Kynningarfundur í fjarfundi vegna Skógahverfis áfanga 5 og 3C
Fimmtudaginn 10. júní, stendur til að halda kynningarfund vegna vinnslutillaga í Skógahverfi áfanga 5 og 3C, að þessu sinni er um fjarfund að ræða og verður hann aðgengilegur í gegnum Teams fjarfundabúnaðinn og hefst fundurinn kl. 12.00, hlekk á fundinn má finna neðst í fréttinni. Athugið að fundurinn er tekinn upp og verður aðgengilegur að honum loknum.
Eftirtalin skipulagsverkefni verða kynnt:
Vinnslutillaga: Deiliskipulag Skógahverfis áfangi 3C.
Deiliskipulag áfanga 3C gerir m.a. ráð fyrir tiltölulega þéttri byggð blandaðri einbýlis-, raðhúsa og fjölbýlishúsa á einni til tveimur hæðum, alls 260-300 íbúðum. Gert er ráð fyrir opnu svæði með lækjarfarvegi sem verður hluti blágrænna ofanvatnslausna og nýtist sem útivistarsvæði.
Vinnslutillaga: Deiliskipulag Skógahverfis áfangi 5
Deiliskipulag áfanga 5 gerir m.a. ráð fyrir tiltölulega þéttri byggð blandaðri einbýlis-, raðhúsa og fjölbýlishúsa á einni til tveimur hæðum ásamt fjölbýli á þremur til fimm hæðum, alls 290-345 íbúðum. Gert er ráð fyrir opnu grænu svæði með mögulegri blágrænni ofanvatnslausn það mun nýtast sem útivistarsvæði og styrkir göngustígakerfi um hverfið.
Eftir kynninguna mun skipulags- og umhverfisráð ljúka gerð tillagnanna og leggja fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu. Ákveði bæjarstjórn að auglýsa ofangreindar skipulagstillögur, verður frestur til að gera athugasemdir við þær minnsta kosti 6 vikur sbr. ákvæði skipulagslaga.
Athugasemdir vegna deiliskipulagsgerðar berist á netfangið skipulag@akranes.is