Fara í efni  

Kynning á niðurstöðum úttektar Verkís verkfræðistofu á húsnæði Grundaskóla

Grundaskóli.
Grundaskóli.

Í dag 17. mars 2021 barst endanleg skýrsla Verkís á úttekt á húsnæði Grundaskóla sem framkvæmd var vegna heilsufarseinkenna hjá nokkrum nemendum og starfsmönnum skólans.

Föstudaginn 5. mars lágu fyrir megin niðurstöður úttektarinnar og var ítarleg aðgerðaráætlun virkjuð í samvinnu stjórnenda og starfsfólks og kynnt foreldrum en markmiðið í þeirri vinnu var að taka nemendur og starfsfólk út úr þeim rýmum þar sem talið er að loftgæði séu ófullnægjandi. Stjórnendur og starfsfólk miðluðu ítarlegum upplýsingum um framvindu og þær aðgerðir sem grípa þurfti til svo skólastarf myndi raskast sem minnst við þessara krefjandi aðstæður. Skólinn tók til starfa við mjög svo breyttar aðstæður þegar á mánudeginum á alls sjö starfsstöðvum víðs vegar um bæjarfélagið og því féll ekki niður einn einasti skóladagur af þessum sökum. Stjórnendur, starfsfólk, nemendur og foreldrar hafa í sameiningu lyft grettistaki og staðið sig með afbrigðum vel í að standa vörð um skólastarfið.

Á mánudeginum 8. mars hófust þegar aðgerðir í húsnæði skólans undir stjórn starfsmanna skipulags- og umhverfissviðs og allt kapp lagt á að bregðast við þeim niðurstöðum sem þá lágu fyrir samkvæmt framangreindum meginniðurstöðum úttektar Verkís.

Í kvöld var kynningarfundur fyrir foreldra og starfsfólk þar sem endanleg skýrsla Verkís var kynnt af Indriða Níelssyni verkfræðingi sem hafði umsjón með úttektinni. Auk hans voru frummælendur á fundinum Sigurður Arnar Sigurðsson skólastjóri og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri. Þar gafst viðstöddum tækifæri til að spyrja og spurninga, koma með ábendingar og eiga innihaldsríkt samtal um stöðuna.

Ljóst er að framundan er viðamikið verk við endurbætur á skólahúsnæði Grundaskóla. Sérstaklega er það í C-álmu skólans (elsti hluti byggingarinnar,) þar sem kennslurými yngstu nemenda skólans er, en einnig eru tvö rými í B-álmu, kennslurými unglingadeildar, lokuð vegna rakaskemmda og viðamiklar viðgerðir þegar hafnar.

Bæjaryfirvöld munu á næstu dögum og vikum fjalla um og taka ákvarðanir um þær framkvæmdir sem ljóst er að ráðast þarf í á húsnæðinu til að skapa fullnægjandi aðstæður til kennslu.

Meðfylgjandi er slóð á lokaskýrsluna sem og á aðrar upplýsingar sem málið varða.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00