Ákvörðun um flóasiglingar frestast
Á fundi bæjarráðs Akraness í dag var samþykkt að hafna tilboðum í flóasiglingar þar sem þau tilboð sem komu samrýmdust ekki markmiðum um tilraunaverkefni um siglingar í sumar. Jafnframt var samþykkt að endurskoða útboðsskilmála með það í huga að bjóða siglingarnar út að nýju í haust fyrir sumarið 2017. Sambærileg tillaga var samþykkt í borgarráði í fyrr í dag.
Þann 3. mars s.l. auglýsti innkaupadeild Reykjavíkurborgar eftir áhugasömum aðilum til viðræðna vegna tilraunaverkefnis um beinar siglingar ferju á milli Reykjavíkur og Akraness á tímabilinu maí til september 2016. Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna rekstrargrundvöll reglulegra bátsferða á milli sveitarfélaganna og var gert ráð fyrir því að rekstraraðili ferju myndi safna upplýsingum varðandi rekstrarþætti á framangreindu tímabili. Þrír aðilar sendu innkaupadeild Reykjavíkurborgar umsókn um þátttöku í frekari viðræðum vegna verkefnisins. Viðræður hófust 18. mars s.l. Að mati fulltrúa innkaupadeildar og fulltrúa Akraness sem komu að viðræðunum samrýmdust hugmyndir þeirra ekki þeirri auglýsingu sem birt var þar sem aðilarnir horfðu til lengra samningstímabils en fulltrúar Reykjavíkurborgar og Akraness. Var því lagt til að viðræðum yrði hætt og útboðsskilmálar endurskoðaðir með það í huga að auglýsa útboð að nýju vegna sumarsins 2017.