Nýr forstöðumaður menningar- og safnamála ráðinn til starfa
Ella María Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður menningar- og safnamála á Akranesi. Ella María er með meistaranám í bókasafns- og upplýsingafræðum og BS í viðskiptafræði. Hún hefur starfað hjá Kaupþingi og síðar Arion banka frá árinu 1999 og gegnir nú starfi verkefnastjóra á þróunar- og markaðssviði. Helstu verkefni Ellu Maríu hjá bankanum hafa tengst breytingastjórnun og innleiðingu á nýjum kerfum og starfsháttum. Ella María hefur auk þess sinnt fjármálum, áætlanagerð og innri og ytri markaðssetningu fyrir bankann ásamt því að veita ráðgjöf til starfsmanna. Einnig hefur hún haft umsjón með og skipulagt ýmsa viðburði innan sem utan bankans.
Alls sóttu 25 um starfið en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Ráðgjafastofan Hagvangur annaðist úrvinnslu umsókna og greiningu á umsækjendum fyrir hönd Akraneskaupstaðar.