Fara í efni  

Bæjarráð

3422. fundur 19. júní 2020 kl. 08:15 - 10:35 í fundarherbergi 3. hæð, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Elsa Lára Arnardóttir formaður
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Breiðin - valkostagreining

1909080

Tillaga um stofnun Þróunarfélags fyrir Breiðina. Bæjarráð samþykkti tillögu bæjarstjóra á fundi sínum þann 28. maí síðatliðinn þar sem bæjarstjóri fékk umboð til að ganga frá nauðsynlegri skjalagerð í tengslum við stofnun sjálfseignarstofnunarinnar Breiðin. Tilgangur hennar er að halda utan um fyrirhugaða uppbyggingu á Breiðarsvæðinu og næsta nágrenni í samstarfi Akraneskaupstaðar og Brims.
Lagt fram.

2.Markaðsherferð fyrir Akraness

2006217

Tillaga bæjarstjóra um markaðsherferð fyrir Akraness.
Lagt fram.

3.Umbótavinna á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstað

2001210

Úrbótaáætlun á rekstri og innra vinnulagi hjá Akraneskaupstaðar lögð fram í bæjarráði.
Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Capacent fékk það verkefni snemma á árinu að taka út ýmsa þætti er snúa að vinnulagi, starfsmenningu og þjónustu Akraneskaupstaðar, bæði innri þjónustu til stofnanna bæjarins sem og til íbúa. Þeirri vinnu lauk með kynningu Capacent á niðurstöðum úttektarinnar á fundi með sviðsstjórum, bæjarstjóra og bæjarfulltrúum mánudaginn 15. júní s.l. Á kynningarfundinum kom fram að bæjarfulltrúar vildu fá ráðrúm til að meta tillögurnar og skoða frekari gögn áður en lengra væri haldið. Engin samskipti áttu sér stað á milli meirihluta og minnihluta frá því að niðurstaðan var kynnt. Málið er svo tekið aftur upp á aukafundi bæjarráðs, föstudaginn 19. júní en bæjarráð fer með umboð bæjarstjórnar vegna sumarleyfa. Þess ber þó að geta að meirihlutinn fundaði um málið innan sinna raða á sínum reglulegu fundum.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði spurði meirihlutann hvort lægi fyrir fundinum að taka ákvörðun um úrbótaáætlunina í heild sinni á þessum aukafundi bæjarráðs og fékk þau svör að svo yrði. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins biður þá um fundarhlé sem var veitt. Í fundarhléi kom tillaga frá fulltrúum meirihlutans um að fresta afgreiðslu málsins til mánudagsins 22. júní.

Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir þessi vinnubrögð. Eitt er að grípa til nauðsynlegrar aðgerða vegna aðkallandi mála en annað er að tveir bæjarfulltrúar taki ákvarðanir sem hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka og breytingu á Samþykktum um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar kveður skýrt á um að Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar er óheimilt að taka ákvarðanir sem víkja frá stefnu bæjarstjórnar í veigamiklum málum (29 gr.) og hafa í för með sér breytingar á samþykktinni eða fjárhag bæjarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun.

Að tveir bæjarfulltrúar í bæjarráði ætli að taka svo stórar ákvarðanir án pólitískrar umræðu í bæjarstjórn er óviðunandi og hrein valdníðsla af hálfu meirihlutans. Með réttu hefði átt að kalla saman aukafund í bæjarstjórn því slíkar breytingar kalla á tvær umræður í bæjarstjórn samkvæmt Samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar. Frestun afgreiðslu fram til næsta mánudags í bæjarráði breytir því engu þar um og lagar ekki slaka málsmeðferð. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki sætt sig við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í þessu máli þegar kemur að ákvarðanatökunni.

Bæjarfulltrúinn Rakel Óskarsdóttir gekk út af fundi eftir umræður um þennan fundarlið. Eftir að bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins yfirgaf fundinn með þessum rökum, frestaði meirihluti bæjarráðs afgreiðslu málsins.

Rakel Óskarsdóttir (sign)

Bókun bæjarfulltrúa Framsóknar og frjálsra og Samfylkingar:

Kynningarfundur Capacent fór fram mánudaginn 15. júní s.l. en á fyrri hluta fundarins fengu bæjarfulltrúar kynningu á þeim aðgerðum sem Capacent leggur til og snúa að vinnulagi, starfsmenningu og þjónustu Akraneskaupstaðar. Þegar þeirri kynningu var lokið funduðu bæjarfulltrúar ásamt bæjarstjóra um þessar tillögur og ræddu þær. Á þeim fundi kom fram að bæjarfulltrúar þyrftu svigrúm til að ræða þessar tillögur innan sinna raða. Á þessum sama fundi kom fram að málið yrði tekið fyrir á aukafundi bæjarráðs sem fram færi föstudaginn 19. júní. Á þeim fundi átti að afgreiða málið þannig að embættismenn bæjarins fengju umboð frá pólitískum fulltrúm til að hefja vinnu út frá þeim tillögum sem fram koma í úttekt Capacent. Aldrei átti að samþykkja breytt skipurit Akraneskaupstaðar né breytingar á bæjarmálasamþykkt á þessum fundi bæjarráðs enda lágu engin gögn frammi til að geta tekið slíkar ákvarðanir. Slíkar tillögur krefjast hins vegar undirbúnings og fyrir bæjarráði lá að ákveða hvort sá undirbúningur mætti hefjast nú, þannig að leggja mætti útfærðar tillögur fyrir bæjarstjórn að loknu sumarleyfi.

Bæjarfulltrúarnir ELA og VLJ sitja ekki þegjandi undir þeim sökum að vera sagðir stunda valdníðslu enda hafa þeir hingað til átt gott samstarf við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Stór orð sem þessi, augljóslega sett fram af fljótfærni í hita leiksins, eru ekki líkleg til að viðhalda því góða samstarfi sem verið hefur milli meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn.

Við undirrituð hörmum að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skuli velja það að ganga af fundi bæjarráðs og taka hvorki þátt í umræðu né afgreiðslu þessa máls og jafnframt hafna aukafundi bæjarráðs um málið til að taka frekari umræðu. Í umræddri úttekt Capacent koma fram tillögur um leiðir til mikilvægra umbóta í starfsemi Akraneskaupstaðar og teljum við brýnt að undirbúningsvinna geti hafist sem fyrst og að embættismenn kaupstaðarins fái umboð frá pólitískum fulltrúum til að hefja þá vinnu. Næg tækifæri munu gefast í þeirri undirbúningsvinnu til að ræða og taka ákvarðanir um nánari útfærslur þeirra leiða sem farnar verða að því lokatakmarki að verklag og þjónusta bæjarskrifstofu og stofnana Akraneskaupstaðar verði framúrskarandi.

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram tillaga um að kallaður verði saman aukafundur í bæjarstjórn til að ræða og taka ákvarðanir í þessu máli. Sú tillaga kom ekki fram fyrr en eftir að bæjarfulltrúinn hafði yfirgefið fund bæjarráðs og er það miður, betur hefði farið á því að leggja þá tillögu fram á fundinum. Við lýsum okkur reiðubúin til að boða til aukafundar í bæjarstjórn um þetta mál og leggjum til að tímasetning þess fundar verði ákveðin á næsta reglulega fundi bæjarráðs.

Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)

Afgreiðslu málsins frestað.

4.ÍA - rekstur, samskipti og samningur

1908011

Greiningarvinna lögð fram um fjármagn til íþróttafélaga og Íþróttabandalagsins á Akranesi.
Lagt fram.

5.Forsetakosningar 27. júní 2020

2005242

Erindi sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um forsetakosningar sem fara fram þann 27. júní nætkomandi.
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir að kjörstaður vegna forsetakosninganna 2020 á Akranesi verði í Brekkubæjarskóla.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi kjörskrá en samtals eru þar 5240 einstaklingar, 2646 karlar og 2594 konur.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir tillögu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um launagreiðslur til starfsmannna kjörstjórna og annarra þeirra sem koma að framkvæmd kosninganna.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir tillögu sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs um fjárhagsáætlun 2020 vegna forsetakosninganna en gert er ráð fyrir jafnvægi í útgjöldum og tekjum (greiðslur frá ríkinu) vegna verkefnsins,samtals að fjárhæð 3,3 mkr.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 18 við fjárhagsáætlun 2020 sem felur í sér aukningu útgjalda að fjárhæð kr. 3,3 mkr. en samsvarandi aukningu í tekjum á deild 21150.

Samþykkt 2:0

6.Bjarg íbúðafélag - umsókn um stofnframlag 2020

2005140

Uppfærð staðfesting Akraneskaupstaðar á stofnframlagi vegna umsóknar Bjargs íbúðafélags hses. um uppbyggingu á Akranesi.

Var samþykkt á fundi bæjarráðs þann 8. apríl síðastliðinn en þá var uppbygging áformuð á Asparskógum nr. 11 og nr. 17. Ný staðsetning er nú fyrirhuguð á Asparskógum nr. 3.

Fjárhæðir stofnframlags leiðréttar til samræmis við uppfærð gögn Bjargs íbúðafélags hses.

Ráðstöfunin felur í sér hækkun heildarframlags Akraneskaupstaðar en lægri fjárhæðar úr sjóð vegna hærri gatnagerðar- og þjónustugjalda en áður var gert ráð fyrir.
Afgreiðslu málsins frestað.

7.Dalbraut 6 - leiguíbúðir fyrir aldraða

2004058

Uppfærð staðfesting á stofnframlagi Akraneskaupstaðar vegna uppbyggingar almennra íbúða á Dalbraut 6.
Afgreiðslu málsins frestað.

8.Öryggismyndavélakerfi - löggæslumyndavélar

2001077

Samningur um löggæslumyndavélar lagður fram til samþykktar.
Afgreiðslu málsins frestað.

9.Asparskógar 19 - Umsókn um byggingarlóð

1906179

Vetrarfell ehf. hefur óskað eftir að fá greiðslufrest á síðari hluta gatnagerðargjalda vegna Asparskóga 19 en verksmiðjuframleiðandi eininganna hefur gefið það út að hann nái ekki að anna framleiðslu á eingingum bæði fyrir Asparskóga 21 og Asparskóga 19 en fyrirhugað er að ljúka framkvæmdum vegna Asparskóga 21 í september næstkomandi.
Afgreiðslu málsins frestað.

10.Umsókn um stöðuleyfi fyrir markaðstjald

2006223

Umsókn varðandi stöðuleyfi fyrir markaðsjald (um 40 fermetra) á grasflöt á Suðurgötu til móts við Akratorg nokkrar helgar í sumar.

Hugmynd umsækjanda er a vera með opinn handverksmarkað við Akratorg annað hvort á laugardegi eða sunnudegi frá kl.13:00 - 17:00 (fer eftir veðri og aðstæðum) þar sem handverksfólk muni bjóða handverks og gjafavörur til sölu.

Sölutjaldið yrði sett upp að morgni og svo tekið niður að markaði loknum.

Umsækjandi telur þetta geta verið til þess fallið að glæða lífi í miðbæinn og auðgað mannlífið á Akranesi.
Bæjarráð samþykkir erindið.

Fundi slitið - kl. 10:35.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00