Fara í efni  

Ársreikningur Akraneskaupstaðar 2022

Traustur rekstur í erfiðu rekstarumhverfi og veruleg uppbygging innviða

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2022 endurspeglar traustan rekstur þrátt fyrir erfið skilyrði í rekstarumhverfinu. Árið var jafnframt met ár í uppbyggingu innviða og viðhalds fasteigna í sveitarfélaginu. Skuldaviðmið er 39% sem er langt undir lögbundnu hámarki sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Rekstur samstæðu Akraneskaupstaðar gekk í meginatriðum vel og jukust rekstartekjur um 662 milljónir króna en erfitt rekstarumhverfi hefur áhrif á heildarniðurstöðu ársins:

  • Mikil verðbólga og hækkandi vextir hafa veruleg áhrif á rekstrarkostnað samhliða því að sveitarfélagið hefur staðið í verulega auknu viðhaldi á mannvirkjum. Annar rekstarkostnaður hækkaði um 457 milljónir króna milli ára.
  • Skuldbindingar Akraneskaupstaðar í málefnum fatlaðs fólks en þar hefur ríkið ekki veitt fjármagni til málaflokksins í samræmi við lögbundin verkefni. Á árinu 2022 er vanfjármögnun ríkisins af þessum málaflokki 364 milljónir króna.
  • Reiknuð hækkun tryggingastærðfræðings á lífeyrisskuldbindingu að fjárhæð 504 milljónir króna var 152 milljónir króna umfram áætlun.
  • Launakostnaður hækkaði um 741 milljónir króna á milli ára.
  • Tap var á rekstri Höfða að fjárhæð 43 milljónir króna sem skýrist af viðhaldi fasteignar en viðvarandi hefur verið vanfjármögnun ríkisins á húsnæði hjúkrunarheimila.

Rekstarniðurstaða ársins er neikvæð um 101 milljón króna sem er 229 milljónum króna lakari afkoma en ráð var gert í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum.

Helstu þættir ársreiknings fyrir árið 2022 eru svohljóðandi:

  • Skatttekjur voru 480 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 187 milljónir króna frá fyrra ári. Aðrar tekjur lækkuðu um 5 milljónir króna á milli ára. Gatnagerðartekjur vegna þéttingu byggðar lækkuðu um 116 milljónir króna á milli ára.
  • Veltufé frá rekstri var jákvætt um 823 milljónir króna eða 8,16% af heildartekjum og 21 milljón króna betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
  • Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 1.470 milljónir króna eða 678 milljónum króna betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
  • Handbært fé í árslok var 805 milljónir króna en lækkaði um 766 milljónir króna á árinu vegna umtalsverðra fjárfestinga og niðurgreiðslu skulda og skuldbindinga um 415 milljónir króna. á árinu.
  • Fjárfesting í innviðum var umtalsverð á og var samtals 2.032 milljónir króna á árinu 2022 en mikið uppbyggingarskeið hefur verið undanfarin ár. Meðal helstu framkvæmda voru 1.030 milljónir króna í skólahúsnæði, 320 milljónir króna í íþróttamannvirki, 300 milljónir króna í götur og gangstíga, 105 milljónir króna í búnað, áhöld og tæki og 57 milljónir króna í bifreiðar, þ.a. um 50 milljónir króna vegna nýrrar slökkvibifreiðar.

„Áskoranir eru framundan í rekstri sveitarfélaga og verðhækkanir í samfélaginu munu áfram hafa bein áhrif á rekstur bæjarins. Setja þarf fram skýr markmið til að auka rekstartekjur, draga úr hækkunum launagjalda og almennra rekstargjalda. Akranes er samfélag í sókn en á liðnu ári lækkaði bæjarstjórn álagningarprósentur á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Íbúum fjölgar og sókn er á öllum sviðum í atvinnumálum bæjarins. Við erum að verja grunnþjónustu ásamt því að ráðast í mikla innviðauppbyggingu.“ segir Steinar Adolfsson bæjarstjóri af þessu tilefni.

Helstu rekstrartölur og lykiltölur A-hlutans

  • EBITDA framlegð lækkar töluvert milli ára og er neikvæð um 1,5% á árinu 2022 en var jákvæð um 3,53% á árinu 2021.
  • Veltufjárhlutfall var í árslok 1,0 og er sveitarfélagið því í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum.
  • Skuldahlutfall hækkar lítillega og er 77% í árslok 2022 en var 73% í árslok 2021.
  • Eiginfjárhlutfall er í árslok 58% og lækkar um 2,0% frá árinu 2021.
  • Veltufé frá rekstri er 9,36%.

Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:

  • Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2022 er 39%.
  • Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 610 milljónum króna.

Fundargerð bæjarstjórnar frá 25. apríl er fyrri umræða um ársreikning fór fram ásamt tilheyrandi gögnum er aðgengileg hér


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00