Írskir dagar á Akranesi formlega settir
Bæjarhátíðin Írskir dagar á Akranesi var formleg sett við Akratorg í dag, fimmtudaginn 30. júní og er hátíðin nú haldin í 23. sinn. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness setti hátíðina formlega í viðurvist leikskólabarna og annarra gesta. Halla Jónsdóttir frá Dansstúdíói Díönu kom og dansaði inn írska daga með viðstöddum gestum, einnig kíkti Lína Langsokkur í heimsókn en hún vakti mikla lukku. Börnum og gestum var síðan boðið uppá svala og kleinur.
Um helgina verða ýmsir viðburðir um allan bæ, m.a. karnival á Merkurtúni, skemmtidagskrá á Akratorgi þar sem m.a. rauðhærðasti íslendingurinn verður krýndur, sandkastalakeppni við Langasand, lifandi tónlist, myndlistasýningar, matarvagnar, markaðir og svo margt fleira. ,,Ég finn fyrir mikilli stemmningu fyrir helginni og hef heyrt að salan á skrauti sé miklu, miklu meiri en í fyrra, en hér í bæ er mikill metnaður lagður í að skreyta hverfin og húsin í írsku fánalitunum." Segir Fríða Kristín Magnúsdóttir, viðburðarstjóri Akraneskaupstaðar.
Við hvetjum unga sem aldna til þess að gera sér glaðan dag og njóta þess sem dagskrá helgarinnar hefur uppá að bjóða.
Dagskrá helgarinnar má skoða HÉR en einnig eru allir viðburðir skráðir á www.skagalif.is