Úthlutun viðhaldssjóðs fasteigna
Þann 24. febrúar síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn Akraness tillögu skipulags- og umhverfisráðs að reglum um styrkveitingar vegna viðhalds á ytra byrði húsa á Akranesi. Markmiðið er að bæta ásýnd ákveðinna svæða í umdæmi Akraneskaupstaðar. Ráðstöfunarfé sjóðsins er ákveðið í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs ár hvert og skipulags- og umhverfisráð metur til hvaða húseigna (svæða) styrkir sjóðsins skulu ná og gerir tillögur til bæjarráðs um styrkveitingar. Á árinu 2015 voru veittar 15 milljónir í sjóðinn og ákveðið að eigendur húseigna við Kirkjubraut (frá Merkigerði) og Skólabraut gætu sótt um styrki. Bæjarstjórn samþykkti þann 9. júní, að fengnum tillögum skipulags- og umhverfisráðs að eigendum eftirtalinna húseigna styrki vegna ársins 2015.
Skólabraut:
- Skólabraut 20, kr. 600 þúsund, málun húss og lagfæring á þakrennum.
- Skólabraut 22, kr. 400 þúsund, málun þaks og lagfæring á girðingu.
- Skólabraut 23, kr. 600 þúsund, skipta um klæðningu og lagfæra glugga og þakkant.
- Skólabraut 25, kr. 380 þúsund, viðgerð á þaki og gluggum, málun glugga og þaks.
- Skólabraut 29, kr. 1.200 þúsund, endurnýjun klæðningar, þakkants og glugga.
- Skólabraut 33, kr.1.200 þúsund, endurnýjun á ytra byrði húss, klæðning, gler og gluggar.
Kirkjubraut:
- Kirkjubraut 2, kr. 455 þúsund, endurnýjun glugga á jarðhæð.
- Kirkjubraut 6A, kr. 1.200 þúsund, endurgerð þakkants, glugga
- Kirkjubraut 8, kr. 830 þúsund, málun húss að utan og endurnýjun glugga.
- Kirkjubraut 17, kr. 510 þúsund, lagfæra skemmda klæðningu og kanta fyrir ofan útihurðir.
- Kirkjubraut 19, kr. 600 þúsund, steypuviðgerðir og málun húss að utan.
- Kirkjubraut 21, kr. 600 þúsund, endurnýjun þaks og renna.
- Kirkjubraut 22, kr. 600 þúsund, endurnýjun á bárujárnsklæðningu og viðgerð á gluggum.
- Kirkjubraut 23, kr. 1.200 þúsund, járnklæðning tekin, útveggir einangraðir og steinaðir.
Fjórtán aðilar fengu úthlutað styrkjum til viðhaldsverkefna og nam heildarupphæð þeirra styrkja kr. 10.375.000. Styrkupphæðir voru áætlaðar m.a. eftir mismikilli viðhaldsþörf í tvo flokka, annarsvegar kr. 600 þúsund í lægri flokk og kr. 1.200 þúsund í hærri flokk. Styrkupphæðir voru þó aldrei hærri en 50% af áætlaðri viðhaldsþörf viðkomandi fasteignar. Bæjaryfirvöld munu halda styrkveitingum áfram og velja þá ný svæði á Akranesi ef vel tekst til varðandi styrkveitinguna í ár.
Úthlutun styrkjanna fór formlega fram í dag þann 10 júní í Gamla Landsbankahúsinu við Akratorg. Akraneskaupstaður sendir hamingjuóskir til þeirra fasteignaeigenda sem fengu úthlutun í ár.