Fara í efni  

Bæjarráð

3377. fundur 27. júní 2019 kl. 08:15 - 15:10 í fundarherbergi 3. hæð, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Elsa Lára Arnardóttir formaður
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Ólafur Adolfsson varamaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Tekjustofn sveitarfélaga - umsögn v. frumvarps til laga um breytingu

1906183

Drög að umsögn Akraneskaupstaðar vegna áforma Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um frumvarp til laga til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Umsögnin skal send í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.
Bæjarráð samþykkir umsögn Akraneskaupstaðar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Umsögnin er eftirfarandi:

Á fundi bæjarráðs Akranes þann 27. júní 2019 var fjallað um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem snúa að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Bæjarráð Akraness fagnar frumvarpinu sem felur í sér aukna þátttöku Jöfnunarsjóðs í átaki til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að rýmka heimildir Jöfnunarsjóðs til að úthluta sérstökum framlögum vegna sameiningar sveitarfélaga, svo að kostnaður við framkvæmd sameininga sé ekki hindrun og hið sameinaða sveitarfélag standi ekki verr að vígi fjárhagslega en forverar þess gerðu hvert í sínu lagi.

Bæjarráð Akraness hvetur til þess að ríkið taki markvissan þátt í styrkingu sveitarstjórnarstigsins og fjárfesti í því með það að markmiði að sveitarfélög verði sjálfbærar þjónustu- og rekstrareiningar. Ekki verði einungis fjárhagslegir hvatar til sameiningar sveitarfélaga heldur ráði þar mestu að hagur íbúa sé hafður í öndvegi í öflugum sveitarfélögum sem bjóða íbúum sínum upp á góða þjónustu.

Samhliða þessu fagnar bæjarráð Akraness því að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hafi fallið frá tímabundinni frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árin 2020 og 2021. Það er ljóst á þessari niðurstöðu að barátta sveitarfélaga og landshlutasamtaka gegn þessum áformum skilaði sveitarfélögum landsins jákvæðri niðurstöðu.

Bæjarráð Akraness, 27. júní 2019

Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

2.Starf eldvarnareftirlitsmanns

1906184

Beiðni um ráðningu eldvarnareftirlitsmanns hjá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar
Bæjarráð heimilar tímabundna ráðningu eldvarnareftirlitsmanns hjá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveit til ársloka 2020. Bæjarráð felur bæjarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs frekari úrvinnslu málsins.

3.Vegir á Vesturlandi - ástand / tvöföldun vegar á Kjalarnesi 2019

1902024

Ályktun bæjarráðs Akraness um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Mögulegt er að framkvæmdir tefjist um eitt ár vegna þessa.
Bæjarráð Akraness samþykkir eftirfarandi bókun í tengslum við fyrirhugað umhverfismat á Vesturlandsvegi um Kjalarnes:

Skipulagsstofnun hefur tekið þá ákvörðun að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá 14. júní s.l. kemur fram að ákvörðun Skipulagsstofnunar geti tafið vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi um Kjalarnes um að minnsta kosti ár í viðbót þar sem matsferli Skipulagsstofnunar feli í sér marga tímafreka þætti.

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa marg oft ályktað um mikilvægi vegaframkvæmda um Vesturlandsveg og vakið athygli á þeim lífshættulegu aðstæðum sem vegfarendum þar er boðið upp á. Því er mikilvægt að bæði Vegagerðin og Skipulagsstofnun tryggi að tafir verði sem minnstar á framkvæmdum vegbóta við Vesturlandsveg um Kjalarnes.

Bæjarráð Akraness mun eins og áður halda áfram að fylgja þessu mikilvæga máli eftir og ítrekar að orð skuli standa.

Akranesi, 27. júní 2019

Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Valgarður Lyngdal Jónsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

4.Skógræktarfélag Akraness 2019 - styrkir og land til skógræktar

1901194

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti á fundi sínum þann 24. júní sl. framkvæmdasamning við Skógræktarfélag Akraness. Samningnum er vísað til staðfestingar í bæjarráði Akraness.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir samning Akraneskaupstaðar og Skógræktarfélags Akraness.
Gert er ráð fyrir útgjöldum vegna samningsins í fjárhagsáætlun ársins.
Fylgiskjöl:

5.Ustrzyki Dolne Commune Póllandi - ósk um vinabæjarsamskipti

1906038

Beiðni um vinabæjarsamstarf við Ustryzyki Dolne í Póllandi.
Bæjarráð getur ekki orðið við beiðninni og felur bæjarstjóra að svara erindinu.

6.Fasteignamat 2020

1906163

Erindi Þjóðskrár Íslands um fasteignamat 2020.
Bæjarráð Akraness mun hafa hækkun fasteignamats til hliðsjónar við ákvörðun fasteignagjalda á Akranesi vegna ársins 2020 eins og gert hefur verið undanfarin tvö ár. Bæjarráð mun taka mið af nýgerðum lífskjarasamningi aðila vinnumarkaðarins sem kveður á um að hámarki 2,5% hækkun að meðaltali á fasteignagjöldum á heimili og fyrirtæki.

7.Samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

1906182

Yfirlýsing um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Bæjarráð Akraness fagnar því frumkvæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið með stofnun samráðsvettvangs, sem ætlaður er sveitarfélögum landsins til samstarfs og samráðs um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Bæjarráð telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt gagnlegan grunn að slíku starfi með heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun.

Bæjarráð lýsir sig tilbúið til þátttöku í samráðsvettvanginum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Á sínum vettvangi mun bæjarráð beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar Akraneskaupstaðar munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum.

8.Útimarkaður á Akranesi 20. júlí 2019

1906196

Beiðni Heiðars Mars Björnssonar f.h. Icelandic Documentary Film festival um að fá að setja upp útimarkað 20. júlí 2019.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar gerir ekki athugasemdir við að settur verði upp útimarkaður við Akratorg að því gefnu að tilskilinna leyfa verði aflað frá sýslumanni og öðrum opinberum aðilum sem koma þurfa að leyfisveitingu vegna slíks viðburðar.

9.Nýsköpunarsetrið á Grundartanga

1903458

Erindi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um skipun í stjórn nýsköpunarseturs á Grundartanga.
Bæjarráð samþykkir að gera tillögu um að Ragnar B. Sæmundsson verði fulltrúi Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og Þróunarfélags Grundartanga í stjórn Nýsköpunarsetursins á Grundartanga og felur bæjarstjóra frekari úrvinnslu málsins.

10.Suðurgata 121 bílgeymsluþak - grenndarkynning

1904098

Erindið var grenndarkynnt frá 20. maí til 20. júní 2019, fyrir lóðarhöfum við Suðurgötu 119, 120, 122, 124, Skagabraut 9-11, 15, 17, 19 og 21. Samþykki eigenda á Skagabraut 9-11 og Skagabraut 10 barst á tímabilinu.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir deiliskipulagsbreytinguna.

11.Sambandið - ýmsar tilkynningar 2019

1901134

Á 871. fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var miðvikudaginn 29. maí sl., var samþykkt að boða til auka landsþings til að ræða tillögu að stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Hér með er því boðað til XXXIV. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga og verður það haldið föstudaginn 6. september 2019 á Grand hótel Reykjavík. Landsþingið hefst kl. 10:30 að morgni og stefnt er að því að þingstörfum ljúki um kl. 15:00 sama dag.
Lagt fram.
Bæjarráð samþykkir að fulltrúar Akraneskaupstaðar á aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verði tilnefndir fulltrúar samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar Akraness frá 12. júní 2018 sem eru eftirfarandi fulltrúar:
Valgarður L. Jónsson
Ragnar B. Sæmundsson
Rakel Óskarsdóttir
Sandra Sigurjónsdóttir

Bæjarráð hvetur alla bæjarfulltrúa sem eiga þess kost að mæta á aukalandsþingið.

12.Sementsverksmiðja ríkisins - sagnfræðirit

1906082

Styrkbeiðni til Akraneskaupstaðar vegna útgáfu sagnfræðirits um Sementsverksmiðju ríkisins.
Bæjarráð þakkar erindið en getur ekki orðið við því.

13.Eignarhaldsfélagið Spölur hf. - hluthafafundur

1901159

Tilkynning um arðgreiðslu frá Speli til hluthafa sem samþykkt var á aðalfundi Spalar ehf. þann 29. maí síðastliðinn.
Lagt fram.

14.Kirkjubraut 8 - 10 - tækifærisleyfi vegna "Írskra daga"

1906108

Meðfylgjandi er umsagnarbeiðni og umsókn Hús fasteignaviðhald ehf kt.600617-0360 um tækifærisleyfi til áfengisveitinga vegna Írskra daga sem halda á að Kirkjubraut 8 og 10, Akranesi 5.-7. júlí 2019.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við leyfisveitinguna að uppfylltum skilyrðum sem slökkviliðsstjóri kann að setja fram.

15.Brunabótafélag - aðalfundarboð fulltrúaráðs

1906105

Aðalfundarboð fulltrúaráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands þann 20. september næstkomandi.
Lagt fram.
Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri sæki aðalfundinn f.h. Akraneskaupstaðar.

16.Kjaradeilu vísað til ríkissáttasemjara

1906164

Erindi Verkalýðsfélags Akraness um að kjaradeilu hafi verið vísað til ríkissáttasemjara.
Lagt fram.

17.Keilufélag Akraness - fyrirspurn um framkvæmdir

1905069

Endurnýjun keilubrauta Keilufélagsins.

Karl Jóhann Haagensen verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
ELA og VLJ taka jákvætt í erindi Keilufélagins er varðar kaup á nýjum vélbúnaði fyrir keilubrautir samtals að fjárhæð um 13,0 mkr. og fela bæjarstjóra og sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að finna fjárfestingunni stað í núverandi fjárfestingar- og framkvæmdaáætlun án viðbótarútgjalda. ÓA situr hjá við afgreiðslu málsins.

18.Norðurálsmótið 2019 - samningur

1904055

Norðurálsmótið var haldið dagana 21. til 23. júní síðastliðinn.
Bæjarráð þakkar skipuleggjendum mótsins kærlega fyrir þeirra störf og stórglæsilegt mót sem fór í alla staði vel fram venju samkvæmt.

19.Starfshópur um framtíðarþörf á leikskólaplássum á Akranesi

1808057

Skóla- og frístundaráð lagði til á fundi sínum 4. júní að byggður verði nýr leikskóli sem byggir á þarfagreiningu með hagsmunaaðilum. Ráðið leggur einnig til að leiðir verði skoðaðar til að bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks í eldri byggingum leikskólanna.

Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að koma með útfærðar tillögur í þessu efni sem innlegg í fjárhagsáætlanagerð ársins 2020. Með því að ráðast í byggingu á nýjum leikskóla næst að mæta ákalli eftir meiri þjónustu leikskólastigsins, íbúaþróun og nýjum hugmyndum um gæði húsnæðis. Þessi hugmynd gerir ráð fyrir því að leikskólinn Garðasel flytjist í nýtt húsnæði sem skapar hagræði í stjórnun og rekstri og mætir að einhverju leyti húsnæðisþörf Grundaskóla.

Skóla- og frístundaráð felur sviðstjóra skóla- og frístundasviðs að leggja mat á áætlaða þörf fyrir leikskólapláss næstu fimm árin byggt á þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu starfshópsins. Jafnframt er sviðstjóra falið að afla upplýsinga um búsetu dreifingu barna á leikskólaaldri og spá fyrir um þróun hennar. Umbeðin gögn fylgi tillögu skóla- og frístundaráðs um byggingu nýs leikskóla inn í bæjarráð.

Valgerður Janusdóttir og Friðbjörg Eyrún sitja áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að hafinn verði undirbúningur að byggingu nýs leikskóla á Akranesi. Áætlað er að framkvæmdir geti hafist á árinu 2020 og verði lokið haustið 2021. Að lokinni uppbyggingu leikskólans mun starfsemi Garðasels færast í aðstöðuna og Grundaskóli fá til afnota núverandi húsnæði Garðasels undir starfsemi sína.

Bæjarstjóra er falin frekari úrvinnsla málsins með tilliti til fjárhagslegra forsendna ákvörðunarinnar sem komi til formlegrar afgreiðslu við fjárhagsáætlunargerð ársins 2020.

Valgerður Janusdóttir og Friðbjörg Eyrún víkja af fundi.

20.Langtímaveikindi starfsmanna 2019 - ráðstöfun fjármuna (veikindapottur)

1905404

Umsóknir stofnana Akraneskaupstaðar í veikindapott vegna tímabilsins janúar til og með júní.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að úthluta samtals kr. 18.160.000 úr veikindapotti Akraneskaupstaðar vegna tímabilsins janúar til og með júní 2019. Um er að ræða helming af heildarfjárhæð umsókna en ákvörðun um endalega úthlutun vegna tímabilsins verður tekin í lok árs þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um heildarútgjöld stofnana vegna þessa á árinu.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 6 að upphæð kr. 18.160.000 við fjárhagsáætlun ársins 2019 vegna úthlutun úr veikindapotti. Útgjöldum verður mætt af óvissum útgjöldum 20830-1690 og fært á eftirfarandi stofnanir:
04230-1691; kr. 6.212.000.
04220-1691; kr. 2.815.000.
04120-1691; kr. 1.995.000.
04130-1691; kr. 1.011.000.
04140-1691; kr. 494.000.
04160-1691; kr. 1.046.000.
04510-1691; kr. 357.000.
06510-1691; kr. 1.792.000.
06310-1691; kr. 76.000.
02530-1691; kr. 854.000.
02320-1691; kr. 369.000.
02020-1691; kr. 1.139.000.

21.Reglur um styrk til heilsueflingar

1903285

Tillaga um endurskoðun reglna um styrki til heilsueflingar starfsmanna Akraneskaupstaðar.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir breytingar á reglum um heilsueflingu starfsmanna Akraneskaupstaðar. Reglurnar eiga að taka gildi þann 1. janúar 2020 og er þeim því vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2020 en gera skal ráð fyrir hækkun fjárheimildar á lið 21690-1790.

22.Jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar

1906161

Drög að Jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar lögð fram til kynningar.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð vísar drögum að jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar til umsagnar hjá fagráðum kaupstaðarins. Umsagnir skulu berast eigi síðar en 31. júlí næstkomandi.

23.Skagapassinn

1905257

Tillaga er varðar "Skagapassann".

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir að tekinn verði upp svonefndur Skagapassi sem veitir aðgang í Akranesvita, sundlaugina á Jaðarsbökkum og Byggðasafnið og geti veitt handhafa passans afslátt af matseðli þeirra veitinga- og kaffihúsa á Akranesi sem taka þátt í verkefninu. Bæjarráð samþykkir að passinn verði seldur á kr. 1.500 og að fyrirtæki á Akranesi geti fengið umboð til sölu hans í sinni verslun eða veitingastað.

Bæjarráð samþykkir að stofnuð verði sérstök deild innan málaflokks 13 undir heitinu Skagapassinn og verður hún nr. 13670. Fjárveitingu vegna framleiðslukostnaðar, m.a. prentun, hönnun og markaðssetning samtals kr. 200.000 verður ráðstafað af 20830-4995.

24.Írskir dagar 2019 - stöðugjald vegna söluvagna

1906120

Reglur um stöðuleyfi vegna Írskra daga 2018.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir reglur og gjald fyrir stöðuleyfi söluvagna á Írskum dögum.

25.Gjaldskrá Tjaldsvæðisins yfir Írska daga

1906181

Tillaga að breytingu á gjaldskrá Tjaldsvæðisins í Kalmansvík yfir Írska daga.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir tillögu rekstraraðila um breytingar á gjaldskrá á Tjaldsvæðinu í Kalmansvík yfir Írska daga.

Breytingin er eftirfarandi:
1. Aldur barna sem fá frítt á svæðið í foreldrafylgd hækkar úr 13 í 15 ára.
2. Einingarverð fyrir tjald, hjólhýsi, fellihýsi eða húsbíl er fellt niður til einföldunar og í þess stað tekið aukið gjald pr. einstakling.
3. Helgarverð fyrir 16 ára (á árinu) og eldri er hækkað úr kr. 2.500 í kr. 4.500.
4. Önnur gjöld taka mið af gildandi gjaldskrá.

Gjaldskrá hátíðarinnar hefur ekki tekið breytingum í fjölda ára og þarf gjaldskrá að haldast í hendur við hækkun annarra kostnaðarþátta sem koma til gjalda vegna helgarinnar. Til að mynda eru tekin á leigu fleiri salerni, gæsla aukin til muna og fleiri starfsmenn sinna vöktun á svæðinu.

26.Guðlaug, heit laug - starfsleyfi o.fl.

1612106

Rekstur Guðlaugar.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir situr áfram á fundinum og jafnframt tekur Ágústa Andrésdóttir forstöðumaður íþróttamannvirkja sæti á fundinum undir þessum lið.
Ásókn í laugina hefur farið fram úr björtustu vonum og mikilvægt að mæta þörf á auknu eftirliti og gæslu í Guðlaugu með auknu fjármagni.

Bæjarráð samþykkir fjárveitingu að fjárhæð kr. 1.750.000 sem ráðstafa skal af lið 20830-4995 og færast á lið 06570-1230.

Sædís Alexía og Ágústa Andrésdóttir víkja af fundinum.

27.Tillaga ungmennaráðs um samráðshóp

1811221

Á fundi skóla- og frístundaráðs 18. júní var samþykkt breyting á erindisbréfi Ungmennaráðs Akraness og því vísað til bæjarráðs til samþykktar.

Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir og Valgerður Janusdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Bæjarráð tekur undir bókun skóla- og frístundaráðs og þakkar samráðshópi um hlutverk ungmennaráðs fyrir störf þeirra að mótun framtíðarstefnu um vettvang fyrir ungt fólk á Akranesi. Bæjarráð samþykkir hjálagt erindisbréf ungmennaráðs og að ráðið skuli vera launað í samræmi við reglur Akraneskaupstaðar um greiðslur fyrir fundarsetu í ráðum og nefndum.

Viðbótarfjármagn samtals kr. 405.000 fyrir árið 2019 skal ráðstafa af liðnum 21030-1691 og inn á lið 06010-1691. Gert skal ráð fyrir útgjöldum vegna starfa samráðshópsins við fjárhagsáætlunargerð 2020.

28.Fundargerðir 2019 - Sorpurðun Vesturlands hf.

1903119

Fundargerð stjórnar Sorpurðunar Vesturlands frá 3. apríl 2019.
Fundargerð stjórnar Sorpurðunar Vesturlands frá 19. júní 2019.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

29.Skógarhverfi 1. áf. fjölbýlishús - breyting á greinargerð

1904135

Kynnt var breyting á greinargerð sem felst í að í kafla 3.2. "Öll hús á skipulagssvæðinu eru látin standa við götu og snúa framhlið og aðalinngangur að henni." Verður eftir breytingu: "Framhlið og aðalinngangur húss skal hvort heldur sem er snúa að götu eða frá henni. Ennfremur sé tryggt samræmi í hönnun húsa er varðar hliðar er snúa út að götu og sérnotafletir íbúða á jarðhæð." Grein 4.3.1, Almennt "Ef byggð verða svokölluð svalagangahús skal þess gætt að svefnherbergi snúi ekki að svalagangi." Verður eftir breytingu: "Ef byggð verða svokölluð svalagangahús skal þess gætt að lágmarka svefnherbergi er snúi að svalagangi. Í slíkum tilvikum skal þess gætt að slíta svalagang frá húsi í samráði við byggingafulltrúa."

Grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 15. maí til og með 14. júní 2019. Grenndarkynnt var fyrir lóðarhöfum við Asparskóga 6, 8, 10, 12, 14, 16, 18 og Beykiskógum 19. Engar athugasemdir bárust við breytinguna.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og send Skipulagsstofnun og auglýsing um gildistöku birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir deiliskipulagsbreytinguna og að hún verði send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

30.Deiliskipulag Skógarhverfi 2. áf. rað- og parhús

1904143

Kynningarfundur var haldinn 9. maí og aftur 14. júní 2019. Skipulaginu var breytt vegna athugasemda sem bárust á fundinum 9. maí 2019.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Skógarhverfis 2. áfanga vegna lóða við Fagralund og Akralund, lögð fram.
Breyting á deiliskipulagi Skógarhverfis 2. áfanga felst m.a. í að breyta einbýlishúsalóðum við Fagralund 1, 3, 5, 7 og 2, 4, 6 í tvær þriggja íbúða raðhúsalóðir og þrjár parhúsalóðir (12 íbúðir). Fjölbýlishúsalóðir við Akralund 8, 10, 12 og 14 er breytt í tvær fjögurra íbúða raðhúsalóðir (ein til tvær hæðir) og eina parhúsalóð (ein til tvær hæðir).

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst í samræmi við 41.gr. skipulagslaga nr.123/2010.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr.123/2010.

31.Deiliskipulag Æðarodda - breyting vegna reiðskemmu

1805150

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Æðarodda var auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 26. apríl t.o.m. 14. júní 2019. Engar athugasemdir bárust.

Felst breytingin m.a. í að afmörkuð er lóð fyrir reiðskemmu, norðan aðkomuleiðar að hverfinu, vegi syðst á skipulagssvæðinu er breytt til samræmis við núverandi legu.
Komið hefur ósk um að byggingarreitur verði færður frá reiðleið um 2m frá auglýstu skipulagi. Skipulags- og umhverfisráð samþykkir þá breytingu.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt, send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir deiliskipulagsbreytinguna og að hún verði send Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

32.Fjólulundur 1 - umsókn um byggingarlóð

1906116

Umsókn Vil ehf. um byggingarlóð við Fjólulund 1. Umsóknargjald hefur verið greitt og því umsókn tæk til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir úthlutun byggingarlóðarinnar við Fjólulund 1 til umsækjanda.

33.Asparskógar 13 - umsókn um byggingarlóð

1906089

Umsókn S126 um byggingarlóð við Asparskóga 13. Umsóknargjald hefur verið greitt og umsókn því tæk til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir úthlutun byggingarlóðarinnar við Asparskóga 13 til umsækjanda.

34.Asparskógar 19 - Umsókn um byggingarlóð

1906179

Umsókn Modulus eignarhaldsfélag ehf. um byggingarlóð við Asparskóga 19. Umsóknargjald hefur verið greitt og því umsókn tæk til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir úthlutun byggingarlóðarinnar við Asparskóga 19 til umsækjanda.

35.Asparskógar 21 - Umsókn um byggingarlóð

1906180

Umsókn Modulus eignarhaldsfélag ehf. um byggingarlóð við Asparskóga 21. Umsóknargjald hefur verið greitt og því umsókn tæk til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir úthlutun byggingarlóðarinnar við Asparskóga 21 til umsækjanda.

Fundi slitið - kl. 15:10.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00