Gatnagerð að hefjast í Flóahverfi
Nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjar götur og veitulagnir í Flóahverfi á svæðinu milli Höfðasels og fyrsta áfanga hverfisins. Um er að ræða 1200 m af götum sem verður skilað með malbiki, ásamt tilheyrandi lögnum.
Framkvæmd verksins var boðin út í vor og barst hagstæðasta tilboðið frá Borgarverk, alls 826 mkr. Samningur hefur verið undirritaður við þá og hefst undirbúningur framkvæmda núna í byrjun júlí. Framkvæmdinni er skipt í 5 verkáfanga sem verða afhentir hver af öðrum yfir verktímann fram til nóvember 2024. Í fyrsta verkáfanganum verður lokið við Lækjarflóa, og við það opnast fyrir aðgengi að 14 nýjum lóðum.
Skipulagshöfundur hverfisins er Árni Ólafsson, arkitekt. Hönnun verksins fyrir Akraneskaupstað og Veitur var unnin hjá verkfræðistofunni Mannvit og verkfræðistofan Verkís sinnir verkeftirliti.
Umsjónaraðili verksins er Anna María Þráinsdóttir (s. 864 6975), netfang: anmt@verkis.is.