Bæjarstjórn unga fólksins
Ár 2007, þriðjudaginn 30. október, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00. Fundinum var útvarpað á FM 95,0.
______________________________________________________
Mætt voru: Ásdís Sigtryggsdóttir, formaður unglingaráðs Akraness
Lárus Beck Björgvinsson formaður Arnardalsráðs,
Gyða Kristjánsdóttir, nemandi FVA
Salvar Georgsson, formaður NFFA
Jensína Kristinsdóttir, formaður nemendafélags Grundaskóla
Engilbert Svavarsson, stjórnarmaður í nemendafélagi Grundaskóla
Aðalbjörg Þorkelsdóttir, formaður nemendafélags Brekku-bæjarskóla
Eydís Aðalbjörnsdóttir formaður skólanefndar og bæjarfulltrúi setti fund og stjórnaði umræðum. Hún byrjaði á því að fara yfir fundargerð síðasta fundar og rifjaði upp mörg þeirra málefna sem voru til umræðu á fundinum fyrir ári síðan. Fundargerðin er á heimasíðu Akraneskaupstaðar.
Einnig sat fundinn Helga Gunnarsdóttir, sviðsstjóri fræðslu-, tómstunda- og íþróttasviðs sem ritaði jafnframt fundargerð. Jón Pálmi Pálsson bæjarritari stjórnaði útsendingu.
Dagskrá:
Fyrst tók til máls:
Ásdís Sigtryggsdóttir,formaður unglingaráðs. Ásdís fjallaði um aðstöðu sem félagsmiðstöðin Arnardalur og Hvíta húsið hafa yfir að ráða og hvert beri að stefna í þeim málum. Hún sagði m.a.;
?Nú er loks komið á hreint að Arnardalur hefur þjónað sínum tilgangi og vel það, það hefur verið gert ráð fyrir að öll hans starfsemi verði flutt úr því húsnæði sem að hún er í í dag og liggur því dálítið á því að finna nýtt húsnæði fyrir þá starfsemi.
Hvíta Húsið hefur gengið ljómandi vel síðsta árið og hafa verið gerðar þar gagngerar endurbætur og breytingar. Húsið er að festa sig í sessi sem félagsmiðstöð og er nánast alltaf líf í því. Þó hafa komið upp ýmis vandamál, misstór, er varða húsnæðið. Húsið sjálft er náttúrulega mjög gamalt og þarf að halda því við eins og öðru. Það má þó ekki gleymast að þessa stundina gengur húsið betur en það hefur nokkurn tímann gert áður og er gaman að sjá hversu vel sótt það er nú í dag... . Það er deginum ljósara að aðgerða er þörf, Arnardalur er algjörlega ófullnægjandi húsnæði. Það er bæði of lítið, illa farið og aðgengi fyrir hjólastóla er ekkert. Arnardalur var hugsað sem bráðabirgðahúsnæði fyrir 27 árum síðan og er það bæjarfélaginu til skammar að starfsemin skuli enn vera í þessu ?bráðabirgðahúsnæði?.
Nú er svo komið að Tónlistarskólinn er fluttur af Þjóðbraut 1. Þar hefur því losnað frábært rými sem að mínu mati væri tilvalið undir starfsemi Arnardals. Gamli Tónlistarskólinn er auðvitað of stór fyrir Arnardal eingöngu, og því væri tilvalið að nýta húsnæðið undir þá starfsemi sem rekin er í Arnardal í dag, ásamt annarri starfsemi sem að setið hefur á hakanum undanfarin ár. Í gamla Tónlistarskólanum er allt sem til þarf til þess að reka Arnardal með sóma. Skrifstofuaðstaða er frábær og gætu því starfsmenn Arnadals, Hvíta hússins og jafnvel vinnuskólans haft skrifstofuaðstöðu þar. Í húsinu er til staðar tölvuver, margar misstórar kennslustofur sem gætu nýst undir ýmsa starfsemi, s.s. föndurherbergi, sjónvarpsherbergi, leikherbergi og svo framvegis. Þar er líka frábær salur sem að gæti nýst Arnardal, Hvíta Húsinu og væntanlega þeirri starfsemi sem fengi inni með Arnardal líka. Í húsinu er einnig til staðar stúdíó sem að ég er viss um að gæti nýst vel.
Nú vilja margir fá afnot af Tónlistarskólanum, enda um frábært húsnæði að ræða með marga möguleika. Til dæmis gæti ég vel séð fyrir mér að Skagaleikflokkurinn mundi fá afnot af húsinu með Arnardal. Húsnæðismál leikflokksins hafa verið í miklum ólestri seinustu ár og hefur hann þurft að skipta um húsnæði oftar en ég hef tölu á. Nú er að mínu mati kominn tími til þess að sýna leikflokknum þakklæti fyrir allar þær frábæru sýningar sem að hann hefur sett upp hér í bænum, þrátt fyrir mikil vandræði með bæði æfinga- og sýningahúsnæði sem og geymslurými. Þarna gæti leikflokkurinn haft til umráða herbergi til samlestra, handritsvinnu, leikmynda- og búningagerðar og æfinga. Einnig væri hægt að setja upp sýningar í húsinu án þess að raska þyrfti dagskrá annarrar starfsemi verulega. Þó höfum við alltaf Bíóhöllina, sem er frábær til sýninga af þessu tagi. Einnig eru fleiri hópar sem beðið hafa um úrbætur í húsnæðismálum svo sem Félag eldri borgara og fleiri.
Ef að þetta væri framkvæmt gæti öll starfsemi Arnardals verið undir einu þaki. Lengd viðvera fyrir fötluð börn gæti verið hluti af henni áfram og jafnvel væri hægt að taka eldri hlutann af skóladagvistuninni þangað inn. Þá byði Akranesbær þessum hópum frábæra þjónustu sem að við gætum öll verið stolt af.?
Lárus Beck Björgvinsson, formaður Arnardalsráðs var næstur á mælendaskrá og hann fjallaði um aðstöðu til íþróttaiðkunar og forvarnargildi íþrótta:
?Fyrst vil ég taka það fram að fótboltinn er með alveg frábæra aðstöðu og vil þakka ykkur kærlega fyrir það að hafa byggt þessa höll. Hún hefur komið að mjög góðum notum því að krakkar á öllum aldri eru bæði duglegri að mæta á æfingar og að fara að leika sér í fótbolta núna yfir veturinn. Það segir okkur bara það að þessi höll er jafnvel að gefa okkur enn betra fótboltafólk en við höfum haft í gegnum árin og það er ekkert nema gott.
Næst ætla ég að tala um fimleikana á Akranesi en þar hafa krakkarnir það ekki alveg jafn gott. Í fyrsta lagi eru yfir 100 manns á biðlista vegna þess að aðstaðan er það lítil að fólk þarf jafnvel að bíða í heillangan tíma og þar af leiðandi að sleppa því að æfa íþróttina sem það langar mest að æfa. Eiga ekki allir að fá að æfa það sem þá langar mest til þess að æfa? Og í öðru lagi þá þurfa þjálfarar og iðkendur að leggja það á sig fyrir hverja einustu æfingu að setja allt upp áður en þau geta farið að æfa og þurfa svo að taka allt niður aftur eftir æfingarnar. Mér finnst að fimleikarnir eigi að fá sína eigin aðstöðu svo að allir geti æft sem vilja æfa, og að ekki þurfi að setja upp fimleikadótið fyrir hverja einustu æfingu. Einnig væri hægt að nota húsnæðið fyrir íþróttir í skólunum en það er mikið um fimleika í þeim og það yrði mjög fínt ef skólarnir gætu fengið að nota aðstöðuna einstaka sinnum, íþróttaskólinn gæti líka fengið að samnýta aðstöðuna. Svo væri hægt að keppa í fimleikum á Akranesi sem væri algjör snilld bæði fyrir krakkana hér og krakka frá öðrum bæjarfélögum.
Mig langar líka aðeins að tala um aðstöðuna fyrir karate-ið en það er bara niðri í litlum sal að æfa og finnst mér að þau eigi að fá betri aðstöðu. Kannski væri hægt að byggja íþróttahúsnæði á Akranesi sem er bæði fyrir fimleikana og karate-ið? þeir gætu þá fengið stærri sal og meiri tíma til þess að sinna íþróttinni. Ég veit að karate er að verða vinsælla og það fer að koma að því að þessi aðstaða verði bara engan veginn nothæf og þess vegna held ég að það sé best að reyna að koma þeim í betri aðstöðu.
Einnig vantar á Akranes til dæmis handbolta, og dans og það hefur aukist að krakkar fari til Reykjavíkur að æfa þessar íþróttir og það getur bæði verið tímafrekt og þau geta ekki notað 5000 króna ávísunina sem bærinn sendir inná heimilin.
Það er marg sannað að íþróttir er góð forvörn og þess vegna finnst mér að við verðum að reyna að halda krökkunum í íþróttum. Íþróttafélögin eru almennt mjög afreksmiðuð það er öll þjálfun snýst um það að gera afreksfólk í íþróttinni. Með bættri aðstöðu og aðeins meiri launum fyrir þjálfarana væri hægt að hafa þjálfun fyrir afreksfólk og líka fyrir meðalmanninn. Þess vegna finnst mér að bærinn eigi að leggja smá pening í þetta því það myndi í rauninni bara spara bænum pening vegna þess að þetta er besta forvörnin og þar af leiðandi þyrfti ekki að halda jafn mikið af forvarnarfyrirlestrum o. fl.?
Gyða Kristjánsdóttir, nemandi í FVA tók næst til máls og fjallaði um hvernig það er að vera nemandi á heimavist Fjölbrautaskólans. Hún sagði m.a.;
?Ég átti von á því að mér myndi sjaldan leiðast á Akranesi, að ég gæti alltaf fundið mér eitthvað til afþreyingar. Þær væntingar stóðust nú ekki alveg verð ég að segja. Ég sá strax fram á það að ég þyrfti að finna mér eitthvað til afþreyingar til að gera á kvöldin eftir skóla, því ég komst fljótt að því að það er ekkert allt of mikið í boða fyrir ungt fólk til afþreyingar í bænum. Helsta afþreying unglinga hér er að ?rúnta?, eins og það er kallað, um allan bæ kvöldin út og inn. Fannst mér strax vera skortur á keiluhöll, skautahöll, klifursal eða eitthvað í þá áttina. Nú hefur notkun Hvíta hússins, félagsmiðstöð framhaldsskóla krakkanna hérna, reyndar aukist og er það frábært mál, en það er ekki eitthvað sem hentar öllum. En á heimavistinni bý ég með fullt af öðrum krökkum og umkringd vinum mínum og get því alltaf kíkt á vini mína.
Ég nýti mér mikla þjónustu hér á Akranesi eins og bókasafnið, sjúkrahúsið, pósthúsið, hárgreiðslu-stofur og svo framvegis og finnst mér hún mjög góð. Mér finnst verslunarþjónustan á Akranesi mjög góð og er hún stöðugt á uppleið sem er auðvitað alveg frábært.
Þar sem ég hafði verið að æfa fótbolta fyrir vestan, ákvað ég að halda áfram að æfa og skráði mig í ÍA og byrjaði að æfa með stelpunum hér á Akranesi. Er ég núna tveimur árum síðar komin alveg á fullt í fótboltanum og í sumar bjó ég hálfpartinn í Borgarfirði til að geta keyrt nokkrum sinnum í viku út á Akranes á æfingar. Og er þetta núna orðið þannig að ég æfi 4 sinnum í viku eða oftar og er það alveg svakalega gaman og hressandi. Mér finnst þjálfarar og fólk sem kemur að fótboltanum sýna fólki sem er að æfa með Skaganum en býr ekki hér, ágætis tillit og skilning.?
Hún gerði einnig að umtalsefni hvernig Akurnesingar taka á móti heimavistarnemendum:
?Ég bjóst reyndar við því að Akranes væri aðeins opnara samfélag gangvart nýjum þar sem það er framhaldsskóli hér. Í Fjölbraut er fyrir flesta utanbæjarnemendur mjög erfitt að kynnast samnemendum sínum af Akranesi. Þar sem þeir þekkjast flestir fyrir en utanbæjarnemendur koma alveg nýir inn og þekkja oft ekki neinn. Á heimavistinni er maður mjög fljótur að kynnast hinum vistarbúunum því að allir vilja kynnast hverjum öðru og eru opnir fyrir því. Kynnast því vistarbúar oft innbyrðis en hafa lítil samskipti við Akurnesinga og er því oft erfitt fyrir þá að komast almennilega inn í félagslíf skólans.
Það hefur reynst mér frekar erfitt en þar sem ég á frekar auðvelt með að kynnast nýju fólki og ekki mjög feimin hefur þetta tekist á endanum hjá mér. Er ég komin vel inní félagslífið og er núna komin í stjórn leiklistarklúbbs nemendafélagsins í Fjölbraut. Þetta tókst með því að leggja mig virkilega fram við að kynnast Akurnesingum. Finnst mér samt frekar leiðinlegt hvað það var erfitt og vildi ég óska þess að það væri ekki oft svo erfitt fyrir aðra sem eru ennþá feimnari og ekki eins staðráðnir í þessu og ég var.?
Salvar Georgsson, formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands tók næst til máls og sagði:
?Ég ætla að ræða um hvernig fólk á aldrinum 16-20 ára getur kryddað menningarlífið hér á Akranesi og segja ykkur frá öllu því hæfileikaríka fólki sem stundar nám við Fjölbrautaskólann.
Ég ætla þó að byrja á því að þakka ykkur fyrir að bjóða okkur unga fólkinu að sitja bæjarstjórnarfund og fá athygli hér. Ég veit ekki hvort þetta er gert annars staðar en þetta er mjög flott og gott tækifæri fyrir ungt fólk að koma skoðunum sínum á framfæri beint til þeirra er ráða í þessum bæ.
Í bænum okkar stunda yfir 600 krakkar nám í framhaldsskóla. Og alltaf er pláss fyrir fleiri. Við viljum nefnilega fá fleiri krakka til að velja að stunda nám í bænum okkar. Það yrði ekki bara gott fyrir skólann heldur líka fyrir bæjarfélagið. Til að það geti orðið þarf að gera átak í að auglýsa betur og styrkja allt það mikla og góða menningarstarf sem fram fer í skólanum. Þar gætu bæjaryfirvöld komið inní og til dæmis styrkt nemendafélagið með stórum auglýsingum eða einhvers konar kynningu út á við. Því auðvitað geta stórir atburðir á vegum skólans orkað sem aðdráttarafl fyrir gesti í bæinn.
Á hverju ári setja nemendur upp frábærar leiksýningar. Á bak við hverja sýningu eru ótal vinnustundir. Nemendur fara á leik-, dans-, og söngnámskeið til að gera sýninguna sem fagmannlegasta. En það er ekki það eina. Nemendur sjá sjálfir um markaðssetningu, auglýsingagerð, búningahönnun, leikmyndagerð, ljósa og hljóðhönnun og svona mætti lengi telja. Reynslan sem krakkar eru að fá út úr vinnu við svona leiksýningar er alveg ómetanleg. Eða er það? Er hún ómetanleg? Hvað eru margar einingar í boði fyrir þátttöku í leikriti?
Margir krakkar hér á Akranesi fara til Reykjavíkur til að stunda nám á listnámsbrautum. Þessir krakkar sækja samt félagslífið sitt hér og sækjast jafnvel eftir að taka þátt í leikriti í okkar skóla. Hér er boðið upp á tveggja ára listnámsbraut, en aðeins er unnt að taka tónlist sem er í tengslum við Tónlistarskólann. Hvernig væri að bjóða upp á fleiri listnámsáfanga hér og meira óhefðbundið nám? Það væri til dæmis hægt að bjóða upp á einingabær námskeið sem tengdust beint vinnu við leikritið eins og búningagerð. Þannig geta krakkarnir í textílmennt saumað búninga, dansnámskeið gæti verið hluti af íþróttum, markaðsmál og auglýsingahönnun geta óbeint tengst stærðfræði og íslensku en líka markaðsfögum og sálfræði. Skólinn á að vera til fyrir nemendurna og bæjarfélagið á ekki að láta eins og skólinn komi því ekki við þó hann sé rekinn af ríkinu.
Skagamenn hafa lengi verið stoltir af Tónlistarskólanum sínum. En nemendurnir þar eru ekki bara í Tónlistarskóla. Þau eru líka í grunn- og framhaldsskólanum. Þau koma fram í leikritum og við hátíðleg tækifæri. Hvernig væri að hafa viðburðaráfanga í Fjölbraut þar sem bærinn leggur inn pantanir fyrir ákveðin verkefni. T.d að panta nokkra hljóðfæraleikara til að spila á opnunum, listsýningum eða móttökum á vegum bæjarins. Nú eða gleðja þá sem hafa minni möguleika á að fara út og sækja menningarviðburði. Það vita það allir að helsta aðdráttarafl framhaldsskóla er félagslífið.?
Í lok ræðu sinnar sagði hann:
?Mikið samstarf hefur verið á milli nemendafélagsins og Hvíta hússins. Við erum heppin að hafa félagsmiðstöð fyrir aldurinn 16+. En það er ekki nóg. Starfsemin hefur skilað mörgu góðu en húsið er orðið gamalt og nú er verið að laga það. Í allt haust hefur efri hæðin verið alveg ókynnt og ekki hægt að nota hana. Þessu þarf að kippa í liðinn hið fyrsta. Starfsemin var komin alveg á fullt og má ekki láta hana detta niður vegna þess hve viðgerðin tekur langan tíma. Ungmennahús þarf að vera vel tækjum búið þannig að það sé eftirsóttara að vera þar heldur úti á götunum.
Að lokum vil ég enn og aftur vekja athygli á að nemendur FVA eru um 10% af bæjarbúum. Látum þá vera sýnilega. ?
Jensína Kristinsdóttir, formaður nemendafélags Grundaskóla var næst á mælendaskrá, hún ræddi í upphafi um skólalóðina við Grundaskóla og sagði í því sambandi m.a.;
?Ég vil byrja á því að segja hvað við erum ótrúlega heppin að búa á Akranesi, vegna þess að það er mjög góð aðstaða fyrir ungt fólk að stunda sínar íþróttir og stutt að fara fyrir alla, en auðvitað má alltaf bæta eitthvað.
Ég veit af því að það á að fara að bæta eða laga skólalóð Grundaskóla og af því að það eru nemendurnir í skólanum sem leika sér á skólalóðinni finnst mér skynsamlegt að við komum með góðar tillögur um það sem hægt væri að breyta og bæta á skólalóðinni okkar. Um daginn var ég t.d. að lesa grein í Skessuhorninu um unga stelpu sem flutti hingað á Akranes nýlega frá sínu bæjarfélagi, þar sem hún hafði æft á listskautum. Þegar hingað var komið gat hún ekki haldið áfram að iðka sína íþrótt því það var engin aðstaða til, þess vegna skrifaði hún bréf til bæjarstjórans um það að fá skautahöll hingað í bæinn. Það er auðvitað mjög dýrt og kannski erfitt að framkvæma. En þá datt mér í hug af hverju væri ekki bara góð hugmynd að fá útisvell á skólalóð Grundaskóla þar sem er gott svæði á milli hólanna í kringum skólann og á veturna væri hægt að setja upp úðara sem gætu sprautað vatni á þetta ákveðna svæði og síðan fryst svo að krakkar gætu skautað í kuldanum. En þetta er hugmynd sem myndi gera skólalóðina skemmtilegri og fjölbreyttari heldur en hún er nú.?
Einnig talaði hún um íþróttaiðkun og þann kostnað sem því fylgir og af því tilefni sagði hún:
?Talandi um unglinga sem eru að hætta í íþróttum og fleiru þá væri hægt að hafa t.d. frítt í sund fyrir 18 ára og yngri, því þá munu unglingarnir örugglega fara oftar í sund sem er góð og skemmtileg hreyfing. Mig langar líka til að minna á líkamsræktarsalinn á Jaðarsbökkum því maður er að borga nærri því 400 kr. til að fara í ræktina, bara fyrir einn tíma. Ég veit að það er hægt að kaupa alls konar árskort og svoleiðis en þau kosta eitthvað um 20.000 sem er alveg hagkvæmt, en það eru ekki margir unglingar bara með tuttuguþúsundkallinn í vasanum fyrir þessu. Væri hægt að gera þetta aðeins hagkvæmara fyrir unglingana eða hafa meira innifalið í þessum kortum?
Það kostar óhemju mikið að æfa íþrótt og hvað þá fyrir þá sem æfa meira en eina íþrótt og fyrir fólk sem á mikið af börnum sem eru að stunda sitthvora íþróttina, það er enginn afsláttur gefinn fyrir systkini ef þau æfa kannski sund, fimleika og badminton, afslátturinn er bara ef systkinin eru að iðka sömu íþróttina. Af hverju væri ekki sniðugt að reyna að fá líka afslátt fyrir þau systkini sem hafa ekki áhuga að æfa það sama? Það sem foreldrar eru að borga fyrir börnin sín sem eru að æfa eitthvað, er rosalega mikið. Það er alveg hellingur af krökkum sem eru að æfa t.d. fótbolta og maður veltir fyrir sér af hverju það þarf að kosta svona mikið fyrir einn einstakling að æfa? Ég held að það séu margir sem gera sér ekki grein fyrir því að það er ekki bara verið að borga æfingagjöld heldur er það til viðbótar allur búnaður og ferðir sem farið er í, sem kosta ekkert smá mikla peninga. Foreldrar fá reyndar ávísun upp á 5000 kr. á ári fyrir hvert barn, en svo lítill peningur er engan veginn í takt við allan þann kostnað sem fylgir því að æfa íþrótt. Það er ósanngjarnt að geta ekki iðkað einhverja íþrótt sem maður er góður í af því að foreldrarnir hafa einfaldlega bara ekki efni á að borga gjöldin og allt sem íþróttunum fylgir eins og ég nefndi áðan.?
Engilbert Svavarsson nemandi í Grundaskóla, tók næst til máls og fjallaði um samþættingu náms og vinnu í grunnskólum.
?Nú á dögum er oft talað um einstaklingsmiðað nám þ.e.a.s að hver og einn eigi rétt á að fá nám við hæfi, en oft finnst mér vanta að komið sé til móts við þá nemendur sem eiga erfitt uppdráttar í bóklegu námi en eru kannski að standa sig betur i verklegu námi. Þá er ég að tala um t.d smíði, textílmennt, heimilisfræði og eða jafnvel myndlist. Svo er líka talað um að einstaklingur hafi ekki nægilegan metnað eða áhuga fyrir því námi sem stendur svo skýrt í námsskránni að allir séu skyldugir að læra.
Hversu oft höfum við séð krakka sem sýna ekki bóklega náminu áhuga og eru bara að slugsa í gegnum námið en koma svo aftur á móti á óvart og rúlla upp bílprófinu þegar þar að kemur því það er eitthvað sem þau hafa áhuga á, annað en áhugi þeirra á íslensku eða jafnvel stærðfræði.
Tökum eitt dæmi. Ég hef mjög lítinn áhuga á bóklegu námi og sinni því ekki af fullum krafti, Aftur á móti rekur pabbi minn smíðaverkstæði þar sem ég gæti hugsað mér að vinna eftir að skólaskyldu minni lýkur.Væri þá ekki hægt í samvinnu við skólayfirvöld að leyfa mér að fara á það verkstæði nokkra tíma á viku á skólatíma og fá það þá kannski metið sem val? Það hlýtur að felast nám í því að vinna við trésmíði.
Svo dæmi sé tekið úr okkar skóla var á þessu skólaári tekið upp á því að ef einstaklingur væri i viðurkenndri hreyfingu eða hópíþrótt í að minnsta kosti 3 tíma á viku þá gæti hann fengið það metið sem valgrein.
Þetta finnst mér frábært framtak hjá grunnskólum bæjarins. Því ekki að reyna að miða út frá þessu og leyfa þá kannski þeim sem áður voru nefndir, sem hafa ekki áhuga eða getuna í bóklegt nám að fá svona tækifæri til að geta sýnt hvað í þeim býr.
Það sem ég vil líka benda á er það fara ekki allir í bóklegt nám að lokinni skólaskyldu. Margir ætla sér frekar að nema verklegar greinar eins og til dæmis rafvirkjun, málmsmíði, trésmíði, pípulagningar eða kokkinn. Mér finnst vanta að skólarnir kynni betur fyrir nemendum þessa valkosti og að nemendur skilji að það sé vinna eins og önnur vinna. Það væri kannski tilbreyting ef skólarnir myndu taka að sér að kynna nemendum þessar verkgreinar og auka þannig í leiðinni vægi verkgreina í skólanum og bjóða þeim tækifæri til að læra eitthvað sem liggur vel fyrir þeim. Að lokum vill ég koma því á framfæri að nemendur Grundaskóla hafa óskað eftir nýrri matreiðslustofu. Teikningarnar eru allar tilbúnar en það eina sem vantar er fjármagn til að framkvæma þessa hugmynd og væri gott ef þið mynduð fjármagna það.?
Aðalbjörg Þorkelsdóttir, formaður nemendafélags Brekkubæjarskóla var síðust á mælendaskrá og gerði að umtalsefni Nám við hæfi ? nám fyrir alla. Hún sagði:
?Í þessu samfélagi sem við búum í, er óhemju margt í boði. Við getum stundað alls kyns íþróttir, spilað á margs konar hljóðfæri, tekið þátt í atvinnulífinu, gengið í fjöldann allan af félögum og svo mætti lengi telja. Svo ekki sé minnst á aðstöðuna sem við höfum fyrir allt þetta ofantalda. En það sem ég vil virkja enn betur og leggja áherslu á, er nám við hæfi, þá sérstaklega í grunnskólum.
Nemendur eru afar ólíkir og með mismunandi þarfir og áhuga gagnvart náminu. Sumum hentar betur að fara hraðar í gegnum það, öðrum hægar og svo eru það náttúrulega þeir sem hentar best að fara milliveginn í því. Þetta hugtak felst í því að nemendur fái nám við sitt hæfi, og að gerðar séu nægar kröfur til nemandans til að viðhalda getu hans og áhuga við áframhaldandi lærdóm.
Ég legg höfuðáherslu á nemendur á unglingastigi í grunnskóla, því á þeim aldri geta þeir farið að snúa sér betur að frekari framhaldsnámi, s.s. framhaldsskólanámi. Líkt og leikskólabörn eru farin að teygja sig smán saman yfir í grunnskólanámið ættu grunnskólanemar að fá að reyna fyrir sér í námsefni framhaldsskólanna.
Þegar ég byrjaði í Brekkubæjarskóla í 3.bekk var ég á undan í nánast öllum bókunum, en var látin vinna þær allar aftur. Ég lét það ekki mikið á mig fá á þeim tíma en fer svolítið að velta þessu fyrir mér í dag, og hvort þetta hefur eitthvað breyst síðan þá. En þó man ég eftir ákveðnum nemendum sem fóru í stuðningstíma í viðeigandi fagi, sem réðu ekki eins vel við námið af einhverjum ástæðum. Þetta fær mig til að hugsa ,,Af hverju er lögð minni áhersla á þá sem eru komnir á undan, en þá sem eru styttra komnir??
Auðvitað er sjálfsagður hlutur að hjálpa þeim nemendum betur sem þarfnast frekari aðstoðar við námið, en hvað verður þá um þá er reynist námið of auðvelt, og eru ef til vill komnir aðeins lengra? Væntanlega, ef ekki eru gerðar kröfur við hæfi, munu þeir falla aftur í sama horf og aðrir nemendur og er það ákveðin sóun á metnaði og námshæfileikum þessa nemanda.
Nú í dag er ég í 10.bekk og stuðningshóparnir eru enn fyrir hendi, en framfarir á framhaldsnámi eru í lítilli framkvæmd og ekki áberandi. Undanfarin ár hefur framhaldsnám nemanda á unglingastigi verið í þróun í takt við það sem hentar einstaka einstaklingi, og erum við enn á byrjandastigi í þeim málum.
Það er heldur gremjulegt að hugsa til þess að þessir nemendur fái ekki nógu mikla örvun út úr námi í skólanum og eyða tíma eftir tíma í námsefni sem þeir eiga í engum erfiðleikum með að skilja.?
Að lokum sagði hún:
?Þó er framhaldsnám fyrir nemendur í unglingadeild til staðar á Akranesi, þ.e. fjarnám við Verslunarskóla Íslands. Fjarnámið er í boði í skólanum okkar fyrir þá sem hafa lokið við samræmt próf í viðeigandi fagi. Það er ansi laust fyrirkomulag á því, og erum við heldur ekki að sitja neina tíma í námsefninu. Sjálf er ég í tveimur áföngum, þ.e. ensku og stærðfræði og fer þetta að mestu leyti fram í tölvusambandi við þá kennara er kenna fögin sem ég er í. Aðstoð og kennsla við þetta fjarnám er mismunandi háttað eftir skólum.
Í Grundaskóla var því þannig háttað að 9.bekkur fékk í fyrra sett stöðupróf í ensku og var metið út úr því hverjir hefðu getu og áhuga að taka samræmda prófið í lok vors 2007. Það var ákveðinn kennari sem setti þeim fyrir í viku hverri úr 10. bekkjarnámsefninu og voru þau síðan að læra það námsefni í hefbundnum enskutímum og undirbjó hann þau mjög vel undir það samræmda. Og þau eru núna einnig í fjarnámi í ensku og nokkur í stærðfræði.
Í Brekkubæjarskóla hins vegar voru engin sérstök stöðupróf tekin, né ákveðinn kennari sem að setti okkur fyrir. Okkur sem vorum þá búin að klára samræmda prófið var boðið að taka áfanga í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Það gekk svona upp og niður og var ansi laust skipulag á því. Við þurftum að borga bækurnar sjálf og þetta valt mikið á okkur því að við gátum helst ekki sleppt tímum í grunnskólanum til að mæta í tíma í Fjölbrautaskólanum. Þetta blessaðist þó allt saman í endann, en við fengum ekki eins mikið út úr einingunum eins og búist var við. Það vilja líka margir meina að fjarnám og að sinna náminu þannig að það er ekki borin skylda til að sitja í tímum, séu einfaldlega ódýrar einingar. Og auðvitað viljum við öðlast sem bestan skilning úr námsefninu, og þurfum við að fá skipulagt og vandað nám, góða aðstöðu og kennsluhætti til þess.
Ég óska eftir skýrri stefnu frá Akraneskaupstað hvernig þessum málum á að vera háttað í framtíðinni.
Ég bið ykkur um að hafa hugtakið,,Nám við hæfi- nám fyrir alla? ykkur að leiðarljósi í þessum efnum. Það væri t.d. hægt að láta nemendur taka stöðupróf í byrjun haustsins og vinna út úr því hvað hver og einn þarfnast í námi fyrir sig. Ég vil minna á að margir eru á sama róli í náminu og þess vegna gætu tímarnir verið hópaskiptir þar sem allir væru að vinna í sínu námsefni.
Með kostnað á framhaldsskólabókum fyrir grunnskólanema, finnst mér að ætti að úthluta nemendum gjaldfrjálst, með því t.d. að fá styrk frá ákveðnu fyrirtæki, Akraneskaupstað, ríkinu eða einhverju slíku til að m.a. sýna stuðning við þá sem eru komnir lengra.
Samkvæmt Landslögum eiga grunnskólanemendur að fá nám við hæfi, gjaldfrjálst.?
Fundarstjóri þakkaði fyrir ræður bæjarfulltrúa. Eydís spurði síðan bæjarfulltrúa unga fólksins út í ýmislegt úr ræðum þeirra og voru þau málefni sem gerð höfðu verið að umtalsefni rædd frekar. Meðal þess sem var rætt var hvort hægt væri að hafa starfsemi Arnardals og Hvíta hússins undir sama þaki? Hvernig hægt væri að hjálpa utanbæjarnemendum að aðlagast og kynnast ungmennum sem búa í bænum? Hvernig væri hægt að nýta betur hæfileika ungs fólks í þágu Akraneskaupstaðar? Hvort grunnskólanemendur mundu nýta sér atvinnutengt nám ef það væri í boði? Hvort það eigi að vera stöðupróf í grunnskólunum jafnvel sameiginleg fyrir báða grunnskólana? Þarf að kynna námsleiðir fyrir grunnskólanemendum? Hvar á að setja niður skautasvell á Akranesi? Hvernig er hægt að koma til móts við ungmenni sem vilja stunda líkamsrækt?
Fundi slitið kl. 18:10
Helga Gunnarsdóttir, fundarritari