Þjóðlagasveitin Slitnir strengir fær útnefningu sem bæjarlistamaður Akraness 2016
Slitnir strengir, þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi fékk í dag útnefningu sem bæjarlistamaður Akraness árið 2016 og tók Skúli Ragnar Skúlason stjórnandi sveitarinnar á móti viðurkenningunni. Sveitin hefur verið starfrækt í þeirri mynd sem hún er í dag frá árinu 2001. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri sem afhenti viðurkenninguna sagði að í rökstuðningi menningar- og safnanefndar fyrir valinu kæmi fram að þjóðlagasveitin hefði algera sérstöðu á íslensku tónlistarsviði, með að samþætta í listsköpun sinni ólík listform í heildrænu verki. Hljóðfæraleikur, söngur, leiklist og ljóð væru aðalsmerki sveitarinnar. Hefur hljómsveitin vakið mikla athygli fyrir nýstárlegan flutning.
Í hópnum eru 19 fiðluleikarar, allt stúlkur á aldrinum 18-27 ára. Að auki hafa þrír meðleikarar fylgt hópnum sem leika á slagverk, bassa og píanó.
Þjóðlagasveitin Slitnir strengir hefur haldið fjölmarga tónleika hérlendis, meðal annars á stóra og nýja sviði Borgarleikhússins og síðastliðið vor í Norðurljósasal Hörpu. Sveitin hefur og haldið tónleika í Danmörku, Skotlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Þjóðlagasveitin hefur unnið með þekktum listamönnum auk þess sem Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur í tvígang leitað eftir samstarfi um tónlistarflutning.
Undanfarna mánuði hafa Slitnir strengir unnið að upptökum á nýjum geisladiski sem áætlað er að komi út með haustinu. Þeirri vinnu mun ljúka með útgáfutónleikum. Félagar í þjóðlagasveitinni eru eftirtaldir:
Stjórnandi:
Skúli Ragnar Skúlason
Fiðluleikarar:
Arna Pétursdóttir
Ása Katrín Bjarnadóttir
Gunnþórunn Valsdóttir
Halla Jónsdóttir
Harpa Lind Gylfadóttir
Helena Másdóttir
Helga Margrét Aðalsteinsdóttir
Hjördís Tinna Pálmadóttir
Hrefna Berg Pétursdóttir
Hlín Guðný Valgarðsdóttir
Hulda Halldórsdóttir
Jóhanna Gréta Hafsteinsdóttir
Karen Guðmundsdóttir
Kim Klara Ahlbrech
Kristín Ragnarsdóttir
Lena Gunnlaugsdóttir
Ólafía Laufey Steingrímsdóttir
Unnur Þorsteinsdóttir
Ylfa Flosadóttir
Meðleikarar:
Birgir Þórisson, Eiríkur Guðmundsson og Sigurþór Þorgilsson.
Alls bárust fimm tillögur um bæjarlistamann Akraness 2016 með skráningum á akranes.is.