Fara í efni  

Skóla- og frístundaráð

37. fundur 12. maí 2016 kl. 16:30 - 18:16 í fundarherbergi 3. hæð, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Sigríður Indriðadóttir formaður
  • Rakel Óskarsdóttir varaformaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
  • Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sigrún Inga Guðnadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Svala Kristín Hreinsdóttir deildarstjóri skólaþróunar og sérfræðiþjónustu
Fundargerð ritaði: Svala Hreinsdóttir deildarstjóri skóla- og frístundasviðs
Dagskrá

1.Heimild til ráðningu leikskólakennara

1604226

Í lögum nr. 78/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er gert ráð að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara.
Leikskólinn Vallarsel hefur ekki náð að uppfylla lagaákvæði um 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna en til þess þarf að ráða um tvær 100% stöður leikskólakennara við skólann. Því er óskað eftir heimild til að ráða leikskólakennara í þessar stöður. Mismunur á launum starfsmanns í leikskóla og leikskólakennara er um kr. 2.500.000 á ári. Óskað eftir aukafjárheimild til leikskólans alls kr. 5.000.000 til að koma til móts við þennan launamun vegna þessara ráðninga.
Erindið hefur verið tekið fyrir í bæjarráði 28. apríl 2016 og því vísað til skóla- og frístundaráðs til frekari umfjöllunar.
Á fundinn mættu Elín Theódóra Reynisdóttir áheyrnarfulltrúi foreldra og Margrét Þóra Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi skólastjóra leikskóla.

Skóla- og frístundaráð tekur jákvætt í erindið, sem er í samræmi við lög nr. 78/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, um ráðningu í tvær 100% stöður leikskólakennara við skólann frá 1.ágúst 2016. Áætlaður viðbótarkostnaður á árinu 2016 er kr. 2.100.000. Skóla- og frístundaráð leggur til við bæjarráð að veita viðbótarfjármagni til leikskólans vegna þessa. Enn fremur þarf að gera ráð fyrir kostnaði vegna þessara tveggja ráðninga við fjárhagsáætunargerð 2017.

2.Ársskýrsla leikskóla 2014-2015

1509392

Skólastjórnendur leikskóla á Akranesi leggja árlega ársskýrslu leikskóla fyrir skóla- og frístundaráð til kynningar.
Skóla- og frístundaráð þakkar leikskólastjórum fyrir góða samantekt um starfsemi leikskóla á Akranesi. Lagt fram.

3.Starfsemi leikskóla - sumarskóli 2016

1512260

Skráning í sumarskóla leikskóla Akraneskaupstaðar er nú lokið. Það eru 87 börn skráð í fyrri viku skólans og um 36-40 börn í seinni vikunni.
Lagt fram til kynningar.

4.Sérfræðiþjónusta - tilkynning frá félagi stjórnenda leikskóla

1605002

Tilkynning frá Félagi stjórnenda leikskóla til sveitarfélaga. Félagið hefur fengið ábendingar um tilfelli þar sem leikskólastjórnendur búa við það starfsumhverfi að sérfræðiþjónusta sem snýr að ráðgjöf og stuðningi við starfsmenn og starfsemi leikskóla sé lítt aðgengileg og jafnvel alls ekki fyrir hendi.
Á fundinn mættu Arnbjörg Stefánsdóttir og Sigurður Arnar Sigurðsson áheyrnafulltrúar skólastjórnenda í grunnskólum, Elís Þór Sigurðsson og Hallbera Jóhannesdóttir áheyrnafulltrúar kennara í grunnskólum og Alexander Eck áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum kl. 17:18.

Á Akranesi er sérfræðiþjónusta skóla á skóla- og frístundasviði. Við sérfræðiþjónustu skóla starfa tveir sálfræðingar (starfssvið leik- og grunnskólar), talmeinafræðingur (starfssvið leikskólar) og iðjuþjálfi (starfssvið leik- og grunnskólar). Starfsmenn sérfræðiþjónustu eru í reglulegum samskiptum við stjórnendur leikskóla og hafa getað veitt ráðgjöf og stuðning við starfsmenn og starfsemi leikskóla á Akranesi.

5.Ársskýrsla sérfræðiþjónustu skóla- og frístundasviðs 2015-2016

1605046

Fyrstu drög að lykiltölum liggja nú fyrir í ársskýrslu sérfræðiþjónustu skóla- og frístundasviðs fyrir skólaárið 2016-2017. Biðtími eftir greiningu hjá sálfræðingum hefur lengst nokkuð en það eru starfsaðstæður sem við höfum ekki búið við áður. Ástæða þess er meðal annars fjölgun nemenda og einstaka nemendamál sem hafa tekið lengri tíma en áður. Reynt hefur verið að forgangsraða málum í samvinnu við skólastjóraendur, kennarar, foreldra og aðra þá sérfræðinga sem koma að málum nemenda.
Lagt fram til kynningar.

Margrét Þóra og Elín viku af fundi kl. 17:32.
Kristinn vék af fundi kl. 17:32.

6.Grundaskóli - heimild til ráðningu fagaðila 2016-2017

1605045

Þjónusturáðið skóla- og frístundasviðs hefur nú farið yfir og metið þjónustuþörf nemenda með sérþarfir fyrir skólaárið 2016-2017 (nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir. Einnig nemendur sem hafa þörf fyrir sérúrræði í samræmi við skilgreiningu í laga um grunnskóla og reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskólum). Nú liggur fyrir að veruleg aukning er á nemendum með fötlunargreiningar í Grundaskóla sem kallar á fjölgun stöðugilda til að koma til móts við skyldur skóla vegna nemenda með metnar sérþarfir.
Umræður um málið. Afgreiðslu frestað.

7.Þjónusturáð skóla- og frístundasviðs sérúrræði 2016-2017

1605077

Skóla- og frístundaráð fékk kynningu vorið 2015 á vinnu starfshóps sem skóla- og frístundasvið leiddi í samvinnu við skólastjórnendur um endurmati á stoðþjónustu grunnskóla. Þjónustan snýr að stuðningi við nemendur með sérþarfir og sérdeild grunnskóla á Akranesi. Afrakstur þeirrar vinnu var myndun þjónusturáðs sem skipað er fulltrúum skólastjórnenda, deildarstjóra sérdeildar, sérkennurum, sálfræðing og deildarstjóra sérfræðiþjónustu skóla. Þjónusturáðið hefur haldið áfram umræðu um framtíðarskipulag stoðþjónustu á Akranesi og fyrirkomulag á sérstökum stuðning við nemendur með metnar sérþarfir. Ráðið hefur haft til hliðsjónar í þeirri umræðu menntastefnu ríkisins um skóla án aðgreiningar. Þjónusturáðið óskar eftir aðkomu og afstöðu skóla- og frístundaráðs um framtíðar fyrirkomulag/skipulag á sérstökum stuðningi við nemendur með metnar sérþarfir og sérúrræði í skólum á Akranesi.
Kristinn tók aftur sæti á fundinum 17:55.
Umræður um erindið. Afgreiðslu frestað.
Arnbjörg, Elís Þór, Hallbera, Sigurður Arnar og Alexander viku af fundi kl. 18:10.

8.Íþróttamannvirki - opnunartímar á stórmótum 2016

1605088

Framundan eru þrjú stór og fjölmenn íþróttamót sem haldin verða á Akranesi á næstu vikum.
*Akranesleikarnir í sundi - 27. ? 29. maí
*Norðurálsmót - 10. -12. júní
*Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi (AMÍ) 23. -26. júní
Á meðan þessi stórmót fara fram hefur verið lokað og mjög takmarkað aðgengi almennings að Jaðarsbakkalaug.
Forstöðumaður íþróttamannvirkja óskar eftir afstöðu skóla- og frístundaráðs til þess að vera með opið fyrir almenning í Bjarnalaug á meðan þessum stórmótum stendur. Ekki er gert ráð fyrir slíkri þjónustu á fjárhagsáætlun 2016.
Skóla- og frístundaráð hafnar beiðni um auka opnun Bjarnalaugar þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun 2016.

Fundi slitið - kl. 18:16.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00