Bæjarstjórn unga fólksins
Þriðjudaginn 21. nóvember 2017 kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í bæjarþingsalnum að Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst fundurinn kl. 16:30.
Mætt voru:
Ísak Örn Elfarsson fulltrúi nemenda Grundaskóla
Selma Dögg Þorsteinsdóttir nemandi í Grundaskóla og fulltrúi Arnardals
Aron Kristjánsson fulltrúi nemenda Brekkubæjarskóla
Gylfi Karlsson nemandi í Grundaskóla og fulltrúi Arnardalsráðs
Birta Margrét Björgvinsdóttir nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands og fulltrúi Hvíta hússins
Guðjón Snær Magnússon nemandi í Fjölbrautarskóla Vesturlands og f.h. nemendafélags FVA
Elísa Eir Ágústsdóttir nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands og fulltrúi Hvíta hússins
Jón Hjörvar Valgarðsson nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands og fulltrúi úr Ungmennaráði og áheyrendafulltrúi í Skóla- og frístundaráði
Einnig sátu fundinn:
Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar sem stjórnaði fundinum
Vilborg Guðbjartsdóttir (VG), bæjarfulltrúi
Ólafur Adolfsson (ÓA), formaður bæjarráðs
Ingibjörg Valdimarsdóttir (IV), 2. varaforseti bæjarstjórnar
Ingibjörg Pálmadóttir (IP), bæjarfulltrúi
Valgarður L Jónsson (VLJ), bæjarfulltrúi
Rakel Óskarsdóttir (RÓ), bæjarfulltrúi
Sævar Freyr Þráinsson (SÞ), bæjarstjóri og Valgerður Janusdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði sem ritaði fundargerð.
Fundarstjóri, Sigríður Indriðadóttir, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna til 16. bæjarstjórnarfundar unga fólksins en fyrsti fundur var haldinn árið 2002.
Sigríður kynnti fundarmenn og dagskrá fundarins.
Erindi frá ungmennum:
Ísak Örn Elfarsson formaður nemendafélags Grundaskóla
Ísak Örn byrjaði á því að hrósa Akraneskaupstað fyrir kaupa á námsgögnum fyrir nemendur í grunnskóla. Með því hafa allir sama aðgengi að námsgögnum. Einnig talaði hann um hversu jákvætt það væri að boðið væri upp á Office 365 pakkann fyrir eldri hóp nemenda. Það hefði auðveldað bæði kennurum og nemendum til að skila inn verkefnum. Hann sagði að „365 pakkinn hefur verið með umhverfisvæn áhrif á samfélagið með því að minnka notkun á blöðum og prentun. Þráðlausa netið sem er i grunnskólunum gerir nemendum sem eru með snjall tæki kleift að sækja í upplýsingar á netinu ásamt haft aðgang að Office 365 hjá sér.
Ísak Örn gerði að umtalsefni húsbúnaðinn í Grundaskóla, að hann sé komin til ára sinna og mikilvægt sé að halda áfram að endurnýja hann.
Samstarf grunnskólanna á Akranesi mætti vera meira og sagði hann „Grundaskóli og Brekkubæjarskóli eru ekki með mikið samstarf milli nemenda en skiptidagarnir þar sem nemendur úr báðum skólum koma í hinn skólann og eyða deginum þar í hópverkefnum. Húllum hæ sem er keppni í Grundaskóla þar sem bekkirnir mætast í óhefðbundnum íþróttum og myndast mikil spenna og gleði milli bekkja og fær keppnisskap kennara að skína í gegn. Hugmynd að lausn eða bætingu væri að sameina svona keppni þar sem árgangar i báðum skólum keppa á móti hvort öðrum og jafnvel gæti það verið lokadagur skiptidagana.“
Í lokin kom Ísak Örn inn á aðstæður í Akraneshöllinni sem vissulega sé glæsilegt mannvirki sem hefur bætt aðstöðu íþróttafélagsins. Hann bendir á huga verði að því að setja hita inn í höllina það „getur þýtt færri meiðsli, meiri notkun yfir veturinn og betri andrúmsloft.“
Selma Dögg Þorsteinsdóttir fulltrúi Arnardals
Selma Dögg byrjaði erindi sitt á að ræða um félagsmiðstöðina Arnardal og þá jákvæðu upplifun sína um að mæta þangað. Upplifun sem snéri að jákvæðu viðmóti starfsfólks og hvað krakkarnir í Arnardalsráðinu fá miklu að ráða varðandi dagskrána sem í boði er. Hún sagði „Við í Arnardalsráði viljum að Arnardalur verði með fleiri opnunartíma, við viljum hafa Arnardal opinn lengur á föstudögum og hafa opið um helgar. Einnig hefur komið ósk frá 7. bekk um að hafa Arnardal opinn fyrir þau.
Selma Dögg ræddi um að verkefnatímar sem hafa verið í boði á síðustu árum í Grundaskóla hafa verið skornir niður. Ástæðan fyrir því hafi verið að einhverjir nemendur voru ekki að nýta sér þá og því hafa þeim verið fækkað. Eða eins hún sagði „Nú í 10. bekk er hins vegar aðeins einn verkefnatími á viku. Verkefnatímunum fækkaði vegna þess að sumir krakkar voru ekki að nýta verkefnatímana vel og það bitnaði á öllum hinum sem vildu nýta verkefnatímana. Mér finnst leiðinlegt að verið sé að refsa þeim sem vildu nýta tímana í stað þess að vinna með hópinn sem var ekki að nýta þá.
Aron Kristjánsson, fulltrúi nemendafélags Brekkubæjarskóla
Fyrstur tók til máls Aron Kristjánsson formaður nemendafélags Brekkubæjarskóla. Aron gerði aðstöðu nemenda í Brekkubæjarskóla og hvernig virkja mætti þátttöku þeirra í bæta hana að umtalsefni. Hann byrjaði á því að þakka fyrir jákvæð viðbrögð við þær hugmyndir sem nemendur koma með og það sé hlustað á alla
Hann ræddi um hvernig nýta mætti krafta nemenda meira með því virkja þátttöku þeirra til ýmissa verkefna sem tengjast að fegra og bæta umhverfi þeirra í skólanum. Hann sagði m.a. „Ég held að það sé hægt að nýta sköpunarkraft okkar nemenda miklu meira en gert er. Ég hef t.d sjálfur smíðað hljóðkerfi, algjörlega endurunnið sem mig langar til á að setja upp í setustofuna í skólanum. Nám er nefnilega ekki bara að lesa í bókum og reikna. Ég hvet skólann minn til að nýta betur krafta okkar nemendanna í þágu allra í skólanum. Það væri t.d hægt að hafa val þar sem nemendur sjá um að skreyta og betrumbæta skólann. Ég held að allir nemendur skólans væru miklu áægðari og glaðari í fallegri og unglingavænni umhverfi.
Aron ræddi um tæknimál skólans og nefndi hversu jákvætt það væri að það hafi verið tekin í notkun ný kerfi en það sé ekki nóg að uppfæra kerfin það þarf að vera aðili sem sinnir þessum málum. Hann benti á mikilvægi þess að innan skólans sé starfandi umsjónarmaður tæknimála. „að það er ekki nóg að hafa dýran búnað og net, það þarf að hafa einhvern sem kann á tölvurnar, getur leiðbeint öðrum kennurum og nemendum og getur lagað þegar eitthvað kemur upp á. Til að hlutirnir virki þarf að kenna fólki t.d. á chromebook stýrikerfið og fara nánar í kennslu í office. Það virkar bara hreinlega ekki að uppfæra og gera skólann nútímanlegri í tækjakosti ef enginn er til að kenna fólki.“
Aron ræddi staðsetningu körfuboltavallarsins á skólalóðinni en völlurinn er illa farinn og komin tími á endurbætur. Hann stingur upp á ný staðsetning vallarins verði fyrir framan inngang íþróttahússins.
Að lokum hrósaði Aron, Akraneskaupstað fyrir að bjóða upp á frían strætó sem keyrði um allan bæinn. En benti á að sumartími strætó væri ekki í samræmi við það sem þyrfti og benti á „Sumartíminn klárast 1. september. Þessu verður að breyta því æfingar og skóli byrja í kringum 20. ágúst. Auk þess byrjar sumartíminn 1. júní, en krakkarnir klára ekki skólann fyrr en 5. eða 6. júní. Fékk ég þær upplýsingar um það að ferðirnar kl 15:45 og 16:05 falla niður yfir sumarið en þetta eru ferðir sem yngri krakkarnir nýta sér til að komast úr frístund og til að komast heim af æfingum þetta eru þá 2 eða 2 1/2 vika sem stytta þyrfti sumaraksturinn bara svo þetta gæti allt haldist í hendur.“
Gylfi Karlsson fulltrúi Arnardals
Gylfi byrjaði á því að hrósa Grundaskóla fyrir frábært framtak sem móðurskóli umferðarfræðslu. Hann sagði „Sérstaklega vil ég nefna árlega verkefnið sem stuðlar að öryggi hjá yngri árgöngum skólans, þegar elstu nemendur skólans sitja um gangbrautir í kringum skólann og aðstoða aðra nemendur yfir götuna.“ Hann benti þó á að hætturnar væru enn til staðar og verið væri að hvetja nemendur og aðra að koma ýmist fótagangandi eða hjólandi til skóla eða vinnu til að draga úr þessum hættum. Það sé ekki nóg að hvetja til þess ef umhverfið er ekki aðlagað að nýjum áherslum. Engar hjólagrindur séu fyrir utan skólann og um leið skapast sú hætta að reiðhjólin skemmist vegna ýmissa aðstæðna. Gylfi nefnir einnig að aðgengið að unglingadeildinni sé ekki gott og „göngustígurinn“ sem gengið er um sé í raun ekki gerður göngustígur. Bæta verði þetta með því að búa til almennilegan göngustíg.
Gylfi kom inn á gatnagerðarmál bæjarins og hvetur hann Akraneskaupstað til að halda áfram í að endurnýja götur bæjarins. Einnig nefnir hann hvort að það þurfi ekki að skoða umferðarskilti bæjarins með það fyrir augum að athuga hvort að staðsetning þeirra sé rétt. Hann benti á umferðaskilti við Dalbraut. Hann benti einnig á mikilvægi góðrar lýsingar á götum, göngu- og hjólreiðarstígum. Gylfi sagði einnig að hjólamenning færi stækkandi og því mætti huga að fleiri hjólastígum.
Að lokum ræddi Gylfi samstarf félagsmiðstöðva á Vesturlandi og mikil samstaða sé á meðal allra um að vinna saman. Boðið sé upp á ýmsa viðburði sem gefa aðilum tækifæri til að kynnast innbyrðis.
Birta Margrét Björgvinsdóttir fulltrúi Hvíta hússins
Birta byrjaði á jákvæðum nótum og talaði um hversu vel félagsmiðstöðin Arnardalur og Hvíta húsið halda utan um félagslíf unglinga með því að bjóða upp á góða aðstöðu og skemmtilega dagskrá.
Næst þar á eftir ræddi Birta um málefni líkamsræktar á Jaðarsbökkum og nefndi aðstöðuleysi vegna þrengsla. Hún bar upp þá hugmynd að skrifstofur yrðu færðar og í stað þeirra kæmi líkamsræktaraðstaða. Mikilvægt væri að hugsað til þessa við uppbygginguna á Jaðarsbökkum. Hún bætti einnig við „en annars finnst mér flott að þeir sem eru að æfa hjá ÍA fái frítt í ræktina og sund á Jaðarsbökkum og þeir sem yngri en 16 fá frítt í sund.“
Birta kom í lokin inn á samgöngumál og nefndi það hversu gott væri að í boði væri frír innanbæjarstrætó „ég og margir krakkar nýta sér hann til að koma sér í skólann og fara á æfingar og fleira.“ Hún einnig talaði um hversu jákvætt það væri að hafin er vinna við að lagfæra götur bæjarins. Hún þakkaði fyrir þetta tækifæri að geta látið skoðanir sínar í ljós.
Guðjón Snær Magnússon fulltrúi nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands
Næst á mælendaskrá var Guðjón Snær Magnússon byrjaði á því að segja frá því að hann hafi flutt hér í bæinn fyrir rúmu ári síðan. Hann sagðist ekki hafa vita mikið um bæinn en hefur verið að kynnast honum smátt og smátt og læra hvað hann hefur upp á að bjóða. Hann sagði „ Sem aðkomumaður er þetta mjög spennandi staður en þó finnst mér mikið gert í því að halda því leyndu. Eins og bara t.d íþróttahúsið við Vesturgötu. Ég þori að veðja að engum lifandi manni skuli detta í hug að þar væri undir þessu risa íþróttahúsi keila, box, klifur, rækt, kraftlyftingar og skotfimi.“ Honum finnst að bæjarbúar mættu vera stoltari af bænum sínum og tala meira út á við um kosti hans. Akranes er meira en bara ÍA og sagði hann að miklir mögulegar gætu legið í efla enn frekar ferðamennsku hér í bænum. Það þarf þá að vera eitthvað sem dregur að og öll aðstaða til staðar.
Eins og ræðumennirnir á undan kom Guðjón Snær á gatnagerðarmálin og hrósaði fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin á Vesturgötunni en benti í leiðinni að það væri fullt af öðrum götum sem þyrfti að laga. Hann bendir einnig á hringtorgið við Olís hversu illa það sé hannað og illa farið. Hann benti á að það væri mikilvægt að farið væri í að laga gömlu steyptu götur bæjarins.
Hann gerði þar næst tónlistarskólann á Akranesi að umræðuefni og ræddi hversu góður skólinn er og vel búinn. Hinsvegar er biðlistinn í gítarnámið eitthvað þörf er á að laga. Hann sagði „Væri ekki hægt að reyna að fá fleiri kennara í skólann og nýta húsið mun betur? Því það er ekki verið að kenna þarna allan daginn og ég held að það sé pláss, vanti bara meiri pening til að ráða fleiri kennara. Eins og í tónlistarskólanum í Borgarnesi þá er kennt mun lengur en hérna á akranesi vegna húsnæðisins og það væri hægt að gera slíkt hið sama hér.“
Að lokum talar Guðjón Snær um það sé kominn tími til að endurnýja stóla og borð í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hann segir að mikilvægt sé að fjárfest sé í réttum búnaði sem tekur mið af því að nemendurnir sem nota stólana og borðin eru einstaklingar sem eru enn að vaxa. Hafa ætti sjúkraþjálfara með í ráðum við innkaupin.
Í lokin sagði Guðjón að mikilvægt sé að hlusta á raddir unga fólksins og hvatti fundarmenn til að hlusta á þær.
Elísa Eir Ágústsdóttir, fulltrúi Hvíta hússins
Elísa byrjaði á því að hrósa þeim viðburðum sem í boði eru s.s. írskum dögum, Vökudögum og viðburðum tengdum jólahátíðinni.
Þar næst ræddi Elísa um aðstöðuna í skógræktina en hún hefur verið nýtt fyrir hina ýmsu viðburði. Á viðburðina kemur hópur af fólki en bílastæðin anna ekki þessum fjölda, hún sagði „Skógræktin er frábært svæði fyrir svona viðburði en ekki eru næg bílastæði við Skógræktina og getur það skapað hættu fyrir fólk þegar það kemur þarna saman. Mig langar til að hvetja til þess að þetta verði skoðað.“
Elísa hrósaði hversu vel skólakerfið hér á Akranesi hlúir að fötluðum, hvort sem það væru grunnskólarnir sem og fjölbrautaskólinn. Í fjölbrautaskólanum er boðið upp á starfsbraut þar sem boðið er upp á kennslu og frístundir við hæfi.
Að lokum kom Elísa inn á að bæta mætti fjármálakennslu inn í nám hvort sem er í grunnskólanum eða fjölbraut hér á Akranesi. Komið mætti inn með þennan lið inn í lífsleikninámið. Hún sagði „Til dæmis veit ég ekkert um launaseðla eða að lesa út úr því hvað stendur á þeim, skattkort eða skattaskýrslu. Ég hefði kannski ekki haft neinn áhuga á því þegar ég var í grunnskóla en núna er þetta eitthvað sem ég þarf að vita um upp á framtíðina. Margir byrja að vinna í sumarvinnu í 8.bekk eða í helgarvinnu og fá þar að leiti launaseðil sem þau kunna ekkert að lesa úr. Samt eiga allir að vera meðvitaðir um það fyrir það hvað þeir fá borgað og hvernig launin þeirra eru. Þetta mætti líka vera námskeið í tengslum við unglingavinnuna. Því þar má kenna margt fleira en að slá gras.“
Elísa þakkaði fyrir þetta tækifæri að fá að koma sínum hugmyndum á framfæri.
Jón Hjörvar Valgarðsson fulltrúi ungmennaráðs og áheyrnarfulltrúi í skóla- og frístundaráði
Jón Hjörvar sagði að sitt umræðuefni væri staða ungmenna á Akranesi og áhrif þeirra á bæjarpólitík. Hann ræddi um þau tímamót sem hans árgangur stendur á og framtíð þeirra á Akranesi. Hann velti upp þeirri spurningu af hverju ungt fólk í ríkari mæli velur að flytja frá Akranesi þrátt fyrir þessa nálægð við höfuðborgina. Eða eins og hann sagði „En hver er ástæðan fyrir því að útskriftarnemar FVA flytja til að mennta sig? Akranes er vel staðsett fyrir nemendur, það er stutt í bæinn, strætó sem fer héðan og að HÍ, gott bókasafn og grunnþjónusta til fyrirmyndar. Þrátt fyrir þetta eru fleiri og fleiri að flytja í bæinn. Stærsta ástæða þess eru stúdentagarðar. Við hér eigum að líta á uppbygginguna sem er að eiga sér stað í Reykjavík sem sóknartækifæri. Hér eru kjör aðstæður til uppbyggingu á stúdentagörðum eða lítilla leiguhúsnæða. Með komu möguleika á að búa og starfa hér með námi hættum við að missa efnilegt ungt fólk og enn frekari uppbygging getur átt sér stað hér á Akranesi. Byggjum upp Akranes sem mögulegan áfangastað háskólanema!“
Hann varpar einnig fram spurningunni hvort búið sé að ræða þessi mál innan bæjarstjórnar og skipulags- og umhverfisráðs í kjölfar síðasta bæjarstjórnarfund unga fólksins í ljósi þess að þar hafi hann borið upp þetta erindi. Hann benti á „Þetta er í fjórða skipti sem ég tek þátt í umræðunum hér á bæjarstjórnarfundi unga fólksins og vonandi ekki það síðasta. Þegar við ungmennaráðið fundum er talað um mikilvægi þess að þakka fyrir vel unnin störf. Það er mikilvægt bæði fyrir okkur til að sjá það starf sem á sér stað og fyrir ykkur til að sjá að við tökum eftir breytingum sem hafa áhrif á daglegt líf ungmenna. Í ár ætla ég ekki að gefa ykkur klapp á bakið, frekar skora á bæjarfulltrúa að taka þetta upp á næsta stig. Á seinustu tveimur fundum sem við ungafólkið fáum hreina athygli bæjarstjórnar hef ég talað um mikilvægi þess að rödd ungafólksins fái athygli stjórnsýslunnar. Stoppar umræðan hér eða heldur hún áfram?“
Jón Hjörvar segist að af þeim 20 fundum sem haldnir hafa verið á vegum skóla- og frístundaráðs hafi hann einungis verið boðaður fimm. Hann sagði að þá væru eftir 15 fundir þar sem ráðið talar ekki um málefni ungs fólk. „Ég ætla núna að telja upp dagskrárliði sem samkvæmd stjórnendum eru ekki málefni ungmenna:
- Mötuneyti í leik- og grunnskólum.
- Tómstundaframlag Akraneskaupstaðar.
- Umgengnisreglur sundstaða á Akranesi.
- Málefni Tónlistarskólans á Akranesi.
- Samræmd könnunarpróf 2016-2017.
- Styrkir til íþrótta- og tómstundafélaga 2017.
- Námsgögn í grunnskólum Akraneskaupstaðar.
- Námsvist utan lögheimilissveitarfélags.
- Starfshópur um framtíðaruppbyggingu á Jaðarsbökkum.
- Útileikvöllur fyrir fullorðna.
- Fjárhagsáætlun 2018.
- Gjaldskrár skóla- og frístundasviðs árið 2018.
Við viljum svör við því af hverju þið teljið þessi málefni ekki vera málefni ungs fólks? Því þetta eru klárlega málefni sem snerta ungmenni á Akranesi.“
Hann veltur upp spurningunni hvort komið sé að endastöð í lýðræðisþátttöku ungmenna eða hvort haldið verði áfram. Hann segir „Málefni ungs fólks eru klárlega rædd innan fleiri og mögulega allra nefnda bæjarins. Þar má helst nefna skipulags- og umhverfisráð, velferðar og mannréttindaráð og menningar-og safnanefnd. Af hverju fær ungmennaráðið ekki inn fulltrúa þar eins og í skóla-og frístundaráði?“
Jón Hjörvar sagði frá ungmenntaráðstefnu sem haldin var í fyrra á Suðurlandi en þar komu saman ungmennaráð sveitarfélaganna á Suðurlandi. Í kjölfarið var sett af stað verkefni sem kallast Handbók ungmennaráða og lauk því núna í sumar. Handbókin samanstendur af bók og myndböndum. Hann sýndi eitt þessara myndbanda og biðlaði til fundarmanna að kynna sér betur þetta efni. Myndbandið má sjá hér!
Jón Hjörvar benti á að nú verða senn sveitarstjórnarkosningar og mikilvægt sé að gefa ungu fólki í bænum sterkari rödd á komandi kjörtímabili. Hann sagði „Hver eru ykkar stefna í málefnum ungs fólks á Akranesi? Pólitíkin er að breytast, vitundavakning er að eiga sér stað og unga fólkið er farið að vilja hafa áhrif. Oftar en ekki lendum við á vegg, einn stærsti veggurinn er hefðir. Fólk er hrætt við breytingar og notar hefðir sem afsökun. Hættum þessu og horfum til framtíðar.“
Í lokin bar hann upp tvær spurningar sem hann hafði komið inn á árið 2013. „Er leitað eftir sjónarmiðum barna og ungmenna og tekið tillit til skoðana þeirra? Er virðing fyrir sjónarmiðum barna höfð að leiðarljósi hjá starfsmönnum Akraness?“
Hann óskaði eftir að við þeim spurningum sem hann hafi borið upp í ræðunni sinni fengjust málefnaleg svör og umræður.
Að lokum benti hann á að flestir ræðumennirnir hefðu þakkað fyrir tækifærið og hvatt fundarmenn til að hlusta á raddir ungmenna. Það eigi ekki að þurfa að hvetja heldur eigi þetta að í raun að sjálfsagður hlutur, að hlustað sé á raddir ungmenna.
Sigríður Indriðadóttir fundarstjóri þakkaði fulltrúum nemenda fyrir þeirra framsögu og gaf orðið laust.
Fyrst á mælendaskrá var Vilborg Guðbjartsdóttir þakkaði fyrir góða framsögu og fannst innlegg Guðjóns og hans sýn að vera nýlega fluttur í bæinn mjög áhugverð. Það sé gaman og gott að sjá hlutina með augum aðkomumanna. Hún er sammála honum og þetta sé rétt og góð áminning um hvernig við getum gert betur. Hún þakkaði öllum ræðumönnum fyrir góð erindi og góða framsögu.
Rakel Óskarsdóttir tók næst til máls og þakkaði góð erindi. Hún sagðist vilja svara erindi Jóns Hjörvars með hvað verður um erindi ungmennanna sem borin eru upp á fundinum. Rakel að það væri ákveðið verklag, erindunum væri skipt upp eftir málefnum og síðan færu þau inn á þau svið sem málefnið varðaði. Hún sagði að eflaust væri rétt að hægt hefði verið að kalla áheyrnarfulltrúan oftar á fundi en vildi einnig benda á að í upptalningu hans af málefnum sem tekin hafa verið upp í Skóla- og frístundaráði væru trúnaðarmál. Hún bætti við að vissulega mætti skoða hvort að grundvöllur væri fyrir því að fá ungmenni sem áheyrnarfulltrúa inn í fleiri ráð. Rakel nefndi einnig hversu gaman væri að því að þau væru ekki eingöngu að koma með punkta varðandi málefnin heldur einnig lausnir. Jón Hjörvar benti Rakel að málefni sem koma inn á skipulags- og umhverfissvið væru málefni sem snerta ungmenni sem íbúa í bænum. Þá benti Rakel honum á það að skipulags- og umhverfissvið væri flókið svið og krefðist mikillar þekkingar. Hún benti á að lokum að það væru ákveðnar leikreglur og verklag sem þurfa að vera í allri stjórnsýslu. Sigríður bætti við „við erum enn að læra hvernig hægt er að gera betur.„
Ólafur þakkar fyrir framsöguna og sagði að ungmenni í dag væru með mun betri félagsþroska en þegar hann var að alast upp. Hann sagði að allir í bæjarstjórn myndu vilja gera miklu meira en það er fjármagnið sem stoppar framkvæmdir. Allt væri háð peningum og því þurfi að velja verkefnin. Fjárhagsáætlun bæjarins væri góð lesning og það væri góður punktur að efla mætti fjármálalæsi ungmenna. Hann sagði „það væri fínt að læra að lesa áætlunina.“ Ólafi fannst aðdáunarvert hversu mikla skoðun ung fólk hefur af götum bæjarins. Sagðist sjálfur ekki vera innfæddur Akurnesingur og kannaðist við þessa tilfinningu sem Guðjón talaði um. Ólafur benti á að í bæjarpólítík þarf að fara eftir ákveðnum leikreglum sem eru fyrirfarm ákveðnar en það er til farvegur fyrir ungmenni til að taka þátt. Ólafur vildi sérstaklega ræða hvernig unnt er að auka lýðræðislega þátttöku ungs fólks bæði til að rödd unga fólksins heyrist en ekki síður til að hinir pólitísku flokkar eigi kost á að eiga samtal við unga fólkið um þau atriði sem skipta þau máli. Ólafur benti á að aðgengi fólks að bæjarfulltrúum sé mikið en því miður sé það of sjaldan að ungt fólk gefi sig fram og taki upp mál sem brenni á þeim. Hugmynd Jóns Hjörvars um stúdentagarðana er eitthvað sem þyrfti að skoða í víðara samhengi.
Jón Hjörvar bað um orðið sagði að ungmenni hefðu meiri áhuga á bæjarpólitík heldur en flokkspólitík og gæti ungmennaráð verið vettvangur fyrir ungmenni til að hafa áhrif í pólitík. Ólafur sagði að það væri hans upplifun að ungmenni væri ekki að mæta á bæjarfundina það væri hans reynsla hjá sjálfstæðisflokknum.
Jón Hjörvar sagði að Akranesi gæti þjónustað stærra svæði og möguleikar gætu verið hér varðandi ýmsa gistingu. Hann benti á krakkar sem dvelja í stúdentagörðum myndu líkalega velja að vera nær heimahögunum.
Sævar Freyr þakkar ungu bæjarfulltrúunum fyrir góða framsögu og talar um þetta góða starf sem verið er að vinna á Akranesi í skólum og frístund. Menntastofnanir eru að vinna gott starf og framþróun menntunar næstu árin verður mikil. Spár gera ráð fyrir því að næstu 20 ár er verði 40% núverandi starfa verði horfin með nýjum tæknibreytingum. Það sé því mikilvægt að komandi kynslóð séð undirbúin fyrir ný störf, þar skiptir menntun og sköpunargleðin lykilmáli. Tölvulæsi eða tæknilæsi er þáttur sem þarf að huga að og hvernig við ætlum að vera klár. Sævar sagði „Ísak Örn kom inn á þetta með netið og ný kerfi og mikilvægi þess að uppfærast. Aron sagði að nýta ætti sköpunarkraftinn og það er einmitt punkturinn. Gylfi kom inn á hjólamenninguna og hvernig samfélagið aðlagast nýjum áherslum. Birta kom inn á líkamsræktaraðstöðu. Guðjón Snær um földu perlurnar sem við eigum hér í bænum. Elísa Eir um að fjármálalæsi er mikilvægt. Jón Hjörvar um stúdentagarðana og lýðræðisþátttöku ungmenna og hvort þessi leið sem þú nefnir sé sú rétta þarf að skoðast.“ Sævar sagði að verið væri að ráða kerfisstjóra og bætti við í lokin „lærum allt lífið því við getum stöðugt bætt við okkur.“
Eftir Sævari fékk Valgarður orðið og nefndi hann að hann sé bæði kennari og bæjarfulltrúi, reynslan hans sem kennari er mun lengri. Hann kom inn á það hversu mikil kennslan hefur breyst frá því hann hóf kennslu. Valgarður sagði frá því þegar hann var unglingur var aldrei boðið upp á samtal við bæjarpólítíkina og það hefur vissulega breyst. Hann benti ungmennunum á að þau væru að koma með mikilvægar upplýsingar. Það væri rétt hjá Ólafi að forgangsraða málum og þótt að það væri vissulega gott að fá hita í Akraneshöllina væri það ekki ofarlega á listanum. Hann er sammála því að nýta eigi sköpunarkraft unga fólksins, stóra verkefnið sem er framundan er að undirbúa ung fólk undir eitthvað sem er óvænt og á eftir að verða til. Valgarður sagði „Aron það er rétt að það þýðir ekki að kaupa græjur sem enginn kann að nota. Ég er sammála bæði Ísak og Gylfi um að efla samstarf og samvinnu við aðra unglinga. Það er í bígerð að halda hér ungmennaþing á Vesturlandi. Það verður sótt í reynslubankann frá Suðurlandi. Guðjón segir leyndur spennandi staður, rétt að við þurfum að vera stoltari. Við erum ekki nógu montin. Guðjón get sagt þér að hringtorgið hjá Olís er á framkvæmdarlista. Elísa þú nefndir skógræktina sem er frábær staður til viðburða og það er rétt að það vantar bílastæði en það togar líka að vilja virkja annan ferðamáta. Útivistarsvæðið Garðalundur er svæði til að ganga að og um. Þurfum við kannski að laga frekar hjóla/gönguleiðum eða fjölga bílastæðum?“ Valgarður bætti við í lokin að ólíkt reynslu Sjálfstæðisflokksins um að ungmenni væru ekki að mæta á bæjarfundina væri því öfugt farið hjá Samfylkingunni, þar væri fullt af ungmönnum.
Aron barð um orðið og sagðist vera sammála um mikilvægi fjármálalæsis og lífsleikni væri mikilvægur liður í að kenna annarskonar nám. Hann sagði á málþinginu sem haldið var um daginn hefðu ungmennin viljað hafa stærri strætó en hann hafi velt því fyrir sér hvort það væri þörf á því og frekar ætti að benda og þakka fyrir að það væri frítt í hann.
Jón Hjörvar var næstur um orðið og sagði að ungmennaþingið væri á næsta leiti en vildi fá að vita hver aðkoma ungmenna væri í skipulagningu þess. Hann hafi sent fyrirspurn bæði til Rakelar og Páls hjá SSV um skipulag þingsins. Jón Hjörvar sagði frá svari sem hafði borist frá Páli og sagðist vera ósáttur við þau svör. Það liti út eins og nota ætti ungmenni sem skraut. Rakel brást við þessu með því að segja að þetta væri uppbyggingarverkefni og ákveðin styrkur væri til fyrir verkefninu. Undirbúningurinn væri ekki komin eins langt og túlka mætti í svari Páls. Hún ítrekaði að búið væri að taka frá fjármuni og ungmenni yrðu svo sannarlega ekki notuð til skrauts og leitað yrði til ungmenna í allri skipulagningu.
Guðjón vildi ræða aftur um körfuboltavöllinn, þeir eru orðnir löngu orðnir úreltir. Það eru mjög fáar stelpur að æfa körfubolta og það er mikilvægt að efla körfuboltann hér á Akranesi. Líkamsrækt, Metabolic og Crossfit væru staður þar sem mikil ásókn væri í því þar er boðið upp á góða aðstöðu. Góð aðstaða kallar á fleiri iðkendur. Guðjón benti einnig á Samfés hefur alltaf verið í erfiðleikum með að koma landsbyggðinni inn á Samfés en mögulega gæti ungmennaþingið komið fólki áleiðis inn á viðburði Samfés.
Ingibjörg Valdimarsdóttir þakkar erindin og þessi brýnu málefni sem komu fram. Þessi fundur hafi verið líflegasti fundurinn og málefnalegastur af þeim sem hún hafi setið áður. Meiri dýpt í þessum erindum og það er komin meiri pólíiík í þetta. Öll málefni sem koma upp á þessum fundum hafa nánast öll farið í fagráðin, það er hlustað á ykkur en málefnum er vissulega forgangsraðað. Hún benti á að það þurfi ekki að vera flokksbundin til að mæta á bæjarmálafundi, dagskrá um efni funda er alltaf gefin út. Þar er vettvangur til að koma skoðun sinni á framfæri sem kjörnir fulltrúar koma svo áleiðis.
Ingibjörg Pálmadóttir talar um á fundinum séu þrjár kynslóðir og segir að ungmenni í dag hafa forskot umfram aðra kynslóðir, varðandi nám, tómstundir og allt. Hún benti á hún hafi þó eitt sameiginlegt með 16 ára og yngri og það væri að hún fengi líka frítt í sund. Hún bætti við í lokin að hún væri með kosningarloforð og það væri að sá sem færi fyrstur fyrir hennar flokk yrði yngri en hún.
Síðust á mælendaskrá var Valgerður Janusdóttir sem byrjaði að þakka góð málefni og ástríðu ungmennanna fyrir samfélaginu. Það væri ákall um hvernig ætlar bærinn ætli að þróa íbúðarlýðræði og inn í það kæmu margir þættir eins og varðandi frístundarstarfið. Valgerður benti að það væri verið að vinna með lýðræðisþátttöku og tók bæði leikskólann sem og grunnskólana sem dæmi. Þar fái börn og nemendur tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt. Hún sagðist velta fyrir sér hver þátttaka ungmenna væri í íþróttastarfi, hvar og hvernig fá þau tækifæri til að hafa áhrif um þróun í íþróttastarfi.
Fundarstjóri, Sigríður Indriðadóttir, þakkaði fundarmönnum fyrir þeirra framlag og sleit fundi.