Gróðursetning í Vigdísarlundi laugardaginn 27. júní kl. 13.00
Í tilefni af því að 35 ár eru liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands standa sveitarfélög og skógræktarfélög saman að gróðursetningu birkitrjáa. Akraneskaupstaður og Skógræktarfélag Akraness munu af þessu tilefni setja niður þrjú birkitré í Vigdísarlundi sem er staðsettur innst í Garðalundi.
Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár eru frá því að konur hér á landi fengu kosningarétt.
Skógrækt hefur verið Vigdísi afar hugleikin og snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Þótti því upplagt að skógræktarfélögin myndu marka þessi tímamót með gróðursetningu og fylgja fordæmi Vigdísar um trén þrjú.
Allir eru velkomnir á athöfnina sem hefst kl. 13.00 laugardaginn 27. júní.