Stjórn Grundartangahafnar (2002-2004)
3. fundur. Ár 2002, miðvikud. 8. maí, kom stjórn Grundartangahafnar saman til fundar að Mörk i Skilmannahreppi og hófst fundurinn kl. 14:00.
Mættir: Sturlaugur Haraldsson, formaður,
Herdís Þórðardóttir,
Kristmar Ólafsson,
Marinó Tryggvason,
Sigurður Valgeirsson,
Ágúst Hjálmarsson.
Auk þeirra: Gísli Gíslason, hafnarstjóri.
Á fundinn mættu einnig: Helgi Þórhallsson frá Íslenska Járnblendifélaginu, Jón Valgarðsson oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps, Jón Þór Guðmundsson oddviti Skilmannahrepps, Ragnar Guðmundsson og Tómas Már Sigurðsson frá Norðuráli og Guðmundur Eiríksson frá Klafa ehf.
Fundarefni var staða mála á Grundartanga.
Í upphafi fundar fór Gísli yfir stöðu mála varðandi svæðisskipulag, aðalskipulag, deiliskipulag, vatnsmál, stöðu mála varðandi stækkun hafnarinnar, vegtengingar, stöðu mála varðandi kaup á landi á svæðinu og fleira. Fram kom hjá honum að skipulagslega væri svæðið ekki tilbúið til að taka á móti nema litlum hluta af þeirri starfsemi sem hugmyndir manna væru um. Nauðsynlegt væri að taka svæðið í heild til skoðunar og skipulagningar og til þess þyrfti að fá burðuga aðila, sem gætu lokið nauðsynlegri undirbúningsvinnu á sem skemmstum tíma. Nefndi hann að mögulegt væri að óska eftir tilboði frá Hönnun hf. og Magnúsi H. Ólafssyni í verkefnið og að stjórn hafnarinnar ásamt Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi þyrftu að vinna sameiginlega að skipulagsmálunum.
Ragnar nefndi m.a. aðgengi að höfninni og að girða þyrfti svæðið af og efla tollgæsluna. Einnig gat hann þess að sveitarfélögin þyrftu að taka á samgöngumálunum á svæðinu þ.e. flutningi fólks milli Grundartanga, Akraness og Borgarness.
Jón Valgarðsson fór yfir stöðuna og hvernig staðið hefði verið að skipulagsmálum. Áður hafi verið gert ráð fyrir þjónustulóðum í landi Klafastaða en að það hafi verið fellt út af uppdráttum til að flýta deiliskipulagningu lóðar Grundartanga. Hann taldi að ef markaðssetja ætti svæðið þá þyrfti að vinna frekara deiliskipulag og að nauðsynlegt væri að stækka iðnaðarsvæðið á skipulagi.
Tómas nefndi áhuga aðila á að fá lóðir á svæðinu s.s. Sláturfélag Suðurlands og Al. Hann minnti á að við höfnina væri förgunarstaður sem væri starfsleyfisskyldur og að búast mætti við hertum reglum hvað það varðar í framtíðinni.
Helgi taldi nauðsynlegt að hafa framtíðarsýnina á svæðinu áður en fyrirtæki og byggingar væri settar niður. Hann taldi að skipulagsmistök gætu kostað verulega fjármuni síðar.
Jón Valgarðsson taldi ekki vandamál að Katanes yrði fellt undir iðnaðarsvæðið en spurning kynni að vera um stærðir í því efni.
Herdís taldi nauðsynlegt að loka og afmarka hafnarsvæðið. Mikilvægt væri að þjónusta álverið og járnblendið en að önnur iðnfyrirtæki verði í jaðri svæðisins.
Jón Valgarðsson nefndi að ákveðin vinna væri í gangi varðandi vegagerð á svæðinu og vegtengingar. Taldi hann nauðsynlegt að þrýsta á um það mál og koma tengingunni á vegaáætlun.
Guðmundur taldi að Vegagerðin ætti að sjá um gerð vegar niður á höfnina og að í samgönguráðuneytinu væri litið svo á. Vangaveltur væru hins vegar um aðra vegagerð á svæðinu. Hann taldi augljóst að negla þyrfti niður vegarstæði, ganga frá aðalskipulagi og deiliskipulagi til að geta síðan keypt nauðsynlegt land til að þróa svæðið.
Jón Valgarðsson ítrekaði að skipulagsmálin væru í höndum sveitarfélaganna og að hann hefði þá trú að þau mál ættu að ganga vel.
Marinó ræddi nauðsyn þess að höfnin og hrepparnir gerðu með sér heildar samkomulag um skipulagningu svæðisins.
Tómas spurði um áhrif þess að breytingar yrðu væntanlega á sveitarstjórnum á svæðinu. Hann taldi nauðsynlegt að skipulagsmálin þyrftu að liggja fyrir næsta haust.
Helgi gat þess að hann teldi það slys ef Alur fengi lóð þar sem fyrirhugað er að setja það fyrirtæki niður.
Sturlaugur fór yfir stöðu mála varðandi kaup á landi. Hann taldi afar litlar líkur á að samkomulag næðist um kaup á Klafastöðum á næstunni. Hann taldi að flýta þyrfti skipulagsmálunum og vegamálinu. Hann fór yfir nauðsyn þess að Grundartangahöfn yrði gerð að aðaltollhöfn en þá væri heimilt að flytja um höfnina hvers kyns varning.
Niðurstaða þessa hluta fundarins var að allir voru sammála um að leita ætti til Hönnunar og Magnúsar H. Ólafssonar um skipulags- og hönnunarvinnu og að leggja þyrfti fram verkefnaáætlun og tímaáætlun. Kynna þarf sveitarstjórnunum fyrirhugaða legu vegtengingar. Gísli mun draga upp tillögu að samkomulagi milli hafnarinnar og hreppanna tveggja um skipulagsvinnuna og koma á fundi þeirra með Hönnun og Magnúsi H. Ólafssyni.
Guðmundur fór yfir tölur um inn- og útflutningi um Grundartangahöfn og sýna þær góða aukningu.
Fleira ekki gert,
fundi slitið kl. 16:30.
Gísli Gíslason (sign)