Fara í efni  

Bæjarráð

3589. fundur 13. mars 2025 kl. 08:15 - 13:55 í Lindinni Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson varaformaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Einar Brandsson varamaður
Starfsmenn
  • Haraldur Benediktsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá

1.Úttekt á rekstri og fjárhag

2312188

Áframhaldandi vinna bæjarráð varðandi fjárhagsleg markmið bæjarstjórnar.

Kristjana Helga Ólafsdóttir situr fundinn undir þessum dagskrárlið sem og undir lið nr. 2.
Ýmsar áskoranir hafa verið uppi í rekstrarumhverfi sveitarfélaga undanfarin misseri og hefur Akraneskaupstaður ekki farið varhluta af því, hvort sem litið er til lækkandi tekna eða aukinna útgjalda. Framundan er einnig mögulega tekjulækkun fyrir Akraneskaupstað vegna áforma um breytingar á úthlutunarlíkani jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Bæjarráð telur nauðsynlegt að bregðast við með sterku taumhaldi í fjármálum, samhliða því að lokið verður við setningu fjárhagslegra markmiða. Bæjarráð, í samráði við önnur fagráð, mun leiða vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunar og greiningu á hagræðingarverkefnum. Verkefnin fram undan eru lækkun rekstrarkostnaðar, frestun útgjalda og endurskoðun á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun. Markmiðið er að tryggja áfram fjárhagslega sjálfbærni Akraneskaupstaðar til skemmri og lengri tíma.

Bæjarráð samþykkir fjárhagsleg markmið Akraneskaupstaðar sbr. meðfylgjandi fylgiskjal sem felur m.a. í sér eftirfarandi varðandi A-hluta Akraneskaupstaðar:
- Framlegðarhlutfall rekstrar verði 7,5% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 5,3%).
- Veltufé frá rekstri verði 11,5% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 9,9%).
- Launahlutfall verði innan 60% á yfirstandandi ári (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 59,3% áður en nýir kjarasamningar eru endurreiknaðir).
- Skuldaviðmið til lengri tíma (2028) verði 80% (í fjárhagsáætlun ársins 2025 er það áætlað 65,3%).
- Þriggja ára jöfnuður verði áfram jákvæður.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar til endanlegrar ákvörðunar.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð samþykkir að ráðist verði í greiningu á reiknilíkönum grunn- og leikskóla og felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og fagráði skólamála að fylgja málinu eftir.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð beinir því til skipulags- og umhverfisráðs að yfirfara fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins og forgangsraða enn frekar verkefnum en eðli máls samkvæmt verður að skoða hvort frestun leiði af sér kostnaðarauka síðar meir.

Samþykkt 3:0

Hafin er vinna við fjárhagslega úttekt á velferðar- og mannréttindasviði sbr. fyrirliggjandi samning og verkefnaáætlun við KPMG. Sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs og fagráð velferðarmála fylgir málinu eftir.

Bæjarráð beinir því til allra fagráða, sviðsstjóra og forstöðumanna að tryggja áfram eftirfylgni við samþykkta fjárhagsáætlun og leiti jafnframt allra leiða til að standast framsett fjárhagsleg markmið.

Samþykkt 3:0

2.Mánaðayfirlit 2025

2503064

Mánaðayfirlit janúar 2025.

Lagt fram.

Kristjana Helga Ólafsdóttir víkur af fundi.

3.Gjaldskrá stuðningsþjónustu 2025

2411187

Tillaga að breytingu á gjaldskrá stuðnings- og stoðþjónustu hefur bæði fengið umræðu í öldunga- og notendaráði. Voru ráðin með jákvæða afstöðu gagnvart tillögunni.



Bókun notendaráðs 25. febrúar 2025:

Notendaráð lýsir yfir ánægju með þá vinnu sem lögð hefur verið í tillögu að fyrirliggjandi gjaldskrá fyrir stuðnings- og stoðþjónustu. Jafnframt er ráðið hlynnt þeirri nálgun sem unnið er eftir varðandi greiðslu fyrir þjónustuna út frá tekjuskiptingu.



Bókun öldungaráðs á fundi 27. febrúar 2025 var samhljóma bókun notendaráðs.



Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs 4. mars sl. var gerð eftirfarandi bókun:

Velferðar- og mannréttindaráð leggur til við bæjarráð að framlögð gjaldskrá verði samþykkt.



Sveinborg Kristjánsdóttir deildarstjóri farsældar fullorðinna situr fundinn undir þessum dagskrárlið sem og undir dagskrárliðum nr. 4 og 5.
Bæjarráð samþykkir breytingar á gjaldskrá stuðnings og stoðþjónustu sem taki gildi 1. maí 2025.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð leggur áherslu á að breytingin verði vel kynnt þjónustuþegum og hagaðaðilum.

4.Gott að eldast, aðgerðaráætlun um þjónustu við fólk með heilabilun

2410206

Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs þann 4. mars sl. var lögð fram tillaga að verktakasamningi við Laufeyju Jónsdóttur tengiráðgjafa Vesturlands í verkefninu Gott að eldast, varðandi þjónustu og aðstoð við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra.

Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs var gerð eftirfarandi bókun:

Velferðar- og mannréttindaráð leggur áherslu á mikilvægi þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra. Er samningurinn liður í að tryggja áfram uppbyggingu stuðnings við þennan hóp. Málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu í bæjarráði.
Bæjarráð telur tilvitnaða þjónustu Akraneskaupstaðar við þennan hóp algerlega til fyrirmyndar og úrræði sem er mikilvægt fyrir þennan hóp, ekki minnst fyrir aðstandendur.

Bæjarráð telur samt að úrræði af þessum toga sé lögum samkvæmt á ábyrgð ríkisins m.t.t. fjármögnunar þó eiginlegur framkvæmdaraðili verði sveitarfélögin.

Bæjarráð felur sviðsstjóra velferðar- og mannréttindasviðs að senda heilbrigðsráðherra erindi og óska eftir að formgera samstarf um verkefnið og fjármögnun þess ef sveitarfélaginu er ætluð viðvarandi framkvæmd þess.

Bæjarráð samþykkir að samið verði um áframhald verkefnisins í þrjá mánuði, tímabilið mars til og með maí næstkomandi.

Samþykkt 3:0

Málið komi að nýju fyrir bæjarráð á fyrri fund ráðsins í maí nk. þar sem tekin verði ákvörðun varðandi komandi haust sem og hvort þörf verði þá fyrir viðauka vegna áfallins kostnaðar vegna starfa verktaka eða hvort ríkið komi að málinu til samræmis við kröfur Akraneskaupstaðar.

Samþykkt 3:0

5.Félagafjör Fjöliðjunnar

2502208

Félagafjör Fjöliðjunnar. Tveir leiðbeinendur Fjöliðjunnar hafa óskað eftir að fara að stað með félagsstarf fyrir fullorna fatlaða. Um er ræða að keyra tvo hópa yngri en 30 ára og 30 ára og eldri. Samveran væri í Fjöliðjunni 2x í mánuði í 2 tíma í senn. Um er ræða tímabilið febrúar til maí 2025. Óskað er eftir styrk frá Akraneskaupstað upp í verkefnið.



Málið var lagt fyrir notendaráð 25.02.25 og var eftirfarandi bókað: Notendaráð fagnar framtaki starfsfólks Fjöliðjunnar.



Málið var tekið fyrir á fundi velferðar- og mannréttindaráðs þann 4. mars sl. og var eftirfarandi bókað: Velferðar- og mannréttindaráð þakkar Guðmundi Páli Jónssyni, forstöðumanni Fjöliðjunnar og Kathrin Jolanta Shymura, þroskaþjálfa, fyrir flotta hugmynd og frumkvæði í uppbyggingu frístundastarfs fyrir fatlað fólk, með það að markmiði að auka virkni og félagsleg tengsl fatlaðs fólks. Velferðar- og mannréttindaráð leggur til við bæjarráð að styrkja þetta tímabundna verkefni Fjöliðjunnar um kr. 200.000. Ráðið óskar eftir að fá Fjöliðjuna aftur inn á fund og fara yfir hvernig til tókst. Umræðu um framhald verkefnisins er vísað til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2026. Málinu vísað til afgreiðslu í bæjarráði.
Málið lagt fram til kynningar.

Bæjarráð fagnar framtakinu og gert er ráð fyrir að velferðar- og mannréttindaráð finni útgjöldunum stað í fyrirliggjandi fjárheimildum málaflokksins.

Samþykkt 3:0

6.Garðavöllur - Umsókn um endurnýjun á lóðaleigusamning

2409315

Sviðsstjóri leggur fram drög að samningi um leigu á landi golfvallarins til Leynis.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir samningsdrögin og vísar málinu áfram til bæjarráðs.

Sigurður Páll Harðarson sviðstjóri skipulags- og umhverfissviðs situr fundinn undir þessum dagskrárlið sem og undir dagskrárliðum nr. 7 til og með nr. 9.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kynna fyrirliggjandi drög að leigusamningi fyrir stjórn Golklúbbsins Leynis.

Málið komið svo að nýju til umfjöllunar í bæjarráði.

Samþykkt 3:0

7.Smiðjuvellir 2 - endurnýjun lóðarleigusamnings

2502123

Umsókn lóðarhafa um endurnýjun lóðarleigusamnings.

Í ljósi nýrra skipulagshugmynda á Smiðjuvöllum vill bæjarráð taka sérstaklega fyrir alla þá lóðaleigusamninga á svæðinu sem eru að renna út.

Æskilegt er að nýtt deiliskipulag svæðisins liggi fyrir í B-deild Stjórnartíðinda áður en einstaka lóðarleigusamningar verði endurnýjaðir.

Samþykkt 3:0

8.Kalmansvellir 2 - innanhúss breyting á húsnæði

2503012

Lögð er fram verðáætlun og minnisblað frá Björgunarfélagi Akraness um innanhússbreytingar á sameiginlegu rými með Slökkviliðsstöðinni.

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarráð að vísa erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir 2026.
Bæjarráð vísar erindinu til komandi fjárhagsáætlunargerðar vegna ársins 2026.

Samþykkt 2:1, RBS er á móti.

Bæjarráð beinir því til Björgunarfélagsins að hafa samráð við Akraneskaupstað vegna framkvæmda sem til stendur að fara í en miðað við eignarhlut Akraneskaupstaðar í mannvirkinu má vænta að hlutur kaupstaðarins í áætluðum útgjöldum verði 65%. Auk þess telur bæjarráð, framar í forgangi, að bæta starfsaðstæður slökkviliðsins að ýmsu öðru leyti.

Samþykkt 3:0

9.Brú hses - Skógarlundur 42, stofnframlag vegna íbúðakjarna 2023

2303217

Á fundi velferðar- og mannréttindaráðs þann 4. mars sl. var til umræðu bókun notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranesi frá 25.02.25. Í bókuninni kemur m.a. fram að notendaráð harmar mjög þá stöðu sem upp er komin í málinu og leggur eindregið til við Bæjarstjórn Akraness að nú þegar fari fram stjórnsýslurannsókn á verkefninu í heild sinni.

Velferðar- og mannréttindaráð vísar tillögu notendaráðs til bæjarráðs.
Bæjarráð tekur fram sbr. bókun ráðsins á fundi nr. 3586 þann 13. febrúar sl., að Akraneskaupstaður er í nánu samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í málinu og að undirliggjandi eru mikilsverðir hagsmunir þeirra þjónustuþega sem íbúðakjarnanum var ætlað að þjóna sem og hagsmunir sveitarfélagsins og ríkisins vegna fyrirliggjandi stofnframlaga sem veitt hafa verið til verkefnisins.

Bæjarráð telur því, eins og sakir standa, ekki þörf á sérstakri stjórnsýslurannsókn, enda til staðar víðtækar eftirlitsheimildir samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir sem eru til ítarlegrar skoðunar hjá HMS og Akraneskaupstað.

Samþykkt 3:0

10.Vallarbraut 1 - sala á íbúð 0104

2502133

Sala á íbúð í eigu Akraneskaupstaðar.

Á fundi bæjarráðs þann 13. febrúar 2025 var bæjarráð með titeknar athugasemdir varðandi fyrirliggjandi tjónamat og söluverðmat fasteignasala.

Alfreð Þór Alfreðsson rekstrarstjóri þjónustumiðstöðvar situr fundinn undir þessum dagskrárlið.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tjónamat og að íbúðin fari í söluferli.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð felur sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs frekari úrvinnslu málsins í samvinnu við rekstrarstjóra þjónustumiðstöðvar.

Samþykkt 3:0

11.Ungmennaráð - endurskoðun á erindisbréfi

2503054

Tillagan sem lögð er fram er hluti af aðgerðaráætlun Akraneskaupstaðar vegna innleiðingar Barnasáttmálans 2023-2025 og byggir á niðurstöðum kortlagningar á velferð og réttindum barna á Akranesi. Breyting á erindisbréfi Ungmennaráðs er einnig hluti af aðgerðaráætlun í stefnumótun Akraneskaupstaðar og snýr að markmiðunum um; áætlun um aðkomu barna og ungmenna að ákvarðanatöku og innleiðingu barnvæns sveitarfélags.

Breytingarnar sem lagðar eru til snúa að fyrirkomulagi á skipan í Ungmennaráð þar sem horfið verður frá því að velja fulltrúa í ráðið en þess í stað verði boðið upp á opið umsóknarferli fyrir öll ungmenni sem áhuga hafa á setu í Ungmennaráði. Jafnframt er lagt til að fundum Ungmennaráðs verði fjölgað úr 5 í 7 sem kemur til vegna aukins umfangs í kringum árlegt barna- og ungmennaþing.

Skóla- og frístundaráð leggur til við bæjarráð að samþykkja framlagðar breytingatillögur.

Dagný Hauksdóttir situr fundinn undir þessum dagskrárlið sem og undir dagskrárliðum nr. 12 og nr. 13.
Bæjarráð gerir ekki efnislegar athugasemdir við tillöguna en óskar nánari greiningu á fjárhagslegri þýðingu breytinganna.

Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar bæjarráðs sem verður þann 27. mars næstkomandi.

Samþykkt 3:0

Bæjarráð beinir því til fagráða að vísa í meira mæli erindum sem varða börn og ungmenni til umsagnar hjá ungmennaráði.

12.Umsókn um afnot af rými í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu

2503052

Umsókn um afnot af rými í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við að pílufélagið fái afnot af aðstöðu í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu í samráði við forstöðumann íþróttamannvirkja og íþróttamála, með þeim fyrirvara að ráðstöfunin skapi ekki viðbótarkostnað fyrir Akraneskaupstað hvort sem það lítur að innri framkvæmdum eða vegna mögulegs tilflutnings annarra íþróttafélaga úr aðstöðunni.

Samþykkt 3:0

13.Skagalif.is - Sameining vefmiðla Akraneskaupstaðar

2502233

Verkefnastjóri menningar- og safnamála leggur til að vefsíðunni skagalif.is verði lokað. Skagalif.is endurtekur að mestu það efni sem þegar er til staðar á aðalsíðu bæjarins, www.akranes.is

Með lokun skagalif.is sparast fjármagn sem annars fer í rekstur, vefhönnun og viðhald síðunnar. Þessu fjármagni og tíma starfsfólks er betur varið í umbætur og þróun á aðalsíðu Akraneskaupstaðar, sem eykur notendavænleika hennar.



Skóla- og frístundaráð samþykkti fyrir sitt leyti að síðunni skagalif.is verði lokað og að fjármagni og tíma verði frekar varið í að auka gæði og notagildi aðalsíðu Akraneskaupstaðar akranes.is og vísaði málin til bæjarráðs til umfjöllunar.
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við ráðstöfunina.

Samþykkt 3:0

Dagný Hauksdóttir víkur af fundi.

14.Bæjarmálasamþykkt - samþykkt um stjórn og fundarsköp (stjórnskipulagsbreytingar)

2502073

Bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar - samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar 696/2013, ásamt viðaukum o.fl.

Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kynnir vinnu við endurskoðun á bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar.
Lagt fram.

15.Skipulagsgátt - umsagnarbeiðni vegna Galtarlækjar L133627

2501367

Bæjarstjórn vísaði málinu til bæjarráðs og fól ráðinu að ljúka umsögn Akraneskaupstaðar vegna Galtalækjar og koma henni á framfæri við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar.



Halla Marta Árnadóttir situr fundinn undir þessum dagskrárlið.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi umsögn og felur bæjarstjóra að skila henni í skipulagsgátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og koma henni á framfæri við sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar.

Samþykkt 3:0

Halla Marta Árnadóttir víkur af fundi.

16.SSV - Aðalfundarboð 26. mars 2025.

2502237

SSV - aðalfundarboð 26. mars 2025 á Hótel Hamri.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 13:55.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00