Endurákvörðun sorphirðugjalda 2014
Bæjarstjórn Akraness samþykkti, þann 9. júní 2015 að endurákvarða sorphirðugjöld fyrir árið 2014 með hliðsjón af úrskurði úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. mars 2015 (hægt er að lesa úrskurð nefndarinnar hér). Úrskurðarnefndin taldi gjaldtöku Akraneskaupstaðar ólögmæta þar sem ekki hafi verið aflað umsagnar Heilbrigðisnefndar Vesturlands um gjaldskrá 1285/2013.
Bæjarstjórn samþykkti að allur tekjuafgangur málaflokksins samkvæmt ársreikningi 2014, að fjárhæð kr. 6.178.371, komi að fullu til lækkunar áður ákvörðuðum gjöldum sem felur í sér lækkun um 8,04% auk vaxta samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda við. Fjárhæð sorphreinsunargjaldsins verði kr. 14.799 í stað kr. 16.095 sem er lækkun um kr. 1.296 og fjárhæð sorpeyðingargjaldsins verði kr. 12.620 í stað kr. 13.725 sem er lækkun um kr. 1.105. Sorpgjöldin eru innheimt með fasteignagjöldum og er stefnt að því að leiðréttingin fari fram þann 15. júlí næstkomandi. Gjaldskrá samkvæmt þessari ákvörðun bæjarstjórnar verður birt í B-deild Stjórnartíðinda en einnig er hægt að skoða hana á heimasíðu Akraneskaupstaðar.