Vökunótt Arnardals sló í gegn!
Föstudagskvöldið 17. janúar var sögulegt í félagsmiðstöðinni Arnardal þegar Vökunótt fór fram með pompi og prakt. Þessi árlegi viðburður er verðlaun fyrir unglinga í 8.–10. bekk sem tóku þátt í Þrettándabrennunni á vegum Akraneskaupstaðar. Í ár voru 172 unglingar sem lögðu sitt af mörkum við Þrettándabrennuna, og af þeim mættu 153 á Vökunóttina – sem er einstaklega góð mæting! Arnardalsráð og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar sáu um skipulagningu og framsetningu á metnaðarfullri dagskrá sem hófst kl. 21:00 og stóð óslitið fram til 06:30 næsta morgun.
Þétt og fjölbreytt dagskrá
Kvöldið var stappað af skemmtilegum viðburðum, eitthvað fyrir öll. Þar má nefna Arnardalsmótaröðina sem reyndi á samvinnu og keppnisskap þegar hópar kepptu á stöðvum og söfnuðu stigum. Á kvöldvökunni sá Arnardalsráðið um líflega dagskrá, en hápunkturinn var frábært dansatriði frá starfsmönnum – sem vakti gríðarlega lukku. Pizzavagninn frá Domino’s mætti á svæðið rétt eftir miðnætti, þar sem unglingarnir gæddu sér á heitum pizzum til að halda orkustiginu uppi. Síðar um nóttina rúllaði Kökuvagn Kallabakarís inn með ljúffengar kræsingar, rétt þegar sykurþörfin var farin að segja til sín. Þátttakendur tóku þátt í ótal skemmtilegum leikjum og uppákomum, þar á meðal skotbolta, "Segðu eða Sötraðu", pílu, pool og borðspilum. Karaoke-gleði fyllti salinn, og þeir sem vildu slaka á gátu horft á bíómyndir eða raunveruleikaþætti. Ein af vinsælustu stöðvunum var "Djúpa laugin", þar sem unglingarnir leituðu að ástinni með bros á vör og húmorinn í fyrirrúmi.
Fyrirmyndarhópur
Þrátt fyrir lítinn svefn voru unglingarnir til algjörar fyrirmyndar allan tímann. Þegar lokið var við síðustu atriðin í dagskránni, stóðu allir saman að frágangi áður en haldið var heim á leið – án efa þreytt en ánægð eftir vel heppnaða nótt.
„Það er einstakt að sjá hvað unglingarnir skemmtu sér vel og hvað þau voru samheldin í gegnum allt kvöldið. Við erum stolt af því hvernig þau tóku þátt af heilum hug,“ sagði einn af starfsmönnum Arnardals.
Vökunótt Arnardals er lifandi dæmi um hvernig samvinna, sköpunargleði og jákvæð orka geta skapað minningar sem unglingarnir bera með sér lengi. Við hlökkum þegar til næstu Vökunætur!
Við minnum á heimasíðu Þorpsins sem færir fréttir af því frábæra starfi sem þar fer fram.
Þorpið er einnig á facebook