Fara í efni  

Bæjarráð

3378. fundur 03. júlí 2019 kl. 08:15 - 10:15 í fundarherbergi 3. hæð, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Elsa Lára Arnardóttir formaður
  • Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir varamaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðný Jóna Ólafsdóttir verkefnastjóri
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðný J. Ólafsdóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Dalbraut 4 - hönnun þjónusturýmis aldraðra.

1904230

Kynning á tillögum að hönnun þjónustumiðstöðvar að Dalbraut 4.
Steinunn Halldórsdóttir innanhússarkitekt hjá VA arkitektar og Karl Jóhann Haagensen verkefnastjóri hjá skipulags- og umhverfissviði fara yfir kynninguna.
Laufey Jónsdóttir verkefnisstjóri heimaþjónustu situr fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tillögu frá VA arkitektar og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði fagnar framkominni tilllögu frá VA Arkitektum á hönnun á Þjónustumiðstöð að Dalbraut 4. Breytingatillagan endurspeglar bókun Kristjönu Helgu Ólafsdóttur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í starfshópi um uppbyggingu á Dalbraut sem birt var við afgreiðslu lokaskýrslu starfshópsins í mars 2019.

Kristjana Helga Ólafsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram eftirfarandi bókun :
Frá upphafi hef ég talað fyrir því að góð tenging þurfi að vera milli stóra salarins og eldhússins. Núverandi teikning af þjónustumiðstöðinni gerir ekki ráð fyrir því og tel ég einsýnt að fljótlega eftir að húsið verður tekið í notkun þurfi að fara í kostnaðarsamar breytingar til þess að hægt sé að afgreiða úr eldhúsi beint inn í stóra salinn.
Ég tel það mikilvægt að huga að því að þjónustumiðstöðin verði opin öllum bæjarbúum og einn þáttur í því er að hægt sé að koma og snæða hádegisverð á staðnum. Stærð matsalar/kaffiteríu á núverandi teikningu mun einungis þjóna litlum hóp að mínu mati og því nauðsynlegt að horfa til hluta stóra salarins sem matsalar.

Bæjarráð samþykkir tillögu frá VA arkitektar og felur bæjarstjóra að vinna málið áfram.

2.Grundaskóli - færanleg kennslustofa/ skólastofa

1903185

Skipulags- og umhverfisráð samþykkti á fundi sínum þann 1. júlí sl. að fara í viðgerð á færanlegri skólastofu við Grundaskóla. Áætlaður kostnaður er kr. 3.962.500.
Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð að gert verði ráð fyrir ofangreindri upphæð í næsta viðauka fjárhagsáætlunar 2019.
Bæjarráð samþykkir að fara í viðgerð á færanlegri skólastofu við Grundaskóla.

Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir viðauka nr. 7 að upphæð kr. 3.963.000 við fjárhagsáætlun ársins 2019, á lið 31420-4620, vegna viðgerðar á færanlegri skólastofu við Grundaskóla. Útgjöldum verður mætt með lækkun á handbæru fé.

3.Írskir dagar - umsókn um veitingaleyfi

1907009

Erindi Sýslumannsins á Vesturlandi þar sem óskað er umsagnar á umsókn Bárunnar Brugghúss um tækifærisleyfi á Norðurálsvelli við Jaðarsbakka á Akranesi, að kvöldi 6. júlí 2019. Með vísan til 17. gr. laga nr. 85/2007, er hér með óskað umsagnar Akraneskaupstaðar.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við leyfisveitinguna en beinir þeim tilmælum til umsækjanda að öll meðferð áfengis sé í samræmi við áfengislög.

4.Sundabraut - skýrsla

1907013

Skýrsla um Sundabraut lögð fram.
Umsögn bæjarráðs Akraness um skýrslu starfshóps um Sundabraut

Starfshópur um Sundabraut hefur lokið störfum og skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sundabraut hefur verið til skoðunar um árabil og hafa bæjaryfirvöld á Akranesi og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ítrekað ályktað um mikilvægi hennar því Sundabraut mun án efa bæta umferð til og frá höfuðborginni og auka umferðaröryggi.

Bæjarráð Akraness fagnar ummælum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að raunhæft sé að bjóða út framkvæmdir við Sundabraut á þessu kjörtímabili og að framkvæmdir geti hafist á næstu þremur til fjórum árum.

Bæjarráð Akraness hvetur samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóahafnir og aðra hlutaðeigandi aðila til að vinna ötullega að þessari brýnu samgöngubót.

Elsa Lára Arnardóttir
Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir
Rakel Óskarsdóttir

Fundi slitið - kl. 10:15.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00