Bæjarstjórn unga fólksins
Ár 2005, þriðjudaginn 6. desember 2005, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00. Fundinum var útvarpað á FM 95,0.
Mættir voru: Stefán Halldór Jónsson formaður NFFA
Ása Katrín Bjarnadóttir, Brekkubæjarskóla
Ragnar Þór Gunnarsson, Grundaskóla
Leó Daðason, Arnardal
Þór Birgisson, Hvíta húsinu
Kristín Edda Egilsdóttir, Grundaskóla
Guðmundur Páll Jónsson bæjarstjóri setti fund og stjórnaði umræðum.
Einnig sat fundinn Helga Gunnarsdóttir, sviðsstjóri fræðslu-, tómstunda- og íþróttasviðs og ritaði jafnframt fundargerð.
Dagskrá:
Fyrstur tók til máls:
Stefán Halldór Jónsson, formaður unglingaráðs og formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hann byrjaði á að þakka fyrir þetta tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hann vildi benda á að tímasetning fundarins væri óheppileg þar sem hann væri í miðjum prófatíma í FVA. Stefán taldi að vel væri búið að ungu fólki á Akranesi og nefndi sérstaklega gervigrasvelli við grunnskólana. Hann taldi að það mætti koma á fót nýju fótboltaliði þar sem margir ágætir fótboltamenn komist ekki að í meistaraflokki ÍA. Hann spurði hvort það yrði þannig að nýja félagið gæti fengið afnot af þeirri aðstöðu sem fyrir hendi er og jafnvel fjárstuðning í upphafi. Stefán taldi að það skipti miklu máli að allir sem áhuga hafa á fótbolta fái að spila og það komi í veg fyrir að þeir flosni upp úr íþróttum og farui jafnvel í óreglu eða þurfi að leita til Borgarness eða lengra til að fá að spila. Óskaði hann eftir viðbrögðum við þessarri hugmynd.
Ása Katrín Bjarnadóttir, formaður nemendaráðs Brekkubæjarskóla og fulltrúi í unglingaráði, tók næst til máls og gerði aðstöðu unglinga í Brekkubæjarskóla að umtalsefni. Hún undirstrikaði mikilvægi þess að unglingum líði vel í því umhverfi sem þau eyða mestum tíma í. Taldi hún það óumdeilt að setustofan í Brekkubæjarskóla væri frekar hrá og leiðinleg og nýttist þar af leiðandi ekki sem skyldi. Lýsti hún síðan umhverfinu með nokkrum orðum, nefndi meðal annars að einu húsgögnin væru steypubekkir og minntu þeir helst á fangageymslu á lögreglustöð. Taldi hún þetta stærsta ókost setustofunnar. Síðan sagði Ása Katrín:
?Munurinn á okkar setustofu og gryfjunni í Grundaskóla er talsverður. Þau hafa þetta kósý útlit og hún er ekki jafn tóm og setustofan okkar. Einnig hafa þau grjónapúða, sem við höfðum hjá okkur en eyðilögðust vegna hvassra horna á steypubekkjunum sem stungust inn í púðana og ef það var kippt í púðana rifnuðu þeir. Þau hafa líka góðan hljóðbúnað og breiðtjald og svo er svæðið þeirra lokað af.
Okkar setustofa er hinsvegar alveg opin og verðum við fyrir miklu áreiti frá yngri krökkum sem vilja vera memm. Eru held ég voðalega fáir ef einhverjir sem kunna vel við þennan félagskap og viljum við láta loka okkar svæði af. Við viljum líka sitja á þægilegum stólum og fá fleiri borð.
Okkar hugmynd að setustofu í Brekkubæjarskóla væri að skipta henni í helming og loka af. Taka síðan út steypubekkina öðru megin og hafa þar sófa og breiðtjald sem hægt væri að hafa það kósý og slappa af á milli tíma. Hinu megin værum við þá ennþá með bekkina en þyrfti að bæta við borðum og stólum svo að pláss væri fyrir alla. Væri þá þessi helmingur nýttur til að borða í frímínútum og væri hægt að hafa þetta þá í kaffihúsa stíl.
Við höfum aðra aðstöðu sem er í álmunni fyrir 9. og 10. bekk. Hún er einnig frekar hrá og þarfnast andlitslyftingar. Hún er hvít á litinn og 3 sófar og þar með er allt þar talið upp. Við viljum mála hana og fá fleiri sófa svo að allir geti fengið sér sæti. Goggunarröðin í Brekkubæjarskóla er nefnilega gífurleg og gengur 10. bekkur alltaf fyrir. Skemmtilegra væri ef allir gætu setið saman og haft það gaman. Þar vantar líka þetta þægilega, hlýja útlit sem allir vilja hafa heima hjá sér.
Finnst mér eins og gleymst hafi að bæta aðstöðu okkar unglinga í Brekkubæjarskóla eða er það virkilega svona sem þið mynduð vilja að ykkar vinnustaðir líti út?
Sjoppan okkar lítur hinsvegar glæsilega út og held ég að við höfum hana fram yfir Grundaskóla. Tóku sig nokkrar stelpur úr 9. og 10. til og máluðu hana bæði að utan og innan og eru allir sammála um það að hún hafi aldrei litið jafn vel út og hún gerir í dag.?
Ragnar Þór Gunnarsson formaður nemendaráðs Grundaskóla og fulltrúi í unglingaráði kvaddi sér hljóðs og gerði að umtalsefni styttingu náms til stúdentsprófs. Hann taldi að of margt yrði á döfinni hjá unglingum og hvaða áhrif styttingin hefur á þátttöku í veglegu félagslífi í grunnskólunum. Nefndi hann að verkefni eins og söngleikurinn í Grundaskóla fengi líklega ekki tíma á dagskránni ef auka þarf nám í unglingadeildinni. Hann taldi að vænlegra væri að halda þeim sveigjanleika sem nú er en þeir sem vilja geta lokið stúdentsnáminu á þremur árum ef þeir svo kjósa. Ragnar nefndi að þeir sem eru orðnir fullorðnir vildu ekki hafa farið á mis við unglingsár þar sem var tími til að vera virkur í félagslífi samtímis því að ganga í grunnskóla. Ragnar hvatti bæjarstjórn til að standa með unglingum í þessu máli og láta frá sér heyra.
Leó Daðason fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Arnardals og fulltrúi í unglingaráði tók næstur til máls og fjallaði um málefni Arnardals, hvað má bæta, hverju má breyta og fleira. Einnig nefndi hann félagslífið á Akranesi á sumrin þegar skóli liggur niðri og ekkert er á dagskrá í félagsmálum á Akranesi hjá unglingum á skemmtilegasta árstímanum.
Leó fjallaði um hvað kallaði helst á úrbætur í Arnardal t.d. hljóðkerfi, húsgögn, þó að eitthvað hafi verið bætt á seinustu árum, og loftræstingu. Hann nefndi sérstaklega hljóðkerfið það er að vísu bara einn hátalari upp í horninu sem virkar þar sem hinn sprakk fyrir um það bil ári. Unglingarnir vilja fá það í lag sem allra fyrst þar sem að þeim finnst einfaldlega leiðinlegt að mæta á böll og tónlistin berst bara úr einu horninu og hægt að spjalla á miðju gólfinu. Loftræsting í Arnardal er líka eitthvað sem að krakkarnir hafa verið að tala um þar sem að svo gífurlegur hiti myndast á böllum og það eru bara tveir litlir gluggar á efri hæð og svo auðvitað hurð út sem að hjálpar heilmikið en loftið nær þó ekki næstum eins langt inní húsið og maður óskaði.
Hvað varðar aðgengi og húsnæðismál Arnardals er aðgengi fatlaðra að Arnardal nánast ómögulegt og enginn möguleiki á að fólk í hjólastól og fleira geti komist þarna um. Mega án efa einhverjar breytingar eiga sér stað í þeim málum sagði Leó.
Leó benti á að Arnardalur er 80 ára gamalt hús og 25 ár síðan það var tekið í notkun sem félagsmiðstöð og hafa engar meiriháttar breytingar verið gerðar síðan þá. Til dæmis eru ennþá sömu húsgögn á efri hæð og í sjónvarpsherbergi nánast 25 árum síðar. Einnig hefur teppið sem er í kringum parketið á efri hæð vafist fyrir gestum Arnardals á böllum. Áhugi er fyrir því að rífa veggi niður til að stækka stofupláss.
Síðan sagði Leó:
?Eru þá hugmyndir að rífa diskabúrið svokallaða og setja það frekar inní gömlu sjoppuna. Eins og áður segir hefur lítið sem ekkert gerst í Arnardal á 25 árum til að bæta aðstöðuna sem slíka þrátt fyrir stöðuga fólksfjölgum og hefur þá til dæmis verið byggður einn skóli og miklar stækkanir gerðar við skóla en ekkert gerst. Okkur þykir nú kominn tími til að taka til hendinni og gera eitthvað í málunum. Við vorum að hugsa um að ástæðan fyrir að ekkert hafi gerst er að Arnardalur sé bara bráðabirgðahúsnæði. Eða er það endanlegt kannski?
Reyndar er Arnardalur rosalega notalegur staður. Í rauninni má segja að hann sé heimilislegur á ákveðinn hátt og lítur ekki út eins og einhver stofnun sem er mjög góður kostur. Allra best væri auðvitað ef það væri hægt að halda húsnæðinu svona notalegu en einhverjar breytingar verða að eiga sér stað.
Við unglingarnir ræðum mikið um það að ekkert sé að gerast í bænum fyrir okkur á sumrin og finnst að það eigi að bjóða okkur uppá eitthvað félagslíf þá líka. Við teljum að í samvinnu við Vinnuskóla Akraness, sem heldur jú video-kvöld og þannig, að bærinn geti boðið upp á mun meira eins og sundlaugarpartý, böll eins og kannski 2 yfir sumarið og svo auðvitað böllin sem eru haldin á 17.júní og á Írskum dögum. Á þeim dögum, 17.júní og Írskum dögum, finnst okkur að það eigi að halda sérstök böll fyrir þennan aldurshóp, sem og er gert en lækka megi aldursmörkin frá 14 ára (s.s. við lok 8.bekkjar) og fram að þeim aldri sem kemst ekki inná 18 ára böllin, það er betra fyrir alla aðila heldur en að unglingar á þessum aldri séu hangandi fyrir utan hin böllin og reyni að svindla sér inn. Það er ekki sanngjarnt teljum við, að segja að það sé ball fyrir okkur og þá sé átt við böllin sem eru opin fyrir alla, fullt af fullorðnu fólki og lítil börn hlaupandi um. Það eru ekki þannig böll sem við höfum í huga, heldur eins og þau sem eru haldin yfir veturinn. Í Vinnuskólanum teljum við að það sé hægt að byggja upp stemmningu fyrir þessum böllum eins og í pásum og þannig. Um leið og eitthvað er um að vera verður allt skemmtilegra.
Hvað varðar áfengisneyslu og þess háttar, tel ég að auðveldlega sé hægt að koma í veg fyrir hana með góðri gæslu, eins og er á böllunum yfir veturinn.
En svona í endann þá vill ég bara hrósa góðum félagsmálum á Akranesi þar sem vel hefur verið staðið að þeim seinustu ár og einnig Írskum dögum fyrir frábæra stemningu. En ég vona að metnaður sé til að færa allt til hins betra.?
Þór Birgisson, fulltrúi Hvíta hússins og fulltrúi í unglingaráði kom næstur í ræðustól og fjallaði um sameiningu klúbbastarfs Nemendafélags Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akraness og Hvíta hússins.
Þór taldi að Hvíta húsið væri vel rekið, það væri góð aðstaða þar og virkilega mikið framboð af afþreyingu. En einhverra hluta vegna væru fáir sem engir að nýta sér þjónustu Hvíta hússins. Þetta þyrfti að laga að mati Þórs. Ástæðan fyrir því að hann færir þetta málefni í tal er að á þessum vettvangi næði hann eyrum ráðamanna og formanns NFFA. Síðan sagði Þór:
?Eftir 3 annir í skólanum, er ég farinn að undrast hversu slæm þátttaka nemenda í félagslífi er og annarra viðburða sem nemendum er boðið upp á. Ég hef heyrt glæsisögur frá gömlum nemendum skólans, um gott félagslíf í gegn um tíðina, eitt það besta á landinu.
Mínar tillögur til eflingar félagslífs og samvinnu milli Hvíta hússins og NFFA eru þessar:
Það væri gaman að sameina stjórnina í skólanum við stjórn Hvíta hússins. Og reyna að gera þetta að sjálfsögðum hlut að hafa atburði í Hvíta hússinu, deila fjármagni, hjálpast að við skemmtanir og fyrst og fremst efla félagslífið. Það væri nú alveg mjög gaman að geta sótt Hvíta húsið í þeirri góðu trú að það verði eitthvað fólk þar þegar maður kemur. En ekki tómt hús. Við þurfum að mynda smá stemningu og kemistrý.
Sameina klúbbastarfsemi, hafa skipulagða fundi milli forstöðumanns Hvíta hússins og nemendafélagsins. Og reyna að kveikja svolítið í félagsþorstanum hjá unga fólkinu. Það er bara tímabær mettun að hanga í tölvunni og hafa samskipti gegnum snúrur og tölvuskjái.
Ég legg til að áhersla Akraneskaupstaðar á starfsemi Hvíta hússins, breytist í þá átt að Hvíta húsið og Nemendafélagið verði eitt og hið sama. Ekki tveir aðskildir hlutir í sitthvorri víddinni. Og að nemendur fari að líta á Hvíta húsið sem sitt hús.
Að lokum vil ég benda bæjarstjórn á að bæjarstjórnarfundur unga fólksins er ekki á nógu skikkanlegum tíma fyrir nemendur FVA. Því núna eru prófin gengin í garð. Og nóg að gera hjá okkur.?
Kristín Edda Egilsdóttir, ritari í nemendafélagi Grundaskóla tók því næst til máls. Hún vildi nota þetta tækifæri til að vekja athygli bæjarstjórnar á biðlistum við Tónlistarskólann á Akranesi og nauðsyn systkinaafsláttar milli aðildarfélaga ÍA. Kristín Edda taldi að biðlistar eftir námi í Tónlistarskólanum á Akranesi væru óásættanlegir. Börn jafnt sem fullorðnir þyrftu að bíða í marga mánuði eða jafnvel nokkur ár til að fá inngöngu í skólann.
Hún upplýsti að sjálf hafi hún stundað nám í Tónlistarskólanum á Akranesi frá sex ára aldri og það væri frábært. Það væru forréttindi að fá slíkt tækifæri og mjög mannbætandi. Tónlist hjálpaði einstaklingum í námi og það ættu fleiri að fá slíkt tækifæri. Síðan sagði Kristín Edda:
?Af hverju er t.d. hægt að eyða stórfé í byggingu nýrrar íþróttarhallar, þar sem mjög takmarkaður fjöldi íþróttagreina getur haft aðstöðu, en það er ekki hægt að stækka Tónlistarskólann eða ráða fleiri tónlistarkennara til að koma til móts við fólk sem hefur áhuga á tónlist?
Ég veit að það hafa ekki allir efni á því að senda börn sín í tónlistarskóla. En það verður að segjast mjög óréttlátt að plássleysi sé það sem komi í veg fyrir að hinir, þeir sem hafa getu og áhuga á, geti fengið að stunda tónlistarnám.
Það getur reynst efnalitlu fólki erfitt að senda börn sín í tónlistarskóla. Það er nú samt ódýrara að stunda nám við Tónlistarskólann hér heldur en á höfuðborgarsvæðinu sem er mjög jákvætt.
En svo ég haldi nú áfram að tala um biðlistana. Þá er það nú frekar leiðinlegt að fólk sé á biðlistum í langan tíma og svo loks þegar komið er að því á listanum þá er það kannski búið að missa áhugann á að hefja nám. Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að breyta?
Nú mun ég snúa mér að hinu málefninu sem varðar systkinaafslátt innan íþróttabandalagsins, ÍA. Íþróttagreinarnar á Akranesi tilheyra allar einu og sama bandalaginu, þ.e.a.s. ÍA. En af hverju gildir þá ekki systkinaafsáttur á milli þessara greina? Það eru ekki allir foreldrar sem hafa efni á því að hafa börn sín í íþróttum, hvað þá ef þau kjósa sitthvora greinina. Eiga börnin að gjalda fyrir það? Er gert ráð fyrir að allir séu eins?
Hvernig á t.d einstæð fjögurra barna móðir eða faðir að hafa efni á því að leyfa börnum sínum að stunda íþróttir? Börnin hafa ef til vill ekki áhuga á sömu íþróttinni. Eða þurfa þau að hafa áhuga á því sama til að systkinaafsláttur gildi?
Hvernig hefur Akraneskaupstaður hugsað sér að bæta úr þessu? Eða hefur bæjarstjórnin ekki tekið þetta málefni fyrir?
Það væri nú hálf asnalegt ef systkini þyrftu öll að læra á sama hljóðfærið til að fá systkinaafslátt. Af hverju gildir ekki þessi systkinaafsláttur í íþróttunum eins og í Tónlistarskólanum?
Ég kem úr stórum systkinahópi og tala því af reynslu. Foreldrar mínir hafa ekki gert þá kröfu til okkar systkininna að við stundum öll sömu íþróttagreinina. Fyrir vikið hefur það reynst þeim mun dýrara. Þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta. Bætum það þá!
Síðast en ekki síst vil ég minna á að íþróttir og tónlistarnám hafa forvarnargildi. Forvarnir koma þannig inn á ýmsa þætti í lífi unglinga. Hverjum einstaklingi er nauðsynlegt að vinna að verkefnum sem eru við hans hæfi og bera sýnilegan árangur og þess vegna er mikilvægt að ná til sem flestra barna og unglinga.
Það þarf að leggja áherslu á að efla með unglingunum heilbrigðan lífsstíl, sjálfsvirðingu, ábyrgðartilfinningu, markmiðssetningu og merkingarbært líf sem er þess virði að lifa því og vanda sig við það!?
Guðmundur Páll þakkaði fyrir þau erindi sem bæjarstjórnarfulltrúar fluttu. Hann sagði að sumt af því sem fjallað hefur verið um hafi verið til umræðu í bæjarstjórn Akraness. Hann beindi þeirri spurningu til Stefáns hvenær hann teldi að halda ætti bæjarstjórnarfund unga fólksins. Einnig vildi Guðmundur vita hvaða markmiðum ætti að stefna að með stofnun nýs fótboltafélags. Guðmundur spurði síðan Ásu Katrínu hvað hún teldi að setustofan yrði fyrir marga ef henni yrði skipt upp og hvaða aldurshópur fengi afnotarétt.
Stefán telur að best að halda fundinn um miðjan nóvember. Hann sagði markmið nýja félagsins að efla þann hóp sem situr eftir og fær ekki að vera með í meistaraflokki ÍA.
Ása Katrín sagði að ætlunin væri að koma öllum fyrir í nýrri aðstöðu sem nýttist allri unglingadeildinni frá 8. - 10. bekk.
Guðmundur Páll beindi síðan þeirri fyrirspurn til Ragnars hvort það væri til einhver leið til að tryggja að félagslífið bíði ekki hnekki ef nám til stúdentsprófs verður stytt. Einnig spurði Guðmundur Páll, Leó hvort hann væri sáttur við innra starf Arnardals. Hvaða skoðun hefur Leó um annað húsnæði t.d. KFUM og K húsið.
Ragnar vildi upplýsa að nemendafélagið í Grundaskóla hefði kostað allar breytingar á Gryfjunni. Varðandi styttingu náms til stúdentsprófs þá taldi Ragnar æskilegra að nemendum væri gert kleift að ljúka grunnskólanum í 9. bekk.
Leó taldi að góð nýting væri í Arnardal og góð aðsókn að þeirri dagskrá sem þar er í boði. Hann taldi að með fjölgun íbúa á Akranesi þyrfti stærra húsnæði. En það væri ekki æskilegt að byggja við Arnardal. Gott og fjölbreytt starf í Arnardal.
Guðmundur sagði frá því að þrátt fyrir að það fjölgaði á Akranesi þá fjölgar ekki í árgöngum grunnskólanna. Niðurstaðan væri þá sú að það þyrfti að laga húsnæðið að breyttu starfi.
Guðmundur Páll spurði Þór hvað hafi breyst í félagslífinu í FVA og hvaða ástæður eru þá fyrir því. Guðmundur spurði jafnframt hvort ganga þurfi alla leið og sameina rekstur Hvíta hússins og starf NFFA
Guðmundur spurði hvort Kristín Edda hefði skoðun á því hvort hægt sé að breyta kennslufyrirkomulagi í Tónlistarskólanum til að eyða biðlistunum þannig að fleiri nemendur séu í kennslustund. Varðandi systkinaafsláttinn innan aðildarfélaga ÍA þá hefur bæjarstjórnin fjallað um þetta og verið er að leita leiða til að framkvæma það
Þór sagði það væri barátta að fá nemendur til að stunda félagslífið. Hann sagði að eldri nemendur segi frá því að í ?gamla daga? komu margir líka bæjarbúar og foreldrar. Þór telur að tölvan hafi þar sterk áhrif. Hann segir að engir stundi Hvíta húsið, hann þekkir að minnsta kosti engan. Telur að það eigi að sameina NFFA og rekstur Hvíta hússins.
Kristín sagðist vera á báðum áttum varðandi breytta kennsluhætti. Hún telur að ef að margir eru saman í tíma þá mundi árangurinn minnka. Það sé einstaklingsbundið hve miklum framförum einstaklingar ná. Hún ítrekaði afstöðu sína um að systkinaafslætti yrði að koma á.
Guðmundur lýsti því yfir að margt að því sem fram hefur komið mun bæjarstjórn taka til greina og reyna að bregðast við. Annað þyrfti að ræða betur við unglingaráðið. Hann beindi þeirri spurningu til Þórs hvort hægt væri að virkja foreldra meira í félagsstarf.
Þór sagði að hann hafi heyrt að foreldrar séu ekki tilbúnir til að starfa í félagslífi í kringum framhaldsskólann en það væri hægt að fá foreldra til að sækja viðburði í skólanum t.d. kaffihúsakvöld.
Guðmundur óskaði eftir því að Ása Katrín svaraði því hvort nemendur gætu hjálpað til við að laga félagsaðstöðuna í Brekkubæjarskóla.
Ása Katrín sagði það lítil mál. Einnig sagði hún að það mundi hafa áhrif á gæði kennslunnar í Tónlistarskólanum ef tekin væri upp hópkennsla.
Guðmundur bauð fundarmönnum að taka til máls.
Þór telur að bæjarstjórnarfundur unga fólksins eigi að vera að hausti. Að því búnu var fundi slitið kl. 18:00.
Helga Gunnarsdóttir, fundarritari