.
Helstu þættir ársreikningsins eru svohljóðandi:
- Rekstrarafgangur samstæðunnar var 578 milljónir króna eða 721 milljónum króna betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir.
- Skuldaviðmið er áfram mjög lágt og lækkaði frá árinu 2020 og er nú 20% eða langt undir 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Skuldir við lánastofnanir halda áfram að lækka og eru einungis 919 milljónir króna og hafa lækkað um 138 milljónir króna á milli ára.
- Heildartekjur sveitarfélagsins voru 9.424 milljónir króna og voru 13,42% eða samtals 1.115 milljónum króna yfir áætlun.
- Fjárfestingar sveitarfélagsins námu 1.062 milljónum króna á árinu 2021 en mikið uppbyggingarskeið hefur verið undanfarin ár.
- Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var 16,98% af heildartekjum eða 1.519 milljónir króna og 910 milljónum króna betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
- Handbært fé í árslok var 1.571 milljónir króna en lækkaði um 239 milljónir króna á árinu vegna umtalsverðra fjárfestinga og niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga um 596 mkr. á árinu.
- Íbúum á Akranesi fjölgaði um 183 á árinu 2021.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 578 milljónir króna sem er 721 milljónum króna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum. Það skýrist fyrst og fremst af auknum tekjum. Skatttekjur voru 516 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 296 m.kr. frá fyrra ári. Aðrar tekjur jukust um 460 milljónir króna á milli ára.
Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun. Heildareignir í lok árs námu samtals 15.550 milljónum króna og hækkuðu um 706 milljónir króna milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 6.517 milljónum króna og hækkuðu um 68 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir lækkuðu um 138 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 141 milljón króna, vegna áhrifa hækkunar lífaldurs á lífeyrisréttindi og skammtímaskuldir hækkuðu um 66 milljónir króna. Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 507 milljónir króna fyrir A hluta og jákvæður um 71 milljón króna fyrir B hluta.
„Markviss vinna margra undanfarinna ára er að skila okkur góðum rekstrarafgangi og við erum sannarlega sveitarfélag í sókn. Fjöldi einstaklinga á vinnumarkaði hefur aukist á Akranesi á einu ári um 247 og mikil sókn er í öllum helstu atvinnugreinum. Mesti vöxtur milli ára er í hækkun launagreiðslna í byggingarstarfsemi (13,4%), sérfræði- og vísindastörfum (9,7%), sérhæfðri þjónustu (27,9%) og einkennandi greinum ferðaþjónustu (16,6%). Atvinnuleysi á Akranesi er nú 2,4% og hefur ekki verið lægra síðan í október 2019 er það mældist 2,2%.
Ársreikningur einkennist af verulegum fjárfestingum, töluverðri niðurgreiðslu langtímalána og skuldbindinga og afar ánægjulegt er að rekstrartekjur hafa vaxið töluvert umfram rekstargjöld. Fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst undanfarin ár og hefur hrist hratt af sér áhrif covid-19 heimsfaraldurs sem hafði áhrif á rekstur fyrra árs þó góður varnarsigur hafi unnist og rekstarhagnaður náðst. Ársreikningur Akraneskaupstaðar sýnir trausta fjárhagsstöðu, þar sem virðing er borin fyrir skattfé bæjarbúa. Tap var 250 milljónir króna á árinu á málefnum fatlaðra og er uppsafnað tap 717 milljónir króna á málaflokknum frá því að hann færðist frá ríkinu árið 2011 og eru framlög frá Jöfnunarsjóði því langt frá því að standa undir þessum málaflokki
Mikilvægt er að nýta þau sóknartækifæri sem eru í atvinnumálum og uppbyggingu því tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Frábær vinna er í þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga. Við viljum hvetja til atvinnutengdra fjárfestinga í Flóahverfi, við Guðlaugu, á Breiðinni, í miðbænum og á Langasandsreit. Á Breið er vinna í rannsóknar- og nýsköpunarsetri í fullum gangi og hugmyndasamkeppni í gangi þar sem markmið er að verði hátæknistarfsemi, heilsutengd ferðaþjónusta, hafsækin starfsemi svo eitthvað sé nefnt. Við Guðlaugu og Langasand er hugmyndasamkeppni lokið og framundan að undirbúa uppbyggingarfasa. Í Flóahverfi er uppbygging atvinnuhúsnæðis hafin og veruleg uppbygging framundan í grænum iðngörðum. Á Grundartanga eru mögnuð tækifæri til uppbyggingar gufuaflsvirkjunar, hitaveitu og framleiðslu rafeldsneytis. Í byggingu er nýr leikskóli, stækkun Grundaskóla, bygging nýs íþróttahúss og framundan uppbygging Samfélagsmiðstöðvar. Veruleg uppbygging húsnæðis er nú í gangi á Akranesi og er áætlað að um 640 milljónir króna fari í uppbyggingu nýrra gatna, gangstíga og reiðvega á árinu.“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi fundarins.
Gott ár í uppbyggingu og fjárfestingum
Fjárfesting í innviðum var umtalsverð og var samtals 1.062 milljónir króna á árinu 2021. Meðal helstu framkvæmda á árinu voru voru 221 milljónir króna í nýja þjónustumiðstöð við Dalbraut, 206 milljónir króna í nýjan leikskóla, 116 milljónir króna vegna breytinga í Grundaskóla, 204 milljónir króna í gatnagerð og gangstíga, 80 milljónir króna vegna íþróttarmannvirkja og 47 milljónir króna í Reiðhöll Dreyra.
Helstu rekstrartölur og lykiltölur A-hlutans
EBITDA framlegð hækkar verulega milli ára og nemur 3,53% á árinu 2021 en nam 0,25% á árinu 2020. Veltufjárhlutfall er enn mjög sterkt og nemur 1,87 í árslok 2021 og er sveitarfélagið því vel í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum. Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og er 73% í árslok 2021 en var 84% í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall er í árslok 60% og hækkar um 1,0% frá árinu 2020. Veltufé frá rekstri er 16,98%.
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:
- Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2021 er 20%.
- Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 1.979 milljónum króna.
Fundargerð bæjarstjórnar ásamt tilheyrandi gögnum er aðgengileg hér