Fyrsta skóflustunga tekin að nýjum leikskóla í Skógarhverfi
Föstudaginn 5. febrúar var tekin fyrsta skóflustunga að nýjum leikskóla í Skógarhverfi en hana tóku Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Valgarður Lyngdal Jónsson formaður bæjarráðs, Bára Daðadóttir formaður skóla- og frístundaráðs, Ragnar Sæmundsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Sandra Margrét Sigurjónsdóttir varaformaður skóla- og frístundaráðs, Valgerður Janusdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, Ingunn Ríkharðsdóttir leikskólastjóri og Ingunn Sveinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri. Ásamt þeim var stór hópur af börnum úr leikskólanum Garðaseli sem aðstoðuðu ötullega við verkefnið.
Nýi leikskólinn er um 1550m2 á 2 hæðum ásamt tæknirými sem staðsett verður á 3 hæð á norðurálmu. Skólalóðin er um 3000m2 og verður hún að hluta til ofan á suðurálmu hússins. Inngangur er á milli byggingar. Arkitektar Batterýis eru hönnuðir leikskólans en hönnun lóðar er í höndum Landslags. Verkís sér um burðarvirkið, loftræstikerfi og lýsingu ásamt hljóðhönnun.
Leikskólinn verður sex deilda með möguleika á að bæta við tveimur deildum til viðbótar.