Fara í efni  

Akranesviti opinn allt árið

Bæjarráð Akraness ákvað á fundi sínum í gær, þann 18. ágúst að halda Akranesvita opnum allt árið og er um tilraunaverkefni að ræða fram til ársloka 2017. Töluverð aukning hefur verið á fjölgun ferðamanna á Akranes en í lok júlí höfðu 7.800 gestir komið í Akranesvita en voru 9.600 allt árið 2015. Stefnt er að því að hafa vitann opinn frá þriðjudögum til laugardags yfir vetrartímann en alla daga á sumrin.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir tillöguna unna í samráði við vitavörðinn, Hilmar Sigvaldason en hann mun standa vaktina í vetur. Þegar hafa þrjú ferðaþjónustufyrirtæki sýnt áhuga á að koma í fastar ferðir í Akranesvita veturinn 2016 til 2017. Regína segir að á fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu á Akranesi hafi komið fram mikilvægi þess að halda Akranesvita opnum allt árið.  Töluverðar framkvæmdir hafa staðið yfir á Breiðinni á undanförnum árum í samræmi við nýtt deiliskipulag og hönnun fyrirtækisins Landslags ehf. og er þeim ekki að fullu lokið. Sett verður upp salernishús í vetur og fleiri verkefni eru í farvatninu. Tillaga bæjarráðs gengur einnig út á að sameina upplýsingamiðlun sem hefur verið starfrækt í Landsbankahúsinu og í Akranesvita þannig að upplýsingagjöf til ferðamanna verði á einum stað, í vitanum. Hinsvegar verði settir upp standar með bæklingum á nokkrum stöðum í bænum. Að auki verða svokallaðir ,,heitir reitir" settir upp sem gerir fólki kleift að komast á netið endurgjaldslaust og sækja rafrænar upplýsingar um Akranes og þjónustuna sem er í boði.  

Hér eru teikningar af hönnun svæðisins.  


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00