Lýðheilsugöngur í september á Akranesi
Akraneskaupstaður og Íþróttabandalag Akranes í samstarfi við Ferðafélag Íslands endurtaka leikinn frá síðasta ári og bjóða upp á lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september. Frábærir sjálfboðaliðar leiða göngurnar og verður frítt í sund að loknum göngum fyrir göngugarpa. Göngurnar hefjast alltaf kl. 18:00 og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og taka með sér vatn í brúsa. Börn skulu ávallt vera í fylgd með fullorðnum.
Miðvikudaginn 4. september
Skógarganga í Slögu, skógræktarsvæði Skógræktarfélags Akraness. Lagt af stað frá Slögu (bílastæðinu við græna gáminn) við Akrafjall kl. 18:00 í Slögunni. Gangan um Slöguna tekur um 1 klukkustund þar sem spjallað verður um sögu skógræktar og möguleika hennar sem útivistarsvæði. Fararstjóri er Katrín Leifsdóttir.
Miðvikudaginn 11. september
Strandganga. Gangan hefst kl. 18:00 við Leyni, nánar tiltekið við listaverkið „Himnaríki” sem staðsett er rétt innan við Höfða. Gengið verður meðfram ströndinni að tjaldstæðinu við Kalmansvík. Einhverjir fróðleiksmolar gætu fylgt með á leiðinni og er gert ráð fyrir að gangan taki um 1½ - 2 klukkustundir. Gönguna leiða Anna Bjarnadóttir og Hallbera Jóhannesdóttir.
Miðvikudaginn 18. september
Rætur Akrafjalls og Reynisrétt. Gangan hefst kl. 18:00 og verður gengið frá bílastæðinu við Akrafjall til suðurs með fjallinu og inn að Reynisrétt og til baka. Á leiðinni verða örnefni svæðisins skoðuð og saga fjallsins hvort sem hún tengist ísaldarjöklinum, útilegumönnum eða frekum tröllskessum. Létt ganga fyrir alla fjölskylduna og tekur hún um 1½ klukkustund. Gönguna leiðir Eydís Líndal.
Miðvikudaginn 25. september
Vallanes í landi Hvítaness við Grunnafjörð. Upphaf göngu hjá Vallanesi kl. 18:00. Við mynni Grunnafjarðar er bærinn Hvítanes. Utan og neðan við Hvítanes eru skemmtilegar sandfjörur sem gaman er að ganga um. Grunnifjörður er friðlýstur og samþykktur sem Ramsar svæði. Mikið fuglalíf er þarna árið um kring. Genginn verður 3 – 4 km. hringur. Þetta er létt ganga við allra hæfi og tekur 1-1 ½ klst. Gönguna leiða Elís Þór Sigurðsson og Hjördís Hjartardóttir
Fjölmennum og höfum gaman!