Fara í efni  

Bæjarstjórn

1265. fundur 12. desember 2017 kl. 17:00 - 19:07 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
  • Ingibjörg Pálmadóttir aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Þórður Guðjónsson aðalmaður
  • Gunnhildur Björnsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.
Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar, að taka á dagskrá með afbrigðum mál nr. 1712066 (Deiliskipulag Skógarhverfi 2. áfangi - breyting byggingarreitir) og mál nr. 1701010 (fundargerð Höfða frá 27. nóvember síðastliðinum, Fyrrnefnda málið verður nr. 3 á dagskránni og síðarnefnda málið verður nr. 10 á dagskránni.

Samþykkt 9:0

1.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2018-2021.

1710116

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021 var samþykkt í bæjarráði þann 30. nóvember síðastliðinn og vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Forseti gerði grein fyrir fyrirkomulagi afgreiðslu vegna fjárhagsáætlunar og ber upp tillögu um að mál nr. 1. og nr. 2. verði tekin til umræðu saman. Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 2 en einnig fært sérstaklega til bókar afgreiðsla/atkvæðagreiðsla á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun árins 2018 undir lið nr. 1.

Jafnframt les forseti upp allar þær tillögur sem meðfylgjandi eru fjárhagsáætluninni og gerð er sérstök grein fyrir í fylgigögnum fundarins en tillögurnar eru alls 16 talsins og hyggst forseti bera tillögurnar upp til samþykktar í heild sinni.

Afgreiðsla á tillögu forseta um málsmeðferð:
Samþykkt 9:0

Forseti ber fjárfestingar- og framkvæmdaáætlun ársins 2018 upp til samþykktar.
Samþykkt: 7:0 (VLJ og GB sitja hjá)

2.Fjárhagsáætlun 2018 (og vegna tímabilsins 2019 - 2021)

1708093

Fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021 ásamt tillögum, var samþykkt í bæjarráði þann 7. desember síðastliðinn og vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Til máls tóku:
SI, SFÞ sem gerði grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa á frumvarpinu á milli umræðna og breytingum á tillögum sem meðfylgjandi eru fjárhagsáætluninni.

Frh umræðu:

VLJ sem lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar:

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar, sem er til umræðu og er hluti af fjárhagsáætlun, ber þess skýr merki að framundan eru kosningar enda er stillt upp miklum loforðum um dýrar fjárfestingar m.a. í íþróttamannvirkjum. Mikilvægt er að bæjarbúar og allir sem hafa hagsmuni af framgangi einstakra verkefna sem sett eru fram í áætluninni séu meðvitaðir um að ef fyrirliggjandi áætlun á að standast má lítið sem ekkert bregða út af í rekstrarumhverfi sveitarfélagsins og lítið svigrúm er skilið eftir fyrir önnur verkefni sem kann að reynast nauðsynlegt að ráðast í á næstu árum.

Á síðustu árum hefur vissulega myndast ákveðin framkvæmdaþörf í bænum. Farið hefur verið skynsamlega með fjármuni, áhersla lögð á að greiða niður skuldir sveitarfélagsins og það hefur gengið vel. Það kemur því á óvart að nú þegar kosningar nálgast skuli sett fram fjögurra ára áætlun með svo mörgum og kostnaðarsömum framkvæmdum. Við teljum einfaldlega að hér sé of bratt farið af stað eftir langvarandi framkvæmdaþurrð.

Einnig viljum við benda á að um leið og gert er ráð fyrir töluverðri uppbyggingu íbúðabyggðar, m.a. á nýjum skipulagsreitum, þá er hvergi gert ráð fyrir fjármunum til áframhaldandi uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum til að þjónusta þessa vaxandi íbúðabyggð og nefnum við þar sérstaklega uppbyggingu leikskóla.

Hafa ber í huga að íslenskt efnahagslíf er nú á toppi hagsveiflunnar og öllum má ljóst vera að sú sveifla á eftir að koma niður aftur. Skynsamlegt væri af opinberum aðila eins og Akraneskaupstað að halda að sér höndum á meðan slíkt ástand ríkir, til að vera betur í stakk búinn til að ráðast í framkvæmdir þegar verr árar.

Við óttumst að með þessari áætlun sé gerð tilraun til að lofa umfram það sem efni standa til og skapa þannig óraunhæfar væntingar hjá þeim bæjarbúum sem helst þurfa á nauðsynlegum innviðaframkvæmdum að halda.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar
Valgarður L. Jónsson (sign)
Gunnhildur Björnsdóttir (sign)

Frh umræðu:

GB, EBr, VÞG, ÞG, RÓ, ÓA sem leggur fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar:
Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir rekstrarárið 2018 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur nemi rúmum 242 milljónum króna og er það mesti rekstrarafgangur við fjárhagsáætlanagerð á þessu kjörtímabili. Rekstrarafkoma ársins 2017 stefnir í að verða góð og er það ekki síst vegna farsællar niðurstöðu í lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimilisins Höfða. Mikilvægt er að viðhalda þeim árangri á komandi árum til að gera betur í þjónustu við bæjarbúa og einnig til að nýta til uppbyggingar og sóknar fyrir bæjarfélagið. Liður í því er að draga með skynsamlegum hætti úr álögum á íbúa og fyrirtæki á Akranesi eins og fram kemur í lækkun á fasteignaskattsprósentu og lóðarleigu í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun.

Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar fyrir 2018-2021 er í senn metnaðarfull og góður vitnisburður um það svigrúm sem skapast hefur í rekstri Akraneskaupstaðar á þessu kjörtímabili, til að takast á við stór verkefni sem hafa mátt bíða þegar verr áraði. Okkar bíða stór verkefni eins og niðurrif og uppbygging á sementsreit, uppbygging á Dalbrautarreit og uppbygging íþróttamannvirkja. Mikil þensla í íslensku samfélagi nú um stundir og á komandi árum getur hins vegar haft afgerandi áhrif á framgöngu verkefna í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun.

Það verður áfram sem hingað til verkefni bæjarfulltrúa á Akranesi að byggja enn betri grunn undir rekstur Akraneskaupstaðar þannig að tekjur og gjöld verði í góðu jafnvægi og Akraneskaupstaður geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum og þjónustu sem honum ber til framtíðar.

Ólafur Adolfsson (sign)
Sigríður Indriðadóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)
Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir (sign)

Frh umræðu:
IP og VLJ.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:
1. Álagning gjalda.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2018.

a. Álagt útsvar verði 14,52% vegna launa ársins 2018.

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts breytast frá fyrra ári og verða eftirfarandi á árinu 2018:
i. 0,31% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (lækkun um 14.15% á milli ára).
ii. 1,32% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (óbreytt á milli ára).
iii. 1,62% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga (lækkun um 1,81% á milli ára).

c. Sorphreinsunargjald vegna íbúðarhúsnæðis verði óbreytt frá fyrra ári og verði kr. 18.786 fyrir hverja íbúð miðað við tvær sorptunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp) og verði kr. 16.021 miðað við tvær tunnur (ein fyrir almennt sorp og önnur fyrir flokkað sorp).

Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,30% af fasteignamatsverði atvinnulóða (lækkun um 18,65%) og 0,40% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða (lækkun um 62,09%) og verði innheimt með fasteignagjöldum.

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2018 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.
Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 17.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2018.

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2018, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2018.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir að almennar þjónustugjaldskrár hækki samkvæmt áætlaðri vísitöluhækkun neysluverðs, um 3,2% þann 1. janúar 2018.

Bæjarstjórn samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs. Bæjarstjórn er heimilt að víkja frá hinni almennu reglu með sérstakri ákvörðun hverju sinni um tiltekna eða tilteknar gjaldskrár.

Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi gjaldskrár:
a. Gjaldskrá íþróttamannvirkja

b. Gjaldskrá frístundaklúbbs

c. Gjaldskrá Gaman saman

d. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness

e. Gjaldskrá leikskóla

f. Gjaldskrá frístundar

g. Gjaldskrá vegna skólamáltíða

h. Gjaldskrá vegna sorphirðu og sorpeyðingar á Akranesi

i. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi

j. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi

k. Gjaldskrá Bókasafns Akraness

l. Gjaldskrá Héraðsskjalasafn Akraness

m. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness

n. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum

o. Gjaldskrá Akranesvita

p. Gjaldskrá tjaldsvæðisins í Kalmansvík

Forseti ber upp tillögu um samþykkt gjaldskráa.
Samþykkt 9:0

3. Tómstundastyrkur Akraness 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir hækkun á tómstundarframlagi Akraness á árinu 2018 og að ráðstafa um 37 mkr. til þessa á árinu 2018.
Samþykkt 9:0

4. Þjónusta dagforeldra - niðurgreiðslur vegna dvalar barna hjá dagforeldrum 2018.
Bæjarstjórn samþykkir hækkun á ofangreindum niðurgreiðslum á árinu 2018 og að ráðstafa um 45 mkr. til þessa á árinu 2018.
Samþykkt 9:0

5. Innritun barna á leikskóla Akraness 2018.
Bæjarstjórn samþykkir aukningu í fjárveitingum til leikskóla Akraness til að tryggja inntöku barna í samræmi við þau aldursviðmið sem sett hafa verið.
Samþykkt 9:0

6. Langtímaveikindi starfsmanna 2018.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 34,0 mkr. í fjárhagsáætlun vegna langtímaveikinda starfsmanna. Stofnanir kaupstaðarins geta sótt um fjárveitingu til þess sviðs sem stofnunin heyrir undir. Bæjarráð tekur endanlega ákvörðun um úthlutun fjármuna.
Samþykkt 9:0

7. Búnaðar- og áhaldakaup 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 10,4 mkr. vegna endurnýjunar tækja, áhalda og húsbúnaðar. Stofnanir kaupstaðarins geta sótt um fjárveitingu til þess sviðs sem stofnunin heyrir undir. Samkvæmt reglum bæjarráðs hefur bæjarstjóri heimild til afgreiðslu umsókna sem nema allt að kr. 500.000 en beiðnir um hærri fjárhæð fara til bæjarráðs til samþykktar.
Samþykkt 9:0

8. Stöðugildi fagaðila á velferðar- og mannréttindasviði 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 7,0 mkr. viðbótarframlagi til velferðar- og mannréttindasviðs vegna stöðugildis fagaðila í frekari liðveislu til að sinna heildstæðri þjónustu við fatlaða einstaklinga.
Samþykkt 9:0

9. Stöðugildi hjá Fjöliðjunni - aukning á starfshlutfalli þroskaþjálfa 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa viðbótarframlagi til Fjöliðjunnar vegna stöðugildis þroskaþjálfa í stað ófaglærðs starfsmanns.
Samþykkt 9:0

10. Stöðugildi kerfisstjóra á stjórnsýslu- og fjármálasviði 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa um 11 mkr. viðbótarframlagi til stjórnsýslu- og fjármálasviðs vegna stöðugildis kerfisstjóra hjá Akraneskaupstað.
Samþykkt 9:0

11. Heimild sveitarstjórnar til bæjarstjóra fyrir veitingu prókúru sveitarfélagsins sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir með vísan til 55. gr. laga nr. 138/2011/2006 að heimila bæjarstjóra að veita öðrum starfsmanni sveitarfélagsins prókúru. Prókúruhafar skulu vera fjár síns ráðandi.
Samþykkt 9:0

12.Námsgögn (ritföng og stílabækur) án endurgjalds til nemenda í grunnskólum Akraness 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa viðbótarfjármagni til grunnskóla Akraness að fjárhæð 4 mkr. til að mæta útgjöldum vegna kaupa á námsgögnum (ritföng og stílabækur) fyrir grunnskólanema á Akranesi árið 2018.
Samþykkt 9:0

13.Styrkveiting til íþrótta- og tómstundamálafélaga vegna barna- og unglingastarfs 2018
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa 3,5 mkr. viðbótarframlagi til íþrótta- og tómstundafélaga á Akranesi vegna barna og unglingastarfs sem er um 30% hækkun á framlaginu.
Samþykkt 9:0

14.Framlag til Skógræktarfélags Akraness 2018
Bæjarstjórn Akraness samþykkir að ráðstafa kr. 500.000 til Skógræktarfélags vegna ýmissa verkefna á árinu 2018.
Samþykkt 9:0

15.Stjórnmálasamtök á Akranesi 2018.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 1,0 mkr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0

16.Lántaka vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga A-deildar Brúar lífeyrissjóðs og LSR/LH Bæjarstjórn Akraness samþykkir lántöku að fjárhæð 371 mkr. vegna uppgjörs lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Akraneskaupstaðar í A-deild Brúar lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins/Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997 og breytinga á lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019 til 2021 ásamt tillögum.
Fjárhagsáætlun 2018 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 242 mkr. og að handbært fé í árslok verði um 1.114.689 mkr.
Samþykkt 7:0 (VLJ og GB sitja hjá)

3.Deilisk. Skógarhverfi 2. áfangi - breyting byggingarreitir

1712066

Skipulags- og umhverfissvið afgreiddi málið á 74. fundi sínum þann 11. desember 2017 og leggur til við bæjarstjórn að breyting verði gerð skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, á skilmálum deiliskipulags Skógarhverfis 2. áfanga.
Breytingin tekur til 1. mgr. í kafla 4.1.1 sem eru svohljóðandi samkvæmt gildandi skipulagi:
"Byggingarreitir eru skilgreindir á deiliskipulagsuppdrætti og málsettir á mæliblaði. Hús skulu standa innan byggingarreits. Þó mega þakbrúnir ná allt að 0,6 m út fyrir byggingarreit."

Lagt er til að skilmálar 1. mgr. í kafla 4.1.1 verði svohljóðandi:
"Byggingarreitir eru skilgreindir á deiliskipulagsuppdrætti og málsettir á mæliblaði. Hús skulu standa innan byggingarreits. Þó mega þakbrúnir ná allt að 0,6 m út fyrir byggingarreit. Svalir og útbyggingar á fjölbýlishúsum, t.d. útbyggðir gluggar, stigahús eða kennileiti mega ennfremur ná út fyrir byggingarreit."

Breytingin er gerð til samræmis við skipulagsskilmála í Skógahverfi 1. áfanga. Breytingin er almenn og mun ekki skerða hagsmuni nágranna hvað snertir landnotkun, útsýni,skuggavarp eða innsýn.

Til máls tók:
EBr.
Samþykkt 9:0

4.Næsti fundur bæjarstjórnar Akraness

1712055

Lagt er til að næsti reglulegi fundur bæjarstjórnar Akraness verði þann 9. janúar 2018.
Bæjarstjórn samþykkir að næsti reglulegur fundur bæjarstjórnar verði 9. janúar 2018.

Samþykkt 9:0

5.Fundargerðir 2017 - bæjarráð

1701005

3229. fundargerð bæjarráðs frá 30. nóvember 2017.
3230. fundargerð bæjarráðs frá 7. desember 2017.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

6.Fundargerðir 2017 - skóla- og frístundaráð

1701007

73. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 5. desember 2017.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Fundargerðir 2017 - velferðar- og mannréttindaráð

1701006

70. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 22. nóvember 2017.
71. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 5. desember 2017.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

8.Fundargerðir 2017 - Orkuveita Reykjavíkur

1701023

250. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 16. október 2017.
251. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. október 2017.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

9.Fundargerðir 2017 - Faxaflóahafnir

1701024

162. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna frá 17. nóvember 2017.
163. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna frá 8. desember 2017.
Til máls tók:
EBr um fundargerð nr. 162, lið nr. 5 og fundargerð 163, lið nr. 5.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

10.Fundargerðir 2017 - Höfði

1701010

78. fundargerð stjórnar Höfða frá 27. nóvember 2017.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
Forseti þakkar fundarmönnum fundinn og samstarfið á árinu. Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum á Akranesi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Því miður mistókst upptaka fundarins.

Fundi slitið - kl. 19:07.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00