Úttekt á Kútter Sigurfara
11.05.2015
Morten Møller sem starfar við forvörslu og viðgerðir á tréskipum við Nationalmuseet í Kaupmannahöfn kom á Akranes í dag til að gera úttekt á ástandi Kútters Sigurfara. Morten er staddur á Íslandi í þeim erindagjörðum að aðstoða Norðursiglingar við að koma skipaflotanum þeirra í stand fyrir sumarið. Það var Þjóðminjasafnið sem hafði milligöngu um að fá Morten til verksins en Akraneskaupstaður er í góðu samstarfi við safnið um mótun tillagna varðandi framtíð kúttersins og er úttekt Mortens einn liður í því. Morten hefur einnig komið að verkefnum tengdum Síldarminjasafninu á Siglufirði þannig að hann þekkir ágætlega til fornskipaflota Íslendinga.