Tilkynning frá Sementsverksmiðjunni vegna óhapps
Sementsverksmiðjan ehf. hefur fengið verkfræðistofuna Eflu til að meta raunveruleg áhrif óhapps í einu af sílóum Sementsverksmiðjunnar á Akranesi þann 5. janúar sl. á umhverfi og loftgæði. Óhappið leiddi til þess að sementsryk barst um nágrenni verksmiðjunnar.
Verkefni Eflu felst m.a. í því að fara yfir ferla fyrirtækisins og aðgerðir í kjölfar óhappsins en Sementsverksmiðjan heldur áfram að vinna með Eflu, tryggingafélagi fyrirtækisins og öðrum aðilum að því að hreinsa vettvang, meta áhrif og gera ráðstafanir svo koma megi í veg fyrir að óhapp sem þetta endurtaki sig.
Hluti af verkefni Eflu verður einnig að meta loftgæði og rykálag áhrifasvæðisins á Akranesi eftir óhappið til að ganga úr skugga um hver raunveruleg áhrif atviksins eru. Engin ástæða er þó til að ætla að það magn af ryki sem barst út í umhverfi verksmiðjunnar hafi ógnað heilsu fólks.
Í kjölfar óhappsins hafa einnig komið fram upplýsingar um að atvikið hafi staðið yfir í lengri tíma en áður var talið. Þær upplýsingar hafa ekki verið staðfestar og eru fyrirtækinu nýjar en gæti þýtt að meira sementsmagn hafi borist út í andrúmsloftið en áður hafði verið áætlað. Sementsverksmiðjan tekur þessar upplýsingar alvarlega og leggur áherslu á að halda áfram vinnu með Eflu og tryggingafélaginu til að greina málið til fulls.
Frá því óhappið átti sér stað hefur verið unnið að hreinsun á bílum og húsum en viðbrögð Sementsverksmiðjunnar við óhappi sem þessu eru þau sömu, óháð magni. Fyrstu viðbrögð voru að grófhreinsa allt svæðið, hús og muni sem sementsrykið settist á. Búið er að ljúka hreinsun að mestu; grófhreinsun á öllu svæðinu, hreinsun bíla sem lentu í óþrifum auk þess sem búið er að fullhreinsa 24 hús af þeim 64 þar sem tilkynnt var um um tjón. Eigendur þeirra húsa sem ekki hafa enn verið fullhreinsuð eru upplýstir um stöðuna en þrif liggja nú niðri vegna frosts.
Sementsverksmiðjan ítrekar velvirðingarbeiðni sína til þeirra sem fyrir óþægindum urðu og heldur áfram að vinna að hreinsun svæðisins í góðri samvinnu við íbúa og bæjaryfirvöld.