Björgunarhringir á Breið
Nú nýlega voru Akraneskaupstað færðir björgunarhringir til að setja upp á Breið. Slysavarnafélagið Líf hafði fyrir nokkrum árum gefið björgunarhringi sem komið var fyrir á Breiðinni á tveimur stöðum, en af einhverjum ástæðum hurfu þeir og því brýnt að koma nýjum hringjum fyrir. Jón Arnar garðyrkjustjóri tók á móti hringjunum og hefur þeim verið komið fyrir þar sem gömlu hringirnir voru. Það er mjög mikilvægt að þessi öryggisbúnaður sé til staðar á Breiðinni og að vel sé um hann gengið þurfi að nota hann. Að fjarlægja björgunarhringina getur haft mjög alvarlegar afleiðingar ef þær aðstæður koma upp að grípa þurfi til þeirra og þá séu þeir ekki á sínum stöðum. Fólk er beðið að virða þetta og alls ekki fjarlægja hringina úr festingum sínum nema til notkunar í neyðartilfellum. Slysavarnafélaginu Líf er þakkað fyrir að sjá til þess að björgunarhringir eru aftur komnir á sína staði á Breiðinni.