Fara í efni  

Bæjarstjórn

1284. fundur 11. desember 2018 kl. 17:00 - 21:00 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson varamaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundarins.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar, að bæta með afbrigðum eftirfarandi málum á dagskrá:

Mál nr. 1809059 (Aðalskipulag - Grenjar - Breyting), mál nr. 1809055 (Deilisk. Grenjar hafnarsv. H3 - vegna Bakkatúns 30-32), mál nr. 1809183 (Aðalskipulag Flóahverfis breyting), mál nr. 1807128 (Deiliskipulag Flóahverfis - endurskoðun), mál nr. 1809184 (Aðalskipulag Smiðjuvellir - breyting), mál nr. 1805071 (deilisk. Smiðjuvallasvæðis, mál nr. 1812067 (Mannauður Spalar ehf.) og mál nr. 1801008 (Fundargerðir 2018 - skipulags- og umhverfisráð).

Málin verða númer 5 til og með 12 verði það samþykkt og töluliðir 5 til og með 9 breytast í samræmi við það og verða númer 13 til og með 17 á dagskrá fundarins.

Samþykkt 9:0.

1.Aðalskipulag Smiðjuvellir - breyting

1809184

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember sl., var lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akraness 2005-2017 vegna breytinga á Smiðjuvöllum. Breytingin felst m.a. í að landnotkunarreitir A9 og A10 eru sameinaðir reit A8 og skipulagsákvæðum breytt þannig að þar verði gert ráð fyrir blandaðri landnotkun. Svæði I6 fyrir aðveitustöð rafveitu er fært til austurs í samræmi við orðinn hlut. Svæði V9 er leiðrétt til samræmis við rétta afmörkun lóðar. Engin breyting er á skilmálum. Tillagan er unnin af Teiknistofu arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., dags. 6. desember 2018.
Skipulagslýsing var auglýst 17. október með fresti til að skila inn ábendingum til 8. nóvember 2018.
Haldið var opið hús/kynningafundur til kynningar á skipulagsbreytingunni fimmtudaginn 6. desember sl.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga. Áður en tillagan verður auglýst skal hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en fyrst send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Samþykkt 9:0.

2.Fundargerðir 2018 - Samband íslenskra sveitarfélaga

1801023

865. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. nóvember 2018.
RÓ um fundarliði nr. 6, nr. 13, nr. 15, nr. 16 og nr. 20. RÓ ræddi einnig um almenningssamgöngur sem eru utan fundargerðarinnar.

GJJ og leggur fram tillögu að ályktun bæjarstjórnar Akraness:

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um kostnað vegna málefna barna með miklar þroska- og geðraskanir, lögð fram á bæjarstjórnarfundi 11. desember 2018
Bæjarstjórn Akraness tekur undir bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. nóvember sl. Þar sem vakin er athygli á þeim mikla kostnaði sem sveitarfélög bera vegna búsetuúrræða fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir. Um langt skeið hefur verið kallað eftir fjármögnun úr ríkissjóði vegna búsetuúrræða fyrir þennan tiltölulega fámenna hóp barna en samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2019 skortir mikið á að ríkið veiti nægilegu fé til verkefnisins. Nýlega hefur síðan verið sett reglugerð um framkvæmd þessarar þjónustu sem mun að óbreyttu auka enn frekar á útgjöld sveitarfélaga til þessa málaflokks. Ekki hefur verið lagt lögformlegt kostnaðarmat á reglugerðina og skorar bæjarstjórn Akraness á Ásmund Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra að bæta þar úr og jafnframt að tryggja fjármögnun þjónustu fyrir þennan litla en afar viðkvæma hóp barna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Akraneskaupstað og önnur sveitarfélög sem ætlað er að sinna þessari mikilvægu þjónustu.

Ályktunin er send heilbrigðisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.

Akranesi, 11. desember 2018.

Valgarður L Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)

Samþykkt 9:0.

Framhald umræðu:

EBr, ELA sem leggur fram tillögu að ályktun bæjarstjórnar Akraness:

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um fjölgun hjúkrunarrýma á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða, lögð fram á bæjarstjórnarfundi 11. desember 2018.

Á Íslandi er sterkt samfélagslegt ákall um fjölgun hjúkrunarheimila og má þar nefna nýlegar fréttir um alvarlegan vanda Landspítalans vegna aldraðra sjúklinga sem lokið hafa meðferð en er ekki hægt að útskrifa vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Stjórnendur Landspítalans og landlæknir segja að þolmörkum sé náð svo engan tíma má missa.

Mikilvægt er að ríkið standi myndarlega að uppbyggingu nýrra hjúkrunarheimila til að mæta vaxandi eftirspurn en hugi ekki síður að bættri nýtingu þeirra hjúkrunarheimila sem þegar eru starfandi og eru ekki að fullu nýtt sem augljóslega sparar bæði tíma og fjármuni. Í þessu sambandi vill bæjarstjórn Akraness vekja athygli heilbrigðisráðherra á þeirri staðreynd að varanlegum rýmum á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða hefur verið fækkað úr 78 í 70 á undanförnum árum þrátt fyrir mjög langan biðlista eftir vistun og að Velferðarráðuneytið hefur enn ekki svarað beiðni Höfða frá 28. desember 2016 þar sem óskað er eftir heimild til fjölgunar hjúkrunarrýma.

Bæjarstjórn Akraness skorar á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að verða án tafar við beiðni hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða um fjölgun varanlegra hjúkrunarrýma.

Ályktunin er send heilbrigðisráðherra og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.

Valgarður L Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjóndóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Samþykkt 9:0.

Fundargerðin er lögð fram til kynningar.

3.Fundargerðir 2018 - Orkuveita Reykjavíkur

1801026

Fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur nr. 266 22.10.2018.
Fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur nr. 267 19.11.2018.
EBr um fundargerð nr. 266, fundarlið nr. 13.
RÓ um fundargerð nr. 266, fundarlið nr. 3 og nr. 13.
SFÞ um fundargerð nr. 13.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

4.Fundargerðir 2018 - skóla- og frístundaráð

1801007

93. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 4.desember 2018.
RBS um fundarlið nr. 1.
SMS um fundarliði nr. 1, nr. 3 og nr. 4.
KHS um fundarlið nr. 1.
EBr um fundarliði nr. 1 og nr. 3.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

5.Fundargerðir 2018 - velferðar- og mannréttindaráð

1801006

93. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 5. desember 2018.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir 2018 - bæjarráð

1801005

3360. fundargerð bæjarráðs frá 29. nóvember 2018.
3361. fundargerð bæjarráðs frá 3. desember 2018.
3362. fundargerð bæjarráðs frá 6. desember 2018.
Til máls tóku:
ELA um fundargerð nr. 3360, fundarliði nr. 3, nr. 4, nr. 5 og nr. 11.
ELA um fundargerð nr. 3361, fundarlið nr. 1.
ELA um fundargerð nr. 3362, fundarliði nr. 5 og nr. 6.
RÓ spyr um stöðu á breytingu á bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar
ELA upplýsir um stöðuna en staðfesting breytinganna hefur ekki enn borist frá ráðuneytinu og því hefur breytt bæjarmálasamþykkt ekki verið birt í Stjórnartíðindum.

Fundargerðinar lagðar fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2018 - skipulags- og umhverfisráð

1801008

98. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 10. desember 2018.
Til máls tóku:
EBr um fundarlið nr. 8.
RBS um fundarlið nr. 8.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

8.Fjármögnun samgöngubóta og mannauður Spalar ehf.

1812067

Ályktun bæjarstjórnar Akraness vegna umræðu um fjármögnun samgöngubóta.
Forseti ber upp eftirfarandi ályktun bæjarstjórnar:

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um stórfellda uppbyggingu samgöngukerfisins með álagningu flýtigjalda, lögð fram á bæjarstjórnarfundi 11. desember 2018.

Bæjarstjórn Akraness fagnar þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á Alþingi Íslendinga til stórfelldra samgöngubóta sem fyrirhugaðar eru á næstu árum og verða fjármagnaðar með álagningu flýtigjalda.

Akurnesingar hafa verið í fararbroddi í þessari hugsun á Íslandi í yfir 20 ár eins og bygging og rekstur Hvalfjarðarganga eru góður vitnisburður um.

Bæjarstjórn Akraness vill minna á að hjá starfsfólki Spalar á Akranesi, sem annaðist daglegan rekstur Hvalfjarðarganga, hefur myndast mikil þekking á gjaldtöku af notkun samgöngumannvirkja og vill bæjarstjórn Akraness hvetja Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til þess að nýta þessa yfirgripsmiklu þekkingu starfsfólks Spalar við undirbúning og ákvörðun um staðsetningu og umsýslu með innheimtu flýtigjalda á Íslandi.

Ályktunin er send samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)

Samþykkt 9:0.

Framhald umræðu:
RÓ og ELA.

9.Deilisk. Smiðjuvallasvæðis

1805071

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember nk., var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Smiðjuvalla, sem unnin er af ASK arkitektum., dags. 27. nóvember 2018. Tillagan er sett fram á skipulagsuppdráttum og í greinargerð. Í tillögunni felst að lóðum við Smiðjuvelli 12-22 eru sameinaðar í eina lóð. Á svæðinu verði athafnalóðir fyrir léttan iðnað, þjónustu og skrifstofur.
Skipulagslýsing var auglýst 17. október með fresti til að skila inn ábendingum til 8. nóvember 2018.
Haldið var opið hús/kynningafundur til kynningar á skipulagsbreytingunni fimmtudaginn 6. desember sl.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga deiliskipulagsins verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ráðið vill benda á að allur kostnaður sem hlýst af skipulagsbreytingunni fellur á umsækjanda hennar.
EBr gerir athugasemd varðandi tilgreiningu númera í tillögunni sem leiðrétta þarf.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að deiliskipulagstillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 9:0.

10.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2019-2022

1810140

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2019 og þriggja ára áætlun 2020-2022 var samþykkt í bæjarráði þann 6. desember síðastliðinn og vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 1 og mál nr. 2 verði tekin til umræðu saman.

Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 2 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2019 undir lið nr. 1. Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2019 og vegna tímabilsins 2020 til og með 2022.

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir kr. 1.121.848.890 í fjárfestingu og kr. 132.000.000 í gjaldfærðar framkvæmdir á árinu 2019. Heildarfjárhæð fjárfestinga- og framkvæmdáætlunar á tímabilinu 2020 til og með 2022 er kr. 1.864.996.962.

Samþykkt 9:0.

11.Deiliskipulag Flóahverfi - endurskoðun

1807128

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember sl., var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Flóahverfis, sem unnin er af Teiknistofu Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., dags. 19. nóvember 2018. Tillagan er sett fram á skipulagsuppdráttum og í greinargerð. Í tillögunni er hverfið stækkað til suðausturs um 34,900 m², gatnakerfið nýtt betur, lóðir eru minnkaðar og sett inn ákvæði um mögulega sameiningu lóða.
Skipulagslýsing var auglýst 17. október með fresti til að skila inn ábendingum til 8. nóvember 2018.
Haldið var opið hús/kynningafundur til kynningar á skipulagsbreytingunni fimmtudaginn 6. desember sl.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga deiliskipulagsins verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að deiliskipulagstillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 9:0.

12.Aðalskipulag Flóahverfi breyting

1809183

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember sl., var lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akraness 2005-2017 vegna breytinga á Flóahverfi A11. Breytingin felst m.a. í að landnotkunarreitur A11 er stækkaður til suðausturs um 3,5 ha. Tillagan er unnin af Teiknistofu arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., dags. 12. desember 2018.
Skipulagslýsing var auglýst 17. október með fresti til að skila inn ábendingum til 8. nóvember 2018.
Haldið var opið hús/kynningafundur til kynningar á skipulagsbreytingunni fimmtudaginn 6. desember sl.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga. Áður en tillagan verður auglýst skal hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
Bæjarfulltrúi EBr tekur sæti á fundinum að nýju.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en fyrst send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Samþykkt 9:0.

13.Deilisk. Grenjar hafnarsv. H3 - vegna Bakkatúns 30-32

1809055

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember sl., var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Grenja hafnarsvæði H3, sem unnin er af Teiknistofu Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., dags. 31. ágúst 2018. Tillagan er sett fram á skipulagsuppdráttum og í greinargerð. Í tillögunni er skilgreindur nýr byggingarreitur fyrir viðbyggingu til suðvesturs frá núverandi byggingu.
Skipulagslýsing var auglýst 4. október með fresti til að skila inn ábendingum til 25. október 2018.
Haldið var opið hús/kynningafundur til kynningar á skipulagsbreytingunni fimmtudaginn 6. desember sl.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga deiliskipulagsins verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Ráðið vill benda á að allur kostnaður sem hlýst af skipulagsbreytingunni fellur á umsækjanda hennar.
Bæjarfulltrúi EBr víkur af fundi við afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að deiliskipulagstillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 8:0.

14.Aðalskipulag - Grenjar - breyting

1809059

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs, sem haldinn var þann 10. desember sl., var um lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akraness 2005-2017, vegna breytinga á svæði Grenja H3 hafnarsvæði. Breytingin felst í nánari skilgreiningu þeirrar starfsemi sem heimil verður á hafnarsvæði H3. Engin breyting er gerð á skipulagsuppdrætti. Tillagan er unnin af Teiknistofu arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., dags. 19. nóvember 2018.
Skipulagslýsing var auglýst 4. október með fresti til að skila inn ábendingum til 25. október 2018.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga. Áður en tillagan verður auglýst skal hún send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
Bæjarfulltrúi EBr víkur af fundi við afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en fyrst send Skipulagsstofnun til yfirferðar sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Samþykkt 8:0.

15.Lóðaleigusamningar

1811134

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 6. desember tillögu skipulags- og umhverfisráð um breytingar á 9. gr. fyrirliggjandi lóðarleigusamninga og vísaði málinu til bæjarstjórnar til endanlegrar staðfestingar.
Bæjarstjórn Akraness breytingar á 9. gr. fyrirliggjandi lóðarleigusamninga sem tekur bæði til nýrra lóðarleigusamninga og endurnýjaðra lóðarleigusamninga að loknum leigutíma. Samningarnir fela þá í sér almenna reglu um 50 ára leigutíma og komi til þess að Akraneskaupstaður þurfi að leysa til sín lóð vegna breytinga á skipulagi eða að almenningsþörf krefji er lóðarhafa hverju sinni tryggt sannvirði fyrir hús og mannvirki sem á lóðinni standa.

Samþykkt 9:0.

16.Tímabundið leyfi frá störfum varabæjarfulltrúa

1811223

Stefán Þór Þórðarson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur óskað eftir tímabundnu leyfi til eins árs frá störfum sem varabæjarfulltrúi Akraneskaupstaðar eða til 31. desember 2019. Í hans stað tekur Carl Jóhann Gränz sæti sem varabæjarfulltrúi.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir beiðni Stefáns Þórs Þórðarssonar um tímabundið leyfi frá störfum sem bæjarfulltrúi tímablið 1. janúar 2019 til 31. desember 2019.
Samþykkt 9:0.

Nýtt kjörbréf verður gefið út til handa varabæjarfulltrúanum Carli Jóhanni Gränz af yfirkjörstjórn Akraneskaupstaðar í samræmi við niðurstöðu sveitarstjórnakosninganna þann 26. maí síðastliðinn en Carl Jóhann skipaði níunda sæti lista framboðs Sjálfstæðisflokksins (D) en framboðið fékk fjóra kjörna bæjarfulltrúa.

17.Fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2020-2022

1806199

Fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun 2020-2022 ásamt tillögum, var samþykkt í bæjarráði þann 6. desember síðastliðinn og vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
SFÞ gerir grein fyrir helstu hagstærðum í áætluninni og breytingum sem orðið hafa á milli umræðna.

Framhald umræðu:

ELA, RBS, GJJ, VLJ sem lagði fram bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra:
Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði um 422 milljónir króna og að rekstrarafgangur A- og B-hluta verði samtals um 424 milljónir króna. Á síðustu kjörtímabilum hefur verið unnið ötullega að því að bæta fjárhag og rekstur bæjarsjóðs og góður árangur hefur náðst sem fyrrgreindar tölur endurspegla. Engu að síður verður bæjarstjórn Akraness áfram að sýna ráðdeild og aðhald, ekki síst til að ná enn betra jafnvægi í rekstri aðalsjóðs bæjarins. Mikilvægt er á komandi árum að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur og gera enn betur, svo unnt verði að bjóða Akurnesingum upp á enn betri þjónustu bæjarfélagsins auk þess að halda áfram að byggja upp og sækja fram.

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun áranna 2019-2022 einkennist af metnaðarfullum uppbyggingarverkefnum og má þar nefna fimleikahús við Vesturgötu, frístundamiðstöð við Garðavöll, þjónustumiðstöð og uppbyggingu íbúða á Dalbrautarreit, reiðhöll við Æðarodda og áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja. Einnig verður haldið áfram að bæta gatnakerfi, göngustíga, leikvelli og útivistarsvæði á Akranesi, auk þess að tryggja leik- og grunnskólum bæjarins gott húsnæði og aðstöðu til sinna mikilvægu starfa. Þetta eru mörg verkefni og stór og verkefni bæjarfulltrúa verður að standa vel að þeim svo þeim megi ljúka með sóma, íbúum öllum til heilla.

Hlutverk bæjarfulltrúa á Akranesi á næstu árum verður að standa vel að rekstri Akraneskaupstaðar, gæta að góðu jafnvægi á milli tekna bæjarsjóðs og gjalda og tryggja þannig að Akraneskaupstaður geti ávallt veitt íbúum sínum þá bestu þjónustu sem völ er á.

Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)

Framhald umræðu:
SMS, EBr, ÓA, RÓ sem lagði fram bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi lýsa yfir ánægju með fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem og fjárfestingar- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2019 til 2022. Þær bera þess skýrt merki að halda eigi áfram með þau góðu verkefni sem farið var af stað með á árunum 2017 og 2018. Hér sannast að fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun sem mikil vinna var lögð í og samþykkt var af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Framsóknar í desember árið 2017 var byggð á raunsæi og var ekki til þess fallin að skapa óraunhæfar væntingar hjá bæjarbúum eins og Samfylkingin óttaðist. Byggt á fyrrnefndum áætlunum erum við að sjá verkefni á borð við frístundamiðstöð við Garðavöll, fimleikahús við Vesturgötu, reiðskemmu hestamannafélagsins Dreyra, uppbyggingu á Dalbrautarreit og nýja grunnsýningu á Byggðasafni verða að veruleika á fyrrihluta þessa kjörtímabils.

Við fögnum því einnig að á komandi árum verði lögð áhersla á að fara í metnaðarfulla uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Jaðarsbökkum og að leiðarljós í uppbyggingu skólamannvirkja verði að ná fram betri samnýtingu mannvirkja Akraneskaupstaðar og taki mið af breyttum kennsluháttum með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði mikla áherslu á að farið yrði í ítarlega greiningarvinnu á milli umræðna um fjárhagsáætlun í ljósi vísbendinga um að launakostnaður sem og annar rekstrarkostnaður væru að aukast verulega á milli ára.

Meirihluti Samfylkingar og Framsókn og frjálsir hefur fallið frá fyrri hugmyndum sínum um verkefni sem höfðu í för með sér aukin launaútgjöld og fögnum við því. Öll þessi vinna bæjarstjórnar hefur skilað sér í bættri fjárhagsáætlun og viljum við þakka starfsmönnum stjórnsýslu og fjármálasviðs, sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs sem og bæjarstjóra fyrir vel unnin störf.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að lokum benda á þann góða rekstrarárangur sem náðst hefur á síðast liðnum árum. Árið 2018 gefur vísbendingar um að niðurstaða bæjarsjóðs verði engin undantekning þar á og fögnum við því.

Mikilvægt er að halda áfram að lækka skuldir bæjarins og horfa til þess hvernig við getum bætt helstu tekjustofna með það að markmiði að fara í framkvæmdir án mikillar lántöku.

Áskoranir bæjarstjórnar Akraness á komandi ári eru miklar sem hefur í för með sér að huga þarf enn frekar að forgangsröðun verkefna og þeirri lögbundnu þjónustu sem bænum ber að sinna.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:
SFÞ, ELA, VLJ,RÓ.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:

1. Álagning gjalda 2019.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2019.

a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2019.
Samþykkt 9:0.

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts breytast frá fyrra ári (2018) til lækkunar og verða eftirfarandi á árinu 2019:

i. 0,2865% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan lækkuð um 7,581% samanborið við árið 2018 - var 0,3100%).
Samþykkt 9:0.

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan er lögbundin og er óbreytt á milli áranna 2018 og 2019).
Samþykkt 9:0.

iii. 1,5804% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (álagningarprósentan lækkuð um 2,444% samanborið við árið 2018 - var 1,6200%).
Samþykkt 9:0.

c. Sorphreinsunargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði óbreytt annað árið í röð og verði kr. 18.786 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp). Sorpeyðingargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði óbreytt frá fyrra ári og verði kr. 16.021 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0.

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,265% af fasteignamatsverði atvinnulóða (álagningarprósentan lækkuð um 2,69% samanborið við 2018) og 0,3815% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða (álagningarprósentan lækkuð um 4,625% samanborið við 2018) og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0.

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0.

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2019 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2019.
Samþykkt 9:0.

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2019, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0.

2. Þjónustugjaldskrár 2019.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem var nú 2,9% og byggði á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 1. júní síðastliðnum.

Heimilt er með sérstækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að almennar þjónustugjaldskrár hækki samkvæmt áætlaðri vísitöluhækkun neysluverðs, um 2,9%, þann 1. janúar 2019.

Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2019:
a. Gjaldskrá leikskóla
b. Gjaldskrá vegna skólamáltíða
c. Gjaldskrá frístundar
d. Gjaldskrá dagstarfs
e. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness (frávik í einstaka liðum)
f. Gjaldskrá íþróttamannvirkja (frávik í einstaka liðum)
g. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar
h. Gjaldskrá Bókasafns Akraness (frávik í einstaka liðum)
i. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness (frávik í einstaka liðum)
j. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness (frávik í einstaka liðum)
k. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum (óbreytt frá fyrra ári)
l. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi (frávik í einstaka liðum)
m. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi (frávik í einstaka liðum)
n. Gjaldskrá Akranesvita
o. Gjaldskrá Tjaldsvæðisins á Akranesi
p. Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi (óbreyttar fjárhæðir frá fyrra ári)

Samþykkt 9:0.

5. Útgjöld vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði Akraneskaupstaðar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 3,3 milljörðum króna vegna starfsemi á skóla- og frístundasviði á árinu 2019 sem er aukning um 6,3% frá áætlun yfirstandandi árs.
Samþykkt 9:0.

6. Útgjöld vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði Akraneskaupstaðar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 1,1 milljarði króna vegna starfsemi á velferðar- og mannréttindasviði á árinu 2019 sem er aukning um 7,3% frá áætlun yfirstandandi árs.
Samþykkt 9:0.

7. Útgjöld vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 578 mkr. vegna starfsemi á skipulags- og umhverfissviði á árinu 2019 sem er óbreytt frá fyrra ári.
Samþykkt 9:0.

8. Útgjöld vegna starfsemi sviði menningarmála hjá Akraneskaupstað.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 247 mkr. vegna menningarstarfsemi á árinu 2019 sem er aukning um 7,2% frá áætlun yfirstandandi árs.
Samþykkt 9:0.

9. Útgjöld vegna sameiginlegs kostnaðar hjá Akraneskaupstað.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 950 mkr. vegna sameiginlegs kostnaðar á árinu 2019 sem er aukning um 22,0% frá áætlun yfirstandandi árs. Rétt er að taka fram að um 130 mkr. af fjárhæðinni er ráðstafað út á sviðin með viðaukum samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar og samanburðurinn á milli ára (aukningin) er því ekki marktækur.
Samþykkt 9:0.

10. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2019.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 1,0 mkr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0.

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun 2020 til 2022 ásamt tillögum.

Fjárhagsáætlun 2019 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 424 mkr. og að handbært fé í árslok verði um 1,4 milljarður króna.

Samþykkt 9.0.
Forseti þakkar fundarmönnum fundinn og samstarfið á árinu.

Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum á Akranesi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Forseti ber upp frestun reglulegs fundar bæjarstjórnar sem samkvæmt dagskrá á að vera 25. desember næstkomandi.
Samþykkt 9:0.

Næsti fundur bæjarstjórnar verður þriðjudaginn 8. janúar 2019.

Fundi slitið - kl. 21:00.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00