Úthlutun úr Þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2015
Á fundi skóla- og frístundaráðs 10. júní sl. var úthlutað í fyrsta skiptið úr Þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar. Þrjár umsóknir bárust um styrk og staðfesti skóla- og frístundaráð tillögu úthlutunarnefndar um að Vallarsel fengi úthlutað kr. 3.100.000 til þróunarverkefnisins „Fjölmenningarlegt skólastarf í Vallarseli“ og Garðasel kr. 400.000 til þróunarverkefnisins „Lífið er leikur - að leika og læra“.
Við fjárhagsáætlunargerð á síðasta ári ákvað bæjarstjórn Akraness að leggja kr. 3.500.000 í nýjan Þróunarsjóð skóla- og frístundasviðs á árinu 2015. Tilgangurinn með þróunarsjóðnum er að styðja við þróunar- og nýsköpunarstarf á sviði skóla- og frístunda á vegum Akraneskaupstaðar með það að markmiði að starfsemin verði í sífelldri þróun í takt við breytingar í umhverfi og samfélagi. Formaður skóla- og frístundaráðs, Sigríður Indriðadóttir afhenti styrkina með formlegum hætti í morgun.
Akraneskaupstaður óskar Vallar- og Garðaseli innilega til hamingju með styrkinn.